24.01.1974
Sameinað þing: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

41. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það er tvennt, sem ég vil víkja að. Síðasti ræðumaður taldi, að ég mundi vissulega hafa fengið minn skerf úr þeirri heildarupphæð, sem veitt hefði verið til sérfræðilegrar aðstoðar við þingflokkana. Dæmið á auðvitað að leysa þannig, að það á að deila með 60 í heildarupphæðina. Ég á að fá 1/60 af heildarupphæðinni, annað er ekki jafnrétti. Það á ekki að búa til einhverjar undarlegar úthlutunarreglur, þannig að einhver einstakur þm, fái minna en aðrir. Auðvitað á að deila með 60 í þá upphæð, sem veitt er. En það er ekki gert.

Í öðru lagi, mér varð dálítið á í messunni áðan. Menn kannast við Magnús Stephensen landshöfðingja, menn kannast við Hannes Hafstein. Á þeirra dögum tíðkaðist það, að þeir réðu yfir opinberum auglýsingum og færðu þær til eftir því, hvernig menn túlkuðu málstað þeirra. Þeir tóku auglýsingar af vissum blöðum, færðu þær til annarra blaða eftir pólitískri veðráttu. Ég var áðan að víkja að því, að Þjóðmál hefðu bersýnilega sölsað til sín á óréttmætan hátt auglýsingar, svo að skipti tugum þús. í einu tbl. Og nú kem ég að atriðinu. Um leið og þetta gerðist standa málin þannig, að félmrn. og samgrn. neita að auglýsa í Nýju landi. Að því blaði stendur þó Frjálslyndi flokkurinn, einn stjórnmálaflokkur, og þá gerist það á 8. tug þessarar aldar, að það eru enn viðhöfð sömu vinnubrögð og tíðkuðust hér á síðari hluta síðustu aldar og upphafi þessarar aldar, að enn skuli það geta gerst, að stjórnmálaflokkum, sem eru á öndverðum meiði við ráðh., er neitað um auglýsingar í blaði. Þetta er enn þannig, að í Nýju landi kemur aldrei auglýsing frá samgrn. og aldrei frá félmrn. Svo geta þm. lagt saman tvo og tvo. Annars vegar seilast þessir hv. menn á óréttmætan hátt eftir mörgum tugum þús. í sambandi við auglýsingakostnað af opinberu fé, um leið og þeir neita öðrum stjórnmálaflokkum um auglýsingar í rn., sem þeir standa fyrir.