22.01.1974
Sameinað þing: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

76. mál, stytting vinnutíma skólanemenda

Flm. (Halldór Blöndal) :

Herra forseti. Ég hygg, að sú ábending hæstv. menntmrh. sé rétt, að ég hafi ekki tekið það fram, að auðvitað áttu verstu lýsingar mínar eingöngu við mjög lítinn hóp nemenda. Það er til allrar hamingju svo, að flestir nemendur koma nokkurn veginn óskemmdir úr skólunum. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd, að á hverju ári eru nokkrir nemendur, sem koma stórlega skemmdir úr skólunum. Þetta held ég, að allir séu sammála um. Og ástæðan til þess er hreinlega sú, að skólarnir eru gagnvart lélegustu nemendunum ekki nógu jákvæð stofnun, til þess að þeim hafi tekist að laða þessa unglinga til jákvæðs starfs. Það, sem ég legg til, að gert sé, er að gefa þessum nemendum kost á því að velja á milli þess að vera í skóla síðustu ár skyldunámsins eða stunda vinnu, gagnleg störf, undir eftirliti fræðsluyfirvalda. Það er það, sem ég legg til.

Ég vil aðeins út af því, sem hæstv, menntmrh. sagði, að það væri markmið grunnskólafrv. og skólakerfisins að koma öllum til nokkurs þroska víkja að því, að því miður hefur stefnt svo í skólamáluan, að nú er ekki hægt að taka undir þessi ummæli alhliða. Er t. d. komið svo nú, að í framkvæmdinni er ætlast til þess, — eða hvort það er samkv. grunnskólafrv., ég hef ekki kennt í 3. bekk gagnfræðaskóla nú um nokkurt skeið, svo að ég kann ekki alveg námsskrá landsprófs, — en ég hygg, að annaðhvort sé sú breyting á orðin eða í þann veginn að verða, að sama námsefni og sömu prófkröfur skuli gerðar í landsprófum miðskóla og í gagnfræðaprófi. Þetta er þá hugsað þannig, að ef nemandi geti ekki tileinkað sér þetta námsefni á einu ári, þá skuli hann fá til þess tvö ár. Þetta er sett upp í tvíliðu, hæfni manna til að tileinka sér ákveðið námsefni. Nú hafa tilraunir, sem gerðar hafa verið um þetta af kennurum, leitt hið gagnstæða í ljós. Ég álít, að við séum komnir þarna að miklum kjarna málsins. Ég álít, að þau samræmdu próf, eins og unnið er að þeim í skólakerfinu, séu hættuleg fyrir allt starf í skólunum. Ég álít, að það eigi að gefa skólunum svigrúm til þess að þróast nokkuð sinn í hverja áttina, skólarnir eiga að fá möguleika og hafa tækifæri til þess, að hver þeirra marki á sinn hátt sitt námsefni, en að sjálfsögðu undir eftirliti menntmrn., þannig að það geti fylgst með því, hvað er að gerast.

Um hitt atriðið talaði hæstv. menntmrh. ekkert, hvort hann teldi, að daglegur námstími væri of langur. Við getum aðeins gert þá reynslu á okkur sjálfum, hvernig okkur þyki að einbeita okkur frá kl. 8 að morgni til 4 e. h, að mismunandi verkefnum, eins og börnin verða að gera.

Ég ætla svo ekki að lengja þessar umr. að öðru leyti en því, að ég vona, að þessi till. fái eðlilega skoðun í n. Fyrir mér er ekkert aðalatriði, hvort þessi till. sé samþykkt, eins og hún liggur fyrir. Fyrir mér er aðalatriðið það, að till. verði til þess, að yfirmenn menntamála í landinu gefi því verulegan gaum, hvort við erum eð stefna í rétta átt. Erum við ekki að níðast á unglingunum? Það er þetta, sem þarf að athuga, og einnig hitt. Er það endilega víst, að Alþingi, fræðsluyfirvöld eða foreldrar geti krafist þess af börnum og unglingum, sem komin eru yfir fermingaraldur, að þau sitji í skóla, ef allur þeirra metnaður stendur t. d. til þess að fara á sjóinn? Margir af okkar bestu sjómönnum hafa einmitt kynnst sjónum á unga aldri, farið á sjóinn kornungir, og síðan hafa þeir gert hlé á sjómennsku, sest á skólabekk og lokið stýrimannaskólaprófi og reynst hinir mætustu atorku- og dugnaðarmenn í sínu starfi og lyftistöng fyrir sín byggðarlög. Má nefna margan manninn, sem þannig stendur á um. Við skulum ekki, eins og ég sagði áðan, gera of lítið úr því uppeldisgildi, sem er í vinnunni og í því að standa að verki með fullorðnu fólki, finna, að maður gerir gagn, skapar verðmæti. Við skulum ekki gera of lítið úr því.