23.01.1974
Neðri deild: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

172. mál, verndun Mývatns og Laxár

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Því máli hefur verið hreyft fyrir þó nokkru, hvort ekki væri ástæða til að gera sérstakar ráðstafanir með lagaákvæðum til að tryggja fullnægjandi vernd á þeim einstæðu náttúruskilyrðum, sem ríkja í Mývatnssveit og í því nágrenni, sem Mývatni er tengt með Laxá. Það ætti að vera á allra vitorði, svo að ekki þurfi að rekja í löngu máli, að Mývatn og svæðið þar í kring á sér engan líka hvað náttúruskil yrði snertir og náttúrufar hér á landi og þótt víðar væri leitað. Hins vegar fylgja nútíma atvinnuháttum og umferð ýmsar hættur fyrir náttúrufar slíkra staða, sem er viðkvæmt fyrir hvers konar mengun og átroðningi. Um þetta mál hefur margt verið sagt, en það komst á ný á dagskrá, þegar uppi voru samningaumleitanir um að binda endi á deiluna um virkjunarframkvæmdir í Laxá. Eitt af ákvæðunum í því samkomulagi, sem gert var um niðurfellingu málaferla í þeirri deilu, var, að ríkisstj. skyldi beita sér fyrir sérstakri löggjöf um verndun Mývatns- og Laxársvæðis.

Þetta ákvæði er ætlunin að uppfylla með því frv. til l. um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, sem fram er lagt á þskj. 275. Frv. þetta er samið fyrir forgöngu Náttúruverndarráðs. Það var talinn sjálfsagður aðili til að beita sér fyrir þeirri lagasetningu, sem fullnægði því fyrirheiti, sem gefið var af ríkisstj. hálfu, þegar Laxárdeilan var sett niður. Náttúruverndarráð hefur við samningu þessa frv. haft samband við heimamenn. Lagaákvæði frv. eiga að taka til Skútustaðahrepps og Laxár með hólmum hennar og kvíslum allt að ósi ásamt 200 metra breiðri ræmu á báðum árbökkum. Á þessu svæði eru með frv. settar hömlur á mannvirkjagerð og jarðrask umfram það, sem almennt er gert í náttúruverndarlögum. Þar má ekki reisa mannvirki né gera jarðrask nema með leyfi Náttúruverndarráðs. Sömuleiðis eru breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna óheimilar nema til verndunar og ræktunar, nema til komi sérstakt leyfi frá Náttúruverndarráði. Þó er tekið fram, að heimila skuli nauðsynlegar og eðlilegar framkvæmdir til búskapar á lögbýlum, nema Náttúruverndarráð telji, að þær framkvæmdir valdi spjöllum á náttúruverðmætum.

Í 4. gr. frv. er kveðið svo á, að komið skuli upp og rekin náttúrurannsóknastöð við Mývatn. Þegar hafa verið lögð drög að því að setja þá stöð á stofn, en samkv. frv. þessu eru sett í lög ákvæði um stjórn stöðvarinnar og starfsemi hennar. Gefur auga leið, að á stað eins og í Mývatnssveit hefur tilvera slíkrar rannsóknastöðvar mikla þýðingu, bæði fyrir hreinfræðilegar rannsóknir og ekki þó síður fyrir þau hagnýtu verkefni, sem leysa þarf og hljóta að koma til álita í sambandi við framkvæmd þess frv., sem hér er rætt um, ef að lögum verður.

Í stórum dráttum má segja, að markmiðið með þessari lagasetningu sé að fullnægja þeirri sérstöku verndarþörf, sem er á stað eins og við Mývatn og ekki er fullnægt með almennum ákvæðum náttúruverndarlaga. Þar þarf enn nánara eftirlit og enn ríkari rétt náttúruverndunar aðila heldur en á öðrum stöðum til þess að samræma á fullnægjandi hátt þarfir atvinnurekstrar, hefðbundins búskapar, ferðamennsku og verndunar náttúruverðmæta.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.