22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

175. mál, vegagerð

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Frjálslynda flokksins hefur nú lengi og djarflega barist við kerfið og gengur víst ekki vel. En um þetta vil ég segja það, að ég hef kynnt mér öll þau gögn, sem þetta mál varða, og tel mig hafa gert skyldu mína í þeim efnum. Á hinn bóginn er mér sjálfsagt líkt farið og hv. fyrirspyrjanda, að ég er leikmaður, en ekki tæknimaður, og hlýt þess vegna að taka eitthvert mið af því, sem þeir menn, sem fara með þau mál og ég treysti fullkomlega, segja um þau.

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm., að það sé nokkur tregða hjá Vegagerð ríkisins, að Sverrir Runólfsson fái að reyna aðferð sína. En mér sýnist, að fyrsta skilyrðið til þess, að það verði gert, sé, að hann vilji það sjálfur. Að Sverrir hafi sætt einhverjum afarkostum af hendi Vegagerðarinnar, um það er það að segja, að til hans hafi verið gerðar minni kröfur en annarra. Það hefur verið sæst á það, vegna þess að honum hefur gengið illa að fá verkfræðinga til að vinna fyrir sig, honum hefur gengið illa að fá vinnuvélaeigendur til að leigja sér vélar, þá hefur verið boðið, að Vegagerðin legði fram allar þær vélar, sem hún hefur handbærar, og honum hafa ekki verið gerðir harðari kostir en það, að hann þyrfti enga kostnaðaráætlun að gera, ef hann gerði forsvaranlega, verkfræðilega verklýsingu. Allir aðrir, sem taka að sér störf hjá Vegagerðinni, verða að gera þetta hvort tveggja, og þeir verða líka annaðhvort að eiga eða leigja sér þær vélar, sem hér er um að ræða.

Sverrir Runólfsson hefur stofnað fyrirtæki um sínar framkvæmdir, og þetta fyrirtæki hefur keypt eina gamla vél frá Nova Scotia, sem kostaði álíka og gamall traktor. Það er allt og sumt, sem hann og hans félagsskapur hefur fram að leggja til þessara verka, sem hann telur, að muni gerbylta öllum vegaframkvæmdum í landinu.

Ég held þess vegna, að það sé síður en svo, þegar á allt er litið, að Sverri Runólfssyni hafi verið gert lágt undir höfði. Miklu frekar held ég, að honum hafi verið boðnir kostir, sem fáum eða engum öðrum hafa verið boðnir, m. a. það, að Vegagerðin borgaði brúsann, hver sem hann yrði. Hún vill þó ekki fara í framkvæmdina, fyrr en hún hefur a. m. k. þá verklýsingu í höndum, að hún geti gert sér einhverja hugmynd um, eins og ég sagði áðan, að kostnaður fari ekki langt fram úr því, sem eðlilegt er. Ætti að vera auðvelt fyrir mann, sem telur sig geta lagt mörgum sinnum, kannske þrisvar, fjórum sinnum ódýrari veg en aðrir, að verða við því að koma með svo fullkomna verklýsingu, að fagmenn geti eitthvað af því ráðið, hver kostnaðurinn raunverulega yrði. Allt tal um tregðu kerfisins í þessum efnum er því algerlega út í bláinn.