24.01.1974
Efri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

181. mál, kaupstaðarréttindi til handa Grindavíkurhreppi

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Þm. Reykjaneskjördæmis, sem sæti eigi í þessari hv. d., flytja á þskj. 322 frv. til l. um kaupstaðarréttindi til handa Grindavíkurhreppi. Frv. er á þessa leið:

„Frv. til l. um kaupstaðarréttindi til handa Grindavíkurhreppi.

1. gr. Grindavíkurhreppur skal vera kaupstaður og sérstakt lögsagnarumdæmi. Nær umdæmið yfir allan núverandi Grindavíkurhrepp og heitir Grindavíkurkaupstaður. Umdæmi þetta er í Reykjaneskjördæmi.

2. gr. Um valdsvið bæjarfógeta í Grindavíkurkaupstað og launakjör fer skv. lögum þar um.

3. gr. Dómsmrn. ákveður, hvernig málum þeim er varða Grindavíkurhrepp og ekki eru útkljáð, þegar lög þessi öðlast gildi, skuli skipt milli sýslumannsins í Gulbringusýslu og bæjarfógetans í Grindavíkurkaupstað.

4. gr. Sýslunefnd Gullbringusýslu og bæjarstjórn Grindavíkurkaupstaðar skulu semja sín á milli um skiptingu þeirra sjóða, sem við gildistöku laga þessara eru í eign eða vörslu Gullbringusýslu. Einnig skulu sömu aðilar semja um fjárskuldbindingar, ábyrgðir og önnur þau atriði, er þá varða og upp kunna að koma vegna laga þessara. Nái þessir aðilar ekki samkomulagi, skal félmrh. úrskurða, hvernig með skuli fara.

5. gr. Að öðru leyti fer um málefni kaupstaðarins skv. sveitarstjórnarlögum, nr. 58 29. mars 1961, og samþykktum settum skv. þeim lögum. 6. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Tildrög að flutningi frv. eru þau, að í des. s. l. barst þm. Reykn. bréf frá sveitarstjóra Grindavíkurhrepps, svo hljóðandi, með leyfi forseta:

Á fundi hreppsnefndar Grindavíkurhrepps í dag var gerð eftirfarandi samþykkt: Hreppsnefndin samþykkir samhljóða að óska eftir því við alþm. Reykjaneskjördæmis, að þeir flytji nú þegar á Alþingi frv. til l. um kaupstaðarréttindi til handa Grindavíkurhreppi.“

Bréfinu fylgdi svo hljóðandi grg.: „Forsendur fyrir samþykkt hreppsn. Grindavíkurhrepps, þar sem óskað er eftir kaupstaðarréttindum fyrir Grindavík, eru m. a. þessar:

1) Að skapa Grindavík þá réttarstöðu, sem kaupstaðir hafa, og losa tengsl við Gullbringusýslu.

2) Að fá inn í kauptúnið íbúum þess til hægðarauka alla þá þjónustu, sem bæjarfógetar veita.

Eins og kunnugt er, er Grindavík orðin ein stærsta verstöð landsins og hefur verið í stöðugum og örum vexti tvo síðustu áratugina. 1. des. árið 1972 var íbúatala Grindavíkur 1353 og hafði þá vaxið á einu ári um 8,32%. Íbúafjöldi, eins og hann er í dag, liggur ekki fyrir, en ætla má, að hann verði allt að 1600 miðað við 1. des. 1973. Með tilliti til hagræðingar á skrifstofuhaldi ríkisins mætti hugsa sér að þá þjónustu, sem um er getið í 1. lið, mætti veita með umboðsskrifstofu frá sýslumanni í Gullbringusýslu hinni nýju, þannig að hann yrði jafnframt bæjarfógetinn í Grindavík.“ Til áréttingar þessari ósk hreppsn. Grindavíkur og til þess að láta koma fram skýrt það atriði, að hreppsbúar stæðu einhuga að baki þessari samþykkt, hefur verið lagt fram í lestrarsal Alþingis svo hljóðandi bréf frá íbúum í Grindavík ásamt undirskriftum 566 íbúa eða um 75-80% kosningarbærra manna, með leyfi forseta:

„Þann 20. jan. 1974 var framkvæmd undirskriftasöfnun í Grindavík varðandi kaupstaðarréttindi til handa Grindvíkingum. 566 eða 75–80% kosningarbærra manna hafa ritað nafn sitt máli þessu til stuðnings, en þó er fjarverandi á sjó nokkur hópur manna, sem ekki náðist til. Aðeins 3 af þeim, sem leitað var til, studdu ekki undirskrift þessa. Yfirskrift undirskriftarlistans var þessi:

„Við undirritaðir Grindvíkingar skorum á hv. Alþingi og ríkisstjórn að veita Grindavíkurhreppi kaupstaðarréttindi nú þegar og binda þar með endi á hið óþolandi ástand, sem nú ríkir í málefnum Grindvíkinga með tilliti til þjónustu hins opinbera.“

„Við undirritaðir lýsum því hér með yfir, að allir, sem hafa ritað nafn sitt á meðfylgjandi lista, vissu greinilega um efni hans.

Virðingarfyllst,

Tómas Þorvaldsson, forstjóri.

Sigurpáll Einarsson, útgerðarmaður.

Hafsteinn Sæmundsson, útgerðarmaður.

Kristinn Gamalíelsson, lögregluvarðstjóri

Sævar Óskarsson, útgerðarmaður.

Ólafur Rúnar Þorvarðarson, kennari.“

Grindavík er landstærsti hreppur Suðurnesja. Hann nær frá Reykjanestá að Selvogi og Bláfjöllum.

Frá aldaöðli hefur sjósókn verið aðalatvinnuvegur Grindvíkinga, enda liggur Grindavík frábærlega vel við hinum öruggustu og fengsælustu fiskimiðum landsins, þ, e. a. s. miðunum frá Eldey að Vestmannaeyjum. Lengst af hafa Grindvíkingar búið við erfiða landtöku, enda margur sjómaðurinn látið lífið á Grindavíkursundi. En eftir síðustu heimsstyrjöld voru gerðar róttækar breytingar á hafnaraðstöðu í Grindavík. Síðan hefur þeim hafnarbótum verið haldið áfram, og nú hefur allmikið erlent fjármagn verið fengið til að bæta Grindavíkurhöfn, þannig að nú getur Grindavíkurhöfn tekið á móti fiskiskipum að öllum stærðum og meðalstórum vöruflutningaskipum.

Þar sem fengsæl fiskimið eru og góð hafnarskilyrði, er eðlilegt, að ásókn til löndunar verði mikil, enda er það svo, að auk hinna 50–60 þilfarsbáta, sem eru í eigu beimamanna, landa að jafnaði tugir aðkomubáta í Grindavík daglega. Þar munu 140 bátar hafa landað afla sínum á einum degi, og með þeim stórfelldum hafnarbótum, sem nú standa yfir, þegar þeim er lokið, munu möguleikarnir til fiskmóttöku meira en tvöfaldast.

Eins og áður er sagt, hefur löndun aðkomubáta í Grindavík aukist stórlega á undanförnum árum, og má búast við, að hún haldi áfram að aukast. Þar kemur margt til. Sjómenn, er stunda veiðar austan Reykjaness, en hyggjast láta verka afla sinn í fiskvinnslustöðvum við Faxaflóa, spara sér siglingu á hlöðnum bátum fyrir Reykjanes og Garðskaga. Og þetta gerir sjóferðina miklum mun styttri, öruggari og ódýrari. Það er þess vegna þjóðhagslega hagstætt að gera aðstöðu aðkomubáta og áhafna þeirra sem besta í Grindavík og geta veitt sjómönnum fullkomna og snögga þjónustu.

En það eru fleiri stoðir en hin glæsilega höfn og hin fengsælu fiskimið undir örri og öruggri þróun byggðar í Grindavík. Innan marka Grindavíkurhrepps eru a. m. k. þrjú stór jarðhitasvæði og eitt þeirra liggur aðeins 5 km frá kauptúninu. Frá því svæði er nú verið að undirbúa hitaveitu til upphitunar húsa í Grindavík. Sá mikli jarðhiti, sem er á þessum svæðum, mun þar að auki gefa í framtíðinni mikla atvinnumöguleika, — möguleika til fjölbreytts efnaiðnaðar, fjölbreytni í fiskverkun og fiskirækt. Þannig má leiða sterk rök að því, að byggð muni halda áfram að aukast í Grindavík, enda hefur sú orðið raunin á á undanförnum árum.

Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín framkvæmdu manntal sitt 1703, voru í Grindavík aðeins 8 lögbýli og 9 bændafjölskyldur, en 31 fjölskylda hjáleigubænda og 3 fjölskyldur húsfólks. Íbúar voru þá 253. Árið 1959 voru þeir orðnir 600, árið 1969 969, árið 1973 1605, og þegar flutt er í þau hús, sem verið er að byggja eða undirbúa byggingu á, verða íbúar Grindavíkur komnir yfir 2000.

Á síðasta Alþ. voru samþykkt lög um breytingu á lögsagnarumdæmi Gullbringusýslu og Kjósarsýslu. Þessi lög eru nú komin til framkvæmda, þannig, að sýslumaður Gullbringusýslu hinnar nýju situr nú í Keflavík. Þessi breyting, að flytja sýslumannsembættið frá Hafnarfirði til Keflavíkur, er mjög til hagræðis fyrir íbúa Suðurnesja, aðra en Grindvíkinga. Grindvíkingar verða nú að fara 27 km leið til Keflavíkur til þess að sinna erindum við fógetaembættið. Þeir telja það örðugra en á meðan þeir sóttu til Hafnarfjarðar, vegna þess að leið þeirra liggur gjarnan oft til Reykjavíkur ýmissa erinda, og nota þeir þá ferðina til að sinna erindum sínum við fógetann. Auk þess eru tíðar áætlunarferðir til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, en engar til Keflavíkur. Til þess að sinna margháttuðum erindum við fógetaembættið í Keflavík verða þeir því annaðhvort að ferðast í einkabílum eða kaupa sér leigubíl.

Grindavík var á síðasta ári sú verstöð, þar sem mestur bolfiskafli kom á land. Þess vegna er þar mikið athafnalíf og unnið daga og nætur, helga daga og rúmhelga. Þar sem um 80% af sjómönnum á heimabátum munu vera aðkomumenn og þar að auki fjöldi aðkomubáta, sem þar landa að jafnaði, má fullyrða, að hundruð aðkomusjómanna eru jafnan í Grindavík, menn, sem þarfnast margháttaðrar þjónustu og fyrirgreiðslu og oftast með stuttum fyrirvara. Öllu þessu fólki, sem vinnur langan vinnudag og alla daga jafnt, er nauðsynlegra en öðru að hafa þá þjónustu við höndina, sem hægt er að veita. Á sama hátt er með konur, unglinga og gamalmenni. Þetta fólk vinnur gjarnan í fiskvinnslustöðvunum og á erfitt með að sjá af tíma í ferðalög til Keflavíkur til að fá eðlilega fyrirgreiðslu fógeta og tryggingaumboðs.

Helstu ástæður Grindvíkinga til að sækja nú um kaupstaðarréttindi eru auk þeirra, sem getið er í grg. hreppsnefndar, í fyrsta lagi þessi 27 km fjarlægð, sem um var getið og veldur meiri óþægindum en viða annars staðar vegna þeirrar aðstöðu, sem nú var sagt frá um óvenjulega athafnasama verstöð, þar sem hundruð aðkomusjómanna dveljast að jafnaði og þurfa snögga fyrirgreiðslu. Í öðru lagi mundi stofnun fógetaembættisins í Grindavík hafa í för með sér mikinn sparnað, minni tafir frá vinnu og margs konar hagræði, þar eð þeir mundu öðlast m. a. eftirgreinda þjónustu í byggðarlaginu: innheimtu ríkissjóðs, stjórn dóms- og löggæslumála, varðveislu veðmálabóka, skrásetningu bifreiða, umboð Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlag. Auk þess má vænta, að aðstaða til löggæslu mundi batna, en hún er nú í algeru lágmarki.

Að þessu athuguðu finnst okkur flm., að Grindvíkingum sé mikil nauðsyn að öðlast kaupstaðarréttindi nú þegar með þeim þjónustuauka, er því fylgir, taka ber tillit til þeirra aðkomusjómanna, er þar starfa, og kostnaðarauki, sem embættinu fylgir, sé þjónustukostnaður við landið í heild, en ekki Grindvíkinga eingöngu. Þess vegna er það von þm. Reykn., að þetta frv. fái góðar undirtektir og greiða leið gegnum Alþingi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og félmn.