22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þróun þessa máls og þau tímatakmörk, sem liðin eru. Svo og öll merki þess, að áhugi þjóðarinnar á málinu er mjög mikill og vaxandi, gera eðlilegt, að fram komi hér á Alþ. óþolinmæði. Sá áhugi, sem kemur fram annars vegar í nýjum og víðtækum samtökum um þetta mál, en hins vegar í vaxandi starfsemi og skrifum þeirra, sem hafa barist fyrir öndverðum málstað, sýnir að þjóðin hefur áhyggjur um framvindu málsins.

Þær stuttu umr., sem hér hafa farið fram, hafa staðfest það, sem flestir vissu raunar, í fyrsta lagi, að enn er víðtækur og alvarlegur ágreiningur um þetta mál innan ríkisstj., og einnig það, að a. m. k. einn stjórnarflokkurinn, Alþb., virðist eftir orðum formanns hans telja, að stjórnin standi og falli með þessu máli.

Það er ekki hægt að halda slíku máli gangandi, eins og gert hefur verið miklu lengur. Þjóðin verður að fá að vita, hvar hún stendur, hvort núv. stjórn tekst að steypa varnar- og öryggismálum hennar út í algert ábyrgðarleysi, öngþveiti og óvissu eða hvort tekst að finna einhverja skynsamlega og ábyrga lausn á þessu máli. Slíkir lausnir eru til og það fleiri en ein, - lausnir, sem ættu að fullnægja bæði kröfum um öryggi Íslendinga, skyldum okkar við land og þjóð og nágranna okkar og þjóðernistilfinningum okkar. Það er hægt að finna þá lausn, en ekkert bendir til þess, að núv. ríkisstj. sé líkleg til að finna hana. En hún getur ekki haldið þessu máli í óvissu öllu lengur, og það verður að koma einhver niðurstaða. Þá kemur í ljós, svo að ég taki upp orð formanns Alþbl., hvort stjórnin stendur eða fellur.