22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

161. mál, endurskoðun olíusölunnar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Í tilefni orða hv. síðasta ræðumanns er það út af fyrir sig rétt, að Alþfl. hefur sýnt þessu máli áhuga, eins og fsp. ber vott um. En ég tel, að eftir sem áður sé býsna óljóst, hvað flokkurinn vill í þessum málum, og að flokkurinn þurfi að skýra afstöðu sína betur. Í till., sem flutt var í fyrra, kemur alls ekki ljóst fram, hvað flokkurinn raunverulega vill. Hvað Alþb. snertir, þá er það ekkert launungarmál, að við teljum eðlilegustu viðbrögð okkar, bæði við olíukreppunni og höfum reyndar lengi verið þeirrar skoðunar, að olíuverslunin skuli þjóðnýtt. Er mönnum ljóst, hvernig stendur á um olíubirgðir í landinu núna undir stjórn olíufélaganna þriggja? Skv. upplýsingum, sem atvmn. Sþ. fékk frá olíufélögunum sjálfum í fyrra, eru aðeins til á hverjum tíma rúmlega tveggja mánaða öryggisbirgðir af olíu í landinu. Þetta er sem sagt fyrirhyggja olíufélaganna, sem hafa ekki komið sér upp meira tankrými en svo, að aðeins tveggja mánaða stöðvun á olíuflutningum til landsins mundi koma okkur óðar á kaldan klaka í þess orðs fyllstu merkingu.

Það væri einmitt mjög viðeigandi sem fyrsta skrefið í þá átt að þjóðnýta olíuverslunina, að olíuinnkaupunum og dreifingu olíu yrði komið þannig fyrir, að ríkið tæki að sér að byggja nýja og stóra olíuinnflutningsstöð þar sem komið yrði upp geymslurými fyrir a. m. k. fjögurra mánaða birgðir af olíu til viðbótar þeim öryggisbirgðum, sem fyrir eru, þannig að alltaf væru fyrir hendi a. m. k. hálfs árs birgðir af olíu í landinu. Ríkið semur nú um kaup á mestallri olíu til landsins og afhendir síðan samninginn þremur olíufélögum. En skv. þessu tæki ríkið alla heildsölu á olíu í sínar hendur í þessum fyrsta áfanga og skapaði þá um leið aðstöðu til að taka á móti olíuflutningaskipum, en á þann hátt er vafalaust unnt að lækka verulega olíuverðið. Ég bendi á þetta sem fyrsta skrefið að því marki, að olíuverslunin yrði öll þjóðnýtt, og myndi fagna því eindregið, ef Alþfl. væri reiðubúinn til að styðja þá stefnu afdráttarlaust.