22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það voru tvö atriði í ræðu hv. þm. Norðurl. v., Ragnars Arnalds, sem ég tel rétt að leiðrétta, því að þau eru algerlega röng.

Fyrra atriðið er, að stjórnarflokkarnir hefðu í síðustu kosningum fengið umboð til að segja upp varnarsamningnum. Það mál lá ekki fyrir í síðustu kosningum og var alls ekki um það kosið, enda margsinnis yfirlýst af stjórnarsinnum, að í þeim kosningum hafi fyrst og fremst verið kosið um landhelgismálið.

Í öðru lagi segir þessi hv. þm., að þeir, sem hafi forgöngu um söfnun undirskrifta nú um andmæli gegn uppsögn varnarsamningsins og brottvísun varnarliðsins, krefjist þess, að hér sé erlent herlið um aldur og ævi. Þetta er rangt, staðlausir stafir. Þessi áskorun, sem allmargir menn hafa komið á framfæri og undirskriftirnar byggjast á, er andmæli gegn uppsögn samningsins nú og brottför varnarliðsins.

Þetta tvennt er því rangt hjá hv. formanni Alþb. En það er annað atriði málsins, sem ég vil einnig hreyfa í þessu sambandi. Það er eins og hv. fyrirspyrjandi minntist á, furðuleg leynd yfir þessu máli. Í svo stóru máli eru það ekki rétt vinnubrögð, að mánuðum saman haldi ríkisstj. fyrir alþm. og alþjóð algerlega leyndu því, sem er að gerast. Tveir fundir hafa verið haldnir til samningaviðræðna við Bandaríkjamenn. Það hefur verið upplýst af einum hv. þm. og það formanni eins stjórnarflokksins, hvað felist í tilboði, sem frá Bandaríkjunum hafa komið, eða yfirlýsingu um það, sem þau mundu geta fallist á til málamiðlunar. Það er rétt, að hæstv. utanrrh. hefur afhent utanrmn. þetta sem algert trúnaðarmál. Ég tel, að þessi leynd gangi of langt og nauðsynlegt sé fyrir þjóðina að fá vitneskju um, hvað hér hefur verið og er að gerast. Ég vil því að lokum spyrja hæstv. utanrrh., hvort frásagnir hv. þm. Vestf., Hannibals Valdimarssonar á fundi á Ísafirði, sem blöðin hafa síðan birt, séu ekki í meginatriðum réttar.