22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

175. mál, vegagerð

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það hlaut að koma að því, að málefni Sverris Runólfssonar kæmu til meðferðar á Alþ., svo mjög sem hann hefur talað um ágæti þeirrar aðferðar, sem hann þykist ráða yfir við vegagerð.

Mér þykja þessar fsp., sem hér eru fram bornar, bera vott um nokkuð sérstæða tilætlunarsemi, þ. e. að Sverrir Runólfsson skuli njóta einhverra sérstakra forréttinda til þess að fá vegavinnutæki hjá Vegagerð ríkisins að láni, og ekki eingöngu það, heldur eigi að fela honum sérstök verkefni, án þess að nokkur verklýsing, sem getur heitið því nafni, liggi fyrir.

Ég þarf að koma hér að smávægilegri leiðréttingu við ræðu hv. fyrirspyrjanda. Hann tók sem dæmi, að þegar tilraun var gerð með olíumalarlögin í Svínahrauni, hefði ekki þurft að leggja fram neina verklýsingu. Þetta er ekki rétt. Það, sem þar gerðist, var einmitt það, sem Vegagerðin hefur gert nú um nokkurra ára skeið og ég tel alveg rétt og hún ætti að gera í miklu ríkara mæli, þ. e. a. s. þar var um að ræða hreint útboð. Vegagerðin gerði sjálf sína verklýsingu. Gat að sjálfsögðu hver boðið í það verk sem vildi. Í þessu tilfelli var það Olíumöl h/f, sem þá hafði nýlega tekið til starfa, sem bauð í það verk, án þess að ráða yfir öllum þeim tækjum, sem þurfti til að framkvæma verkið. En það fyrirtæki fór hins vegar ekki fram á það við Vegagerðina, að hún útvegaði þau tæki, sem þyrfti. Hún sneri sér einfaldlega til verktaka, sem fyrir voru í landinu. Svo einfalt er það. Þetta er sú aðferð, sem Vegagerð ríkisins á að viðhafa.

Ég get ómögulega séð, að það hafi verið farið neitt sérstaklega illa með Sverri Runólfsson. Hann hefur að sjálfsögðu haft tækifæri eftir þetta sem aðrir til að bjóða í verk. Ég nefni sem dæmi frá s. l. ári bæði Grindavíkurveginn og Sandgerðisveginn. Sverrir hafði að sjálfsögðu tækifæri til að bjóða í þan verk og sýna þar með ágæti aðferðar sinnar.