24.01.1974
Sameinað þing: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

41. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt, þegar þingbræður leggja áherslu á að heyra í manni, og ég þakka hv. síðasta ræðumanni tillitssemi hans við mig. Sannast að segja hafði ég enga ástæðu til þess að fyrra bragði að kveðja mér hljóðs um þetta efni, því að Magnús Jónsson, varaform. Sjálfstfl. hafði gert grein fyrir afstöðu flokksins í þessu máli á fullnægjandi hátt, sem ég var alveg sammála. Ef ég á að taka sérstakt mark á ummælum síðasta ræðumanns, væri það helst, hvað ég ætti við með grunsamlegum fasteignum Alþb., sem ég á að hafa haft orð á í þættinum Beinni línu í Ríkisútvarpinu.

Ég hef í tilefni þessarar till. til þál. aflað mér hljóðritunar af þessum útvarpsþætti, og ég sé ekki af þeirri hljóðritun, að ég hafi sérstaklega verið að tala um „grunsamlegar fasteignir“. En þar sem ég vék að fasteignum Alþb., sagði ég á þessa leið, með leyfi forseta: „En hins vegar hefur Alþb. eða samtök því áhangandi verið dugleg að afla sér fasteigna hér í borg og annað því um líkt undir mismunandi nöfnum, sem vert væri e. t. v. að kanna. En það er skattrannsóknadeildarinnar að gera það, og ég trúi því, að hún geti þá staðið í stöðu sinni.“ Ályktun mín var sem sagt sú, að ef þarna væri um að ræða fasteignir, sem ekki væri hægt að gera grein fyrir, hvernig keyptar væru, þá væri það skattrannsóknadeildarinnar að taka til hendi, og sú er enn skoðun mín. Ég skal rifja það upp, að hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, varaform. Sjálfstfl. gat um það í sinni ræðu, að hann væri sammála því og teldi sjálfsagt, að löggjöf verði sett um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka, þ. á m. hvernig haga skuli fjárreiðum stjórnmálaflokka. Í öðru lagi teldi hann óeðlilegt, að ríkisstj. yrði falinn undirbúningur slíkrar löggjafar, heldur væri sjálfsagt, að það væru fulltrúar stjórnmálaflokkanna sjálfra, sem undirbyggju þessa löggjöf. Í þriðja lagi lagði hann áherslu á, að við lærðum af reynslunni frá öðrum löndum og könnuðum, hvernig fyrirkomusag slíkra mála væri erlendis. Í fjórða lagi taldi hann sérstaka rannsókn á fjárreiðum stjórnmálaflokka í fortíðinni tilgangslausa, ef ekki væri til staðar lög og reglur um það, hvaða skyldur og réttindi stjórnmálaflokkar hefðu á þessu sviði. Og að því er snertir ummæli Morgunblaðsins um fjármagn, sem kommúnistar virðast hafa undir höndum, eins og þar er komist að orði, taldi hann tilgangslaust eð hafa uppi sérstaka rannsókn á því að því er fortíðina snertir, því að þeir, sem stæðu fyrir uppruna fjármagnsins, væru e. t. v. ekki mjög margorðir.

Ég rifja þetta upp nú líka af gefnu tilefni af ummælum hv. 3. landsk. þm., sem talaði hér langt mál um styrki til þingflokka og til blaða. Ég get að ýmsu leyti verið sammála því, sem hann sagði, og vil taka fram, að ég tel óeðlilegt, að blaðaútgáfa stjórnmálaflokka sé styrkt að öðru leyti en því, að eðlilegt kann að virðast, að úr ríkissjóði séu greiddar áskriftir blaða, sem dreift er á sjúkrahús eða aðrar opinberar stofnanir, og þá fer það eftir atvikum, hvort slík áskriftargjöld eigi að ákvarðast í einu lagi af Alþingi eða hvort slík áskriftargjöld eigi að vera þáttur í rekstrarkostnaði hverrar slíkrar opinherrar stofnunar fyrir sig. En umfram slíkar áskriftir tel ég ástæðulaust og óeðlilegt að styrkja blaðaútgáfu.

Varðandi styrk til þingflokka mátti draga þá ályktun af ummælum hv. 3. landsk. þm., að mikið vandamál væri þar á ferðum, þegar ákveða skyldi, með hvaða hætti úthluta skyldi þessum fjármunum. Ég hefði álitið, að styrkir til stjórnmálaflokka væru til þess fallnir að festa það flokkaskipulag í sessi, sem á hverjum tíma er í þjóðfélaginu, þannig að slíkt styrkjakerfi væri í raun líftrygging gömlu stjórnmálaflokkanna. Að vissu marki var hv. þm. sammála þessari skoðun minni og taldi, að slíka styrki, ef þeirra nyti við, þyrfti að veita ekki eingöngu þingflokkum, heldur og ýmsum stjórnmálaflokkum öðrum, sem til væru í þjóðfélaginu, og jafnvel ýmsum samtökum, sem störfuðu á þjóðmálagrundvelli. Ég varpa nú fram þeirri spurningu, hvernig eigi að skilgreina slík stjórnmálasamtök og hvernig eigi að semja reglur um skiptingu fjár þeirra á milli. Ég held, að það sé illkleift eða illmögulegt.

Það kann að vera eðlilegt, að nokkrir fjármunir séu veittir til þess, að þingflokkar geti fengið sérfræðiaðstoð til að undirbúa þingmál og gera sér grein fyrir þeim þingmálum, sem fram eru borin af öðrum þm. og þingflokkum. En miklum mun æskilegra væri, að slík sérfræðiaðstoð væri veitt af skrifstofu Alþingis sem slíkri og þingflokkarnir og hver þm. ætti aðgang að slíkri sérfræðiaðstoð á skrifstofu Alþingis, auk þess sem ég lít svo á, að hver þm. eigi rétt til þess að ganga til hvaða embættismanns ríkisins sem er og óska eftir því, að hann veiti upplýsingar um tiltekin atriði, sem snerta þau mál, sem þingið fjallar um. Það er ekki eingöngu ríkisstj. eða sá stjórnarmeirihl., sem er á hverjum tíma sem á að hafa aðgang að embættismönnum ríkisins, heldur allir stjórnmálaflokkar og hver og einn þm.

Ég tel ekki ástæðu til þess að sinni að fjalla nánar um þá till. til þál., sem hér er á dagskrá. Ég ítreka þá afstöðu, sem Magnús Jónsson gerði grein fyrir við fyrri hluta umr., sem ég gat því miður ekki verið viðstaddur, og tel sjálfsagt, að í n. verði till. breytt á þá lund, sem hann gat um, að hann felldi sig við.