24.01.1974
Sameinað þing: 46. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

41. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ragnar Arnalds talaði um digurbarkaleg ummæli mín, um grófar ásakanir og dylgjur. Ég fór að hugleiða, hvað hann meinti með þessu, og komst að raun um, að ég hafi ekki verið jafnharður í dómum um fjárreiður Alþb. og kommúnista og ástæða og tilefni væri kannske til. Ég hef ekki heyrt, hvorki hjá hv. þm. Ragnari Arnalds né hv. þm. Jónasi Árnasyni, neinar þær tilvitnanir í ummæli mín, sem gefa tilefni til þessara orða. Það leiðir til þess, að ég álít, að það megi gjarnan íhuga þetta mál nánar og fara e. t. v. harðari orðum en ég nokkurn tíma hef gert um fjárreiður og fjársýslu Alþb. Í þessu sambandi vil ég aðeins til viðbótar því, sem ég lét mér um munn fara í þessum þætti og hér áðan um fasteignir og dugnað Alþb. að afla sér fasteigna, taka það fram, að þessar fasteignir eru í eigu hlutafélaga. Alþb.-menn og kommúnistar hafa ótrúlega ást á hlutafélagafyrirkomulaginu. Það er Samtún h/f, Miðgarður h/f, prentsmiðja Þjóðviljans er hlutafélag, gott ef Útgáfufélag Þjóðviljans er ekki hlutafélag. Þetta vekur endurminningar um gagnrýni kommúnista frá fyrri árum, þegar klofningurinn í Alþfl. átti sér stað og Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn var stofnaður og hlutafélög voru stofnuð af hálfu Alþfl.- manna til að halda fasteignum sínum í eigin eign. Þá var þetta mjög svo gagnrýnt. En hvers konar líftryggingarfyrirkomulag kommúnistaforustunnar er þetta hlutafélagafyrirkomulag á eignum flokkssamtaka, sem jafnvel hefur verið safnað til með almennum samskotum?

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar. Ég vil ítreka það, að Morgunblaðið átti till. um þá leið, sem farin er, og er kveikjan að þessari þáltill. Morgunblaðið sagði, að ástæða væri til að menn hugleiði, hvort ekki sé orðið tímabært að koma á sérstakri löggjöf um fjárreiður stjórnmálaflokka og eftirlit með þeim. Undir þetta vil ég taka og vil raunar láta í ljós þá skoðun, að Morgunblaðið og sá, er skrifaði þetta, megi vel við una, að þessi orð hans hafa haft svo mikil áhrif á þá Alþb-þm. sem raun ber vitni og þessar umr. sýna.