23.01.1974
Efri deild: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að fagna því, að þetta frv. skuli fram komið, þar sem gert er ráð fyrir því, að stofnaður skuli sérstakur verslunarskóli eða skóli í viðskiptafræði á Norðurlandi. Þetta er gamalt baráttumál Norðlendinga. Hafa m. a. ungir sjálfstæðismenn mjög beitt sér fyrir þessu máli og gert um það ályktanir, og víða hefur komið fram áhugi á því.

Eins og kunnugt er, er Akureyri mikill verslunar- og iðnaðarbær og mikil þörf fyrir starfsfólk einmitt með viðskiptamenntun þar við hin margvíslegustu fyrirtæki, svo að þörf fyrir skóla af þessu tagi hefur verið mjög brýn.

Í aths. með frv. er tekið fram, að n. vænti þess, — væntanlega sú n., sem samdi þetta frv., að skóli af þessu tagi rísi á Akureyri innan tíðar. Mig langaði af þessu tilefni að spyrja hæstv. menntmrh., við hvað sé átt með þessu orðalagi, mér virðist það nokkuð rúmt. Mér skilst, að í fjárl. yfirstandandi árs sé ekki gert ráð fyrir, að skóli af þessu tagi geti tekið til starfa á næsta hausti, og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því, að í fjárl. fyrir næsta ár verði tekið framlag til skóla af þessu tagi. Ég álít, að þörfin fyrir slíkan skóla á Akureyri sé svo brýn, að það megi ekki lengur dragast.

Eins og fram kemur í aths. með frv., hefur einnig komið fram mikill áhugi á Húsavík fyrir því, að þar risi verslunarskóli. Húsavík er mjög vaxandi kaupstaður. Hitaveitan, sem þar er, og Kísilgúrverksmiðjan við Mývatn hafa að mínu viti gerbreytt vaxtarskilyrðum kaupstaðarins, og þar ríkir nú mikill stórhugur, m. a. í skólamálum. Skoðun mín er sú, að hiklaust eigi að stefna að því, að á Húsavík megi verða skólamiðstöð fyrir Þingeyjarsýslur. Þar er nú öflugt sjúkrahús, og þar er hægt að fá háskólamenntaða menn af margvíslegu tagi til þess að kenna valgreinar við skóla á framhaldsstigi. Ég álít því, að það eigi að leggja áherslu á að efla þar skólastarf og reyna með þeim hætti og á annan hátt að efla vöxt kaupstaðarins eins og hægt er.

Í þessu sambandi sé ég ástæðu til þess að minna á ýmis önnur baráttumál Norðlendinga í skólamálum. Ég minni t. d. á baráttuna fyrir fullkomnum tækniskóla og jafnvel tækniháskóla á Akureyri, en á því ríkir mjög mikill áhugi hjá heimamönnum.