28.01.1974
Efri deild: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímason:

Herra forseti. Í sjónvarpsþætti s. l. föstudag sagði hæstv. utanrrh. frá till. um varnarmál, er hann kvaðst hafa lagt fram á ríkisstjórnarfundi og vera skyldu grundvöllur í samningaviðræðum við Bandarfkjamenn í næsta mánuði. Þessar till. hafa ekki verið kunngerðar utanrmn. og því síður þingheimi. Ég tel nauðsynlegt, úr því að hæstv. utanrrh. hefur vitnað til þessara tillagna og sjálfur hafið umr. um þær opinberlega, að till. verði birtar í heild, svo að unnt sé að gera sér grein fyrir, hvað í þeim felst í einstökum atriðum. Þá er og sjálfsagt, að ekki sé lengur dregið að ræða almennt öryggis- og varnarmál landsins í utanrmn., þ. á m. till. Bandaríkjamanna frá síðustu viðræðum þeirra og Íslendinga í nóv. s. l. Þessar till. hafa einnig verið opinberlega gerðar að umtalsefni. Hæstv. utanrrh. hefur og staðfest, að orðsending hafi borist frá norsku ríkisstj. um varnir Íslands, og sýnist því tilefni til að gera innihald hennar kunnugt. Í utanrmn. hefur einnig verið sagt frá álitsgerðum ráðs Atlantshafsbandalagsins, sem látnar eru í té í samræmi við ákvæði varnarsamningsins við Bandaríkin, en sem trúnaðarmál.

Varnar- og öryggismál Íslands eru nú komin á það stig, að nauðsynlegt er, að þm. og raunar allir landsmenn séu engu leyndir. Vitaskuld kunna að vera þau skjöl og orðsendingar, sem hæstv. utanrrh. getur ekki birt vegna kvaða frá sendendum þeirra. En úr því sem komið er, verður þingheimur og þjóðin öll að fá öll gögn málsins í hendur, sem unnt er að birta. Margt bendir til þess, að öryggismál Íslands séu nú höfð að bitbeini og í hrossakaupum milli stjórnarflokkanna. Þjóðin verður að gæta að því, hvernig með fjöregg hennar er farið, svo að unnt sé að stöðva framgang ábyrgðarlausra hugmynda í öryggismálum landsins.

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að krefjast þess, að utanrrh. láti ekki dragast lengur að ræða öryggis- og varnarmál landsins í utanrmn. og kunngera öll gögn málsins og þ. á m. eigin till., svo að þingheimur og þjóðin öll viti, hvert er stefnt, og geti breytt þeirri stefnu í samræmi við þjóðarhagsmuni, þegar nauðsyn krefur.