24.01.1974
Sameinað þing: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

41. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, var sú till., sem hér er til umr., á dagskrá og til umr. 6. des. s. l. Þá var hv. þm. Geir Hallgrímsson ekki viðstaddur, en það var galli, að svo skyldi ekki vera, vegna þess að það voru einmitt óvenjulega digurbarkaleg ummæli þessa hv. þm. í útvarpi í haust, sem framar öðru hafa velt þessum umr. af stað. Hv. þm. Magnús Jónsson, varaformaður Sjálfstfl., tók til máls við þessar umr. og ræddi málið með almennum orðum, en gerði hins vegar ekki neina tilraun til þess að færa rök að hinum grófu ásökunum Geirs Hallgrímssonar, enda tók hann fram, að hv. þm. Geir Hallgrímsson væri fær um að svara fyrir sig sjálfur. Þar virðist honum heldur betur hafa skjátlast.

Við höfum heyrt tilraun hv. þm, til að skýra ummæli sín, og við heyrðum, að þar kom ekki fram minnsta röksemd fyrir þeim dylgjum, sem hann bar á borð fyrir þjóðina, ekki ein einasta dylgjum af ómerkilegustu tegund. Ég verð að segja, að mér finnst merkilegt, ef menn komast upp með að varpa fram svívirðilegum ásökunum í garð pólitískra andstæðinga án þess svo mikið sem gera einhverja tilraun til að finna þeim stað, þegar þeir fá tækifæri til þess eftir á. (Gripið fram í.) Við skulum lofa hv. þm. Geir Hallgrímssyni sjálfum að svara fyrir sig.

Ég sagði við umr. í des. s. l. og segi enn, að flestir hafa að sjálfsögðu gengið út frá því, að stærsti stjórnmálaflokkur landsins hafi ekki farið að velja einhvern venjulegan gasprara í formannssæti, heldur mann, sem gæti gert grein fyrir fullyrðingum sínum og hefði svolitla hugmynd um, hvað hann væri að fara með. Og ég stend í þessari trú enn. Ég er sannfærður um, að svo hlýtur að vera, og bíð eftir því, hvað er í pokahorninu hjá hv. þm., og trúi ekki öðru en hann noti það tækifæri, sem honum býðst nú.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson staðfesti það, sem fram kom í ræðu varaformanns flokksins, að flokkurinn virtist andvígur þessari till. og mælti heldur gegn því, að hún yrði samþykkt. Hins vegar komu nú ekki fram neinar skýringar á því, hvers vegna ekki væri ástæða til að samþykkja þessa till. Því var haldið fram áðan, að það vantaði lög og reglur til að framkvæma rannsókn af þessu tagi. Ég skil ekki, hvaða lög og reglur vantar í þeim efnum. Það eru til nægilega góð lög til þess, að slík rannsókn megi fara fram, þannig að sjást megi, hvort menn hafa eitthvað á bak við fullyrðingar sínar eða ekki. Eins er það, að till. fjallar um, að sett verði lög og reglur um starfsemi stjórnmálaflokka. Till. er einmitt um það efni.

Ég held, að menn hljóti að velta því fyrir sér, hvers vegna Sjálfstfl. virðist vera andvígur þessari till., hver er hin raunverulega ástæða fyrir því, að flokkurinn er ekki reiðubúinn til að styðja þessa hugmynd, sem ég hélt, að væri svo sjálfsögð, að hún hlyti að hljóta stuðning flokksins. (Gripið fram í.) Ég verð að segja það. Ég gat ekki skilið orð formanns og varaformanns á annan hátt en þann, að till. væri óþörf, en ef það er misskilningur hjá mér, þá væri gott, að það kæmi fram. Ég hef skilið það svo, að þeir væru andvígir þessu. Og ég sé ekki annað en menn hljóti að spyrja sig að því, hvort það kunni kannske að vera, að Sjálfstfl. sé ekki mjög hrifinn af því, að fram fari opinber rannsókn á fjárreiðum stjórnmálaflokka. Það skyldi þó ekki vera, að Sjálfstfl. væri heldur deigur við að láta það koma fram í dagsljósið, hvernig tiltölulega þröng klíka auðugustu aflanna í þjóðfélaginu mokar fé í þennan flokk og dagblað þessa flokks til þess að vernda hagsmuni sína.

Það kom fram hjá varaformanni flokksins í umr. hér fyrir hátíðarnar, að það væri nú svo og svo að fara að greiða ríkisstyrki til stjórnmálaflokka, — eða ættum við kannske að láta það duga, að menn mynduðu stjórnmálaflokk, og síðan gætu þeir gengið til ríkisféhirðis og fengið þar styrk? ) Ég er alveg sammála því, sem þarna kom fram hjá varaformanni flokksins, að að sjálfsögðu kemur ekki til greina, að styrkir til stjórnmálaflokka verði veittir án þess að flokkarnir uppfylli tiltölulega ströng skilyrði. Það verður að sjálfsögðu að setja ákveðin lágmarksskilyrði um það, hversu stórir flokkar þurfi að vera, til þess að þeir geti öðlast þessi réttindi. Það verður að vera visst lágmark fyrir hendi.

Það kom fram hér áðan, að til eru lög um aðstoð við þingflokka, og það eru lög um sérfræðilega aðstoð við þingflokka. Þar eru að sjálfsögðu sett skilyrði fyrir því, hvað þurfi til, til þess að um þingflokk sé að ræða, þ. e. a. s. það þurfi að vera tveir þm. Þetta ákvæði olli því, að Bjarni Guðnason, hv. 3. landsk. þm., ræddi töluvert mikið um það, að þm. væri mismunað samkv. þessari reglu. Hann virtist hins vegar vera sammála mér og okkur Alþbl.-mönnum um nauðsyn þess að koma í veg fyrir, að peningaöflin væru allsráðandi varðandi áhrif flokka og blaða á skoðanamyndun fólks í landinu. Ég fagna því, að hann er samþykkur þessu grundvallarsjónarmiði. Ég er á hinn bóginn algerlega sammála honum um það, eins og ég var rétt að enda við að segja, að það þarf að sjálfsögðu að setja nokkuð strangar reglur um notkun þessa fjár, með hvaða hætti því skuli úthlutað, og að sjálfsögðu verður einnig að hindra, að féð sé misnotað með einum eða öðrum hætti, það er laukrétt, sem fram kom hjá honum. Ég get hins vegar ekki fallist á, að hann hafi verið beittur neinu misrétti í þessum efnum. Það var á honum að skilja, að þetta að miða við þingflokka, væri einhvers konar herbragð, sem gert væri til þess að útiloka hann sérstaklega. Ég veit, að að nánar athuguðu máli sér hann, að það getur ekki verið rétt, enda voru þessi lög sett fyrir þremur árum. Þá var ekki um að ræða, að neinn þm. væri utan flokka. En það er mesti misskilningur, að þm. utan flokka séu útilokaðir samkv. þessum lögum. Þeir hafa líka sinn rétt. Og ég veit ekki betur en Bjarni Guðnason hafi rétt til að fá sinn hluta af þessu fé eins og aðrir þm. Samkv. þeim reglum, sem fyrst giltu um úthlutun þessa fjár, átti utanflokkaþm. að fá 40 þús. kr. á ári til sérfræðilegrar aðstoðar. Og samkv. þeirri úthlutun, sem væntanlega fer fram á næsta ári, er þessi upphæð sennilega komin upp í 60–70 þús. kr. Þess vegna er hrein fjarstæða að verið sé að útiloka einn þm. Ef vera kynni, að hv. þm. hefði ekki uppgötvað rétt sinn í þessum efnum, held ég, að væri að sjálfsögðu fyllsta ástæða til, að hann færi að nálgast sinn skammt og bankaði upp á á skrifstofu Alþingis.