22.01.1974
Sameinað þing: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

64. mál, brottnám mannvirkja frá styrjaldarárunum

Flm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. þm. Reykn., Matthíasi Á. Mathiesen, og 11, landsk., Ólafi G. Einarssyni, leyft mér að flytja á þskj. 70 svo hl,jóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta grafa eða fjarlægja herskálabotna og gafla, svo og aðrar ónotbæfar mannvirkjaleifar frá styrjaldarárunum, sem enn má víða sjá um land á byggðum og óbyggðum svæðum. Verk þetta verði unnið, að svo miklu leyti sem hægt er, á árinu 1974. Kostnaður við framkvæmdina greiðist úr ríkissjóði.“

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar reistu herir Bandamanna mikinn fjölda bygginga hér á landi. Mest voru þetta hermannaskálar, en einnig ýmsar aðrar byggingar til afnota fyrir herinn. Þessar byggingar voru reistar víðs vegar um landið, en þó langmestar hér við Faxaflóa. Að styrjöld lokinni urðu byggingar þessar ríkiseign og fengnar Sölunefnd setuliðseigna til ráðstöfunar. Smám saman voru þær síðan rifnar eða seldar, nýtanlegt efni hagnýtt, en eftir voru hlaðnir braggagaflar, steyptir sökklar og grunnar og ýmiss konar aðrar leifar. Gjarnan voru leifar þessar grafnar í jörðu, en þó má enn sjá bæði á byggðum og óbyggðum svæðum óhrjálega steypuklumpa, braggabotna og steypuskorsteina, er þjóna engum tilgangi, en særa augað og eru í fullkomnu ósamræmi við náttúru landsins. Þess vegna finnst okkur flm. þessarar þáltill., að nú sé kominn tími til þess að ljúka því hreinsunarverki, er hafið var fyrir nærri 30 árum. Ríkissjóður hlaut arðinn af nýtanlegu efni bygginganna. Þess vegna virðist eðlilegt, að hann beri kostnaðinn af hreinsuninni. Víðast mun vera hægt að grafa þessar leifar á staðnum, og ætti það verk ekki að vera sérlega kostnaðarsamt. Að sjálfsögðu þyrfti að vinna það í samráði við landeigendur og sveitarstjórnir. Nú er vaxandi áhugi á því að fegra landið og fjarlægja það, sem til óþurftar er. Hér er um að ræða ónothæfar leifar mannvirkja, er fyrir nærri þremur áratugum luku ætlunarverki sinu. Þess vegna er nú kominn tími til að lagfæra það, sem ábótavant er í þessu efni.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði að umr. lokinni vísað til fjvn.