22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

161. mál, endurskoðun olíusölunnar

Fyrirspyrjandi (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin, þó að þau væru bæði óákveðin og þrátt fyrir þessar fsp. virðist lítil von um það, að a. m. k. á næstunni sé nokkurrar úrlausnar að vænta í þessum málum. Ég skil það vel, að þessi mál séu erfið úrlausnar. Ég sá ekki fyrir frekar enn hæstv. ráðh., þegar umræddar fsp. voru samdar, hve að mundi herða í þessum málum, annars staðar frá. En vegna þess ástands, sem hefur skapast, síðan umrædd n. var skipuð, sem málið hefur nú til athugunar, finnst mér sérstök og brýn nauðsyn á að herða á því, að n. ljúki störfum, og þá ekki síst með hliðsjón af því, ef hægt væri að koma upp hér einhvers konar birgðastöðvum, sem frekar mættu tryggja rekstur okkar fiskveiðiflota, sem er aðalgrundvöllur þess starfs, sem n. á að vinna, og fiskvinnslunnar í landi.

Mig minnir, að bæði hann og aðrir Alþb.-menn hafi flutt tillögur um þetta efni, meðan þeir voru í stjórnarandstöðu, og svipuðu máli hefur gegnt um okkur Alþfl.-menn, þegar við höfum verið í stjórnarandstöðu. Það hefur hins vegar ekki tekist innan þeirra ríkisstj., sem við höfum átt aðild að til skiptis, að fá um þetta einingu. Nú er hins vegar þetta mál sérstaklega á dagskrá vegna þess anda, sem í umræddu stjórnarsamkomulagi núv. ríkisstj. er, að þess mátti vænta, að gamlir flytjendur till. um breytingu á þessum málum hefðu þar meiri áhrif en okkur hefur tekist til skiptis í undanförnum ríkisstj. Þess vegna var fsp. flutt. En því miður fengust ekki skýrari svör við þeim spurningum, sem ég lagði fram, en umr. bera vitni.

Ég vænti þess, að við vöknum ekki upp við það, að sá nánast eini aðili, sem selur okkur þessi brennsluefni, hafi aðstöðu til þess að herða að þessum undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar með takmörkunum eða beinlínis lokun á sölu, eftir að þeim samningum lýkur, sem eru í gildi um þessi efni. Ég vil því vænta þess, að hæstv. ráðh. reki svo á eftir sem kostur er á, að umrædd n. ljúki störfum og taki einnig fyrir þann nýja vanda, sem borið hefur að höndum, eftir að n. sjálf var skipuð.