28.01.1974
Efri deild: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Hjartansson) :

Herra forseti. Hér er til 1. umr. stjfrv. um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu.

Í 1. gr. frv. er lagt til, að ríkisstj, verði heimilað að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun eða öðrum aðila að reisa og reka jarðgufuaflsstöð við Kröflu eða austanvert Námafjall með allt að 55 megawatta afli til framleiðslu raforku og leggja þaðan aðalorkuveitu til tengingar við aðalorkuflutningskerfi Norðurlands. Eins og menn muna, var lögð fyrir Alþ. á sínum tíma þáltill. ríkisstj. um skipulag raforkumála í landinu, og þar var m. a. gert ráð fyrir því, að komið yrði á fót orkuöflunarfyrirtækjum í hinum ýmsu landshlutum. Hefur verið unnið að því síðan að koma slíkum orkuöflunarfyrirtækjum á laggirnar. Hefur verið rætt sérstaklega við aðila á Norðurlandi um slíkt sameiginlegt fyrirtæki, og hefur sýnt sig, að á þessu máli er mikill áhugi. Tilgangurinn með þessu er sá að flytja aukið vald og frumkvæði út í héruðin og vinna að því, að þau telji sér kleift að ráðast í mun stærri og þá hagkvæmari virkjanir en unnt hefur verið til þessa í hinum ýmsu landsfjórðungum.

Í 2. gr. er svo talað um, að valið milli Kröflu og Námafjalls austanverðs sem virkjunarstaðar skuli fara fram á grundvelli jarðhitatæknilegra sjónarmiða og umhverfisverndarsjónarmiða, og þar er tekið fram, að sem hluta af virkjuninni skuli gera ráðstafanir, er að höfðu samráði við Náttúruverndarráð og að dómi sérfræðinga teljast nauðsynlegar til að draga úr hugsanlegum áhrifum virkjunarinnar á lífríki Mývatns,-svo sem frekast er kostur. Kröflusvæðið hefur verið rannsakað mikið, eins og menn vita, og það er mat sérfræðinga, að Kröflusvæðið sé mjög hagkvæmur virkjunarstaður. Hins vegar er eftir að framkvæma þar boranir, sérstaklega til könnunar á botnhita, en ef þær bera árangur, er það mat þeirra, að virkjun við Kröflu sé hagkvæmari af ýmsum ástæðum en virkjun í Námafjalli. Hins vegar er ekki tímabært að taka þessa ákvörðun,fyrr en þessar rannsóknarboranir hafa verið framkvæmdar. Þær ráðstafanir, sem talað er um þarna að gera þurfi til þess að draga úr hugsanleg um áhrifum virkjunarinnar á lífríki Mývatns, eru taldar til virkjunarkostnaðar, og er það nýmæli í lagagerð af þessu tagi. Hins vegar er rétt að taka fram, að það eru ekki taldar miklar líkur á því, að virkjunartegundir þessar hafi nein áhrif á vistkerfi Mývatns.

Í 3. gr. er ríkisstj. heimilað að taka lán eða ábyrgjast lán, sem virkjunaraðilinn tekur, allt að 1500 millj. kr. eða jafngildi þeirrar upphæðar í erlendri mynt, til greiðslu stofnkostnaðar við þessa framkvæmd. Í 4. gr. er lagt til, að felld skuli niður aðflutningsgjöld og söluskattur af efni, tækjum og vélum til þessarar aflstöðvar, eins og tíðkast hefur við hliðstæðar virkjunarframkvæmdir.

Í 5. gr. er svo ákvæði um það, að um stofnun og rekstur orkuvers og orkuveitna skuli að öðru leyti farið að ákvæðum orkulaga.

Eins og segir í grg., hófst jarðgufuvinnsla hér á landi með virkjun gufu í Námafjalli fyrir kísilgúrvinnslu og raforkuvinnslu í jarðgufuaflstöð. Fengist hefur ágæt reynsla af þessari orkuvinnslu, og er því eðlilegt, að áhugi sé á að nýta þennan orkugjafa í stærri stíl til raforkuvinnslu. Orkustofnun hefur á undanförnum árum unnið að umfangsmiklum rannsóknum á Námafjalls- og Kröflusvæðið, og eru niðurstöður þeirra, að bæði svæðin séu álitleg til raforkuvinnslu. Þá hefur Orkustofnun einnig gert frumáætlanir um jarðgufuaflsstöð allt að 55 megawöttum að stærð, og benda niðurstöður þeirra eindregið til þess, að slík virkjun yrði ódýrasti valkostur í virkjunarmálum á Norðurlandi á næstu árum.

Með hliðsjón af orkumálum á Norðurlandi telur ríkisstj. æskilegt að afla sér nú þegar heimildar til að reisa og reka jarðgufuaflsstöð á öðru hvoru þessara jarðhitasvæða og leggja þaðan orkuveitur til tengingar við meginorkuflutningskerfi Norðurlands. Þessi heimild er nauðsynleg, til þess að hægt sé að hraða framkvæmdum eins og unnt er.

Jarðhitarannsókn á jarðhitasvæði við Kröflu er enn ekki lokið, en ef borun einnar eða tveggja rannsóknarhola þar bæri jákvæðan árangur, tel ég, að jarðhitasvæðin við Kröflu og Námafjall séu bæði jafnvel fallin til virkjunar. Vegna frárennslis er þó talið óráðlegt að staðsetja virkjun vestan Námafjalls. Umhverfisáhrif af völdum frárennslisvatns eru sennilega svipuð, hvort heldur virkjunin væri austan Námafjalls eða við Kröflu, þar sem frárennslisvatnið rennur í báðum tilvikum að jaðri Búrfellshrauns. Nokkur gufumökkur fylgir virkjun af þessari gerð, en hann er ekki talinn valda neinni skaðlegri mengun fyrir lífríkið. Yrði að meta út frá öðrum umhverfissjónarmiðum, hvor staðurinn væri hentugri vegna þessa, en svæðið við Kröflu er mun fjær byggð, svo sem kunnugt er.

Í frumáætlunum Orkustofnunar frá júní 1972 til sept. 1973, sem hv. alþm. hafa fengið í hendur, er gerð grein fyrir tæknilegum atriðum og forsendum kostnaðaráætlana. Í þeim áætlunum var reiknað með, að í 55 MW aflstöð yrði ein túrbína, en með hliðsjón af rekstraröryggi þykir ráðlegra að gera ráð fyrir tveimur túrbínum. Kostnaðartölur hafa verið endurskoðaðar með tilliti til þessa, og er stofnkostnaður áætlaður 1484 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður 184 millj, kr., miðað við verðlag í sept. á síðasta ári. Þetta svarar til þess, að stofnkostnaður á uppsett kw sé áætlaður 27 þús. kr. Gerð hefur verið rekstrareftirlíking með rafreikni af samrekstri jarðgufustöðvar við önnur orkuver, er sendu raforku sína inn á sameiginlegt raforkukerfi Norðurlands og Suðurlands. Þessi athugun gefur þær niðurstöður, að væntanleg orkuvinnslugeta 55 MW jarðgufustöðvar í slíkum samrekstri séu 405 gígawattsstundir á ári. Miðað við þessa árs orkuvinnslu og áætlaðan árlegan rekstrarkostnað yrði orkukostnaður við stöðvarvegg 45 aurar á kwst. Með einni túrbínu hefði þetta verð orðið 39 aurar á kwst. Þessar upphæðir eru miðaðar við áðurnefnda frumáætlun og á verðlagi í sept. í fyrra.

Gufuveitan í Námafjalli, sem aflar gufu fyrir Kísiliðjuna og gufuaflsstöð Laxárvirkjunar, hefur verið rekin frá árinu 1969 með góðum árangri, og hefur ekki orðið vart við neina minnkun á gufumagni frá holunum, en afl þeirra, miðað við það, hve mikla raforku megi framleiða í eimsvalasamstæðu, jafngildir nú 12–13 MW vinnslu. Gufuveitan er nú rekin með 6 vinnsluholum, sem voru boraðar á árunum 1968–1970. Hönnun og frágangur holanna eru ekki eins góð og æskilegt væri með tilliti til þess háa botnhita, sem er á jarðhitasvæðinu í Námafjalli, en það má fyrst og fremst rekja til þess, að bortæki þau, sem notuð voru, voru ekki nógu afkastamikil til að ganga fullkomlega frá jafndjúpum holum. Við væntanlega virkjun yrði gufubor notaður til þessa verks. Gufuaflsstöðin í Námafjalli, sem getur framleitt 3.2 MW, var reynslukeyrð í maí 1969 og hefur starfað að mestu óslitið síðan. Orkuframleiðsla stöðvarinnar frá upphafi er 72 gwst. Til stöðvarinnar var keypt notuð vélasamstæða frá Englandi, komin nokkuð til ára sinna, en vegna þess að túrbínan er svokölluð mótþrýstitúrbína, og hún er gerð fyrir annað gufuástand en það, sem er á jarðhitasvæðunum, notar hún 2.5 sinnum meiri gufu en túrbínur með eimsvala mundu gera. Sumarið 1971 var skipt um túrbínuhjól, eins og upphaflega var ráðgert, þar sem málmblandan í skóflum hjólsins var ekki talin henta jarðgufu. Ekki hefur orðið vart við neina tæringu eða rot í útbúnaði stöðvarinnar.

Eins og ég hef rakið, er gert ráð fyrir, að stærð jarðgufuaflsstöðvar við Kröflu eða Námafjall geti orðið allt að 55 MW, en hún verði byggð í tveimur áföngum, þannig að í upphafi yrði byggt allt það, sem er sameiginlegt fullri stærð stöðvarinnar, en túrbínur, rafalar, borholur og ýmis búnaður yrði gert í tveimur áföngum. Þetta hefur þann kost í för með sér, að hægt er að haga byggingunni nokkuð eftir markaðsþörfinni, og eins er meira rekstraröryggi að því, að stöðin sé rekin með tveimur rekstrareiningum. Jarðhitasvæðin í Kröflu og Námafjalli eru svokölluð vot jarðhitasvæði, þ. e. a. s. rennsli úr holunum er um það bil 20% gufa, sem nýtt er fyrir rafstöðina, og 80% vatn, sem skilið er frá gufunni. Vatninu er veitt frá jarðhitasvæðinu sem affallsvatni, og rennur það frá báðum svæðunum í jaðar Búrfellshrauns, þar sem það blandast mjög stóru grunnvatnskerfi. Með grg., sem hv. þm. hafa, fylgja yfirlitsmyndir um staðsetningu stöðvarhúsa og borhola og gufu- og vatnskerfi 55 MW jarðgufuaflsstöðvar. Ríkissjóður er rétthafi jarðhitaréttinda og landssvæða þeirra, sem hér skipta máli, samkv. samningum við landeigendur frá 18. mars 1971.

Eins og ég hef rakið samkv. grg. frv., benda áætlanir til þess, að með virkjun jarðgufu í Kröflu eða Námafjalli í 65 MW stöð, megi fá álíka ódýra orku og frá hagkvæmustu vatnsvirkjunum, sem eru þó mun stærri. Þetta er mikilvægt atriði, þar eð það gefur möguleika á hagstæðari virkjunaráföngum en fáanlegir eru á mörgum virkjunarstöðvum vatnsafls. Með Kröfluvirkjun mundi einnig fást mjög mikilvæg reynsla af raforkuvinnslu úr jarðgufu í eimrafalstöð í allstórum stíl. Núverandi stöð við Námafjall er af annarri gerð, sem nýtir orkuna í jarðgufunni verr, og reynslan af henni er okkur Íslendingum því ekki fullnægjandi. Auk þess er hún svo lítil, að örðugt er að draga ályktanir varðandi rekstur stórra jarðgufustöðva út frá reynslunni af henni einni saman.

Frv. heldur opnu vali milli Kröflu og Námafjalls sem virkjunarstaðar. Gert er ráð fyrir, að endanlegt val fari fram á grundvelli jarðhitatæknilegra sjónarmiða og umhverfissjónarmiða, þar með talin ferðamálasjónarmið. Jafnframt er gert ráð fyrir, að með í virkjuninni verði haldar nauðsynlegar ráðstafanir til að bægja fá Mývatni skaðlegum áhrifum. Umhverfissjónarmiðum er þannig gert hærra undir höfði í frv, þessu en í nokkru virkjunarfrv. fram til þessa. Enda þótt þessi varnagli sé slegin á, telja sérfræðingar litla hættu á skaðlegum áhrifum á lífríki Mývatns af frárennslisvatni stöðvarinnar. Breytir þar litlu, hvort stöðin er við Kröflu eða Námafjall austanvert. Hætta af stöð vestan Námafjalls er talin geta verið mun meiri, og því er sá möguleiki ekki tekinn með hér.

Frá sjónarmiði umhverfismála og ferðamála er sá munur á Námafjalli og Kröflu, að austurhlið Námafjalls mundi gerbreyta um svip við virkjun austan fjallsins og hverirnir við Hveralönd, sem margir ferðamenn skoða, mundu að líkindum hverfa alveg.

Virkjun við Kröflu eða Námafjall hefur verið ítarlega rædd í samstarfsnefnd þeirri um orkumál, sem iðnrn. setti á laggirnar með þremur fulltrúum frá rn. og þremur frá Náttúruverndarráði. Slíkt er nýmæli hér á landi í virkjanaundibúningi. Krafla er talin stærra jarðhitasvæði en Námafjall og gefa góða möguleika á stækkun stöðvarinnar síðar umfram þau 65 MW, sem nú er reiknað með. Nokkru norðar en Krafla er annað háhitasvæði, Þeistareykir, sem einnig mætti nýta til raforkuvinnslu, og hafa Húsvíkingar nýlega vakið sérstaka athygli á því. Það svæði er mun lægra yfir sjó en Krafla og er þar að auki nær þéttbýli, þ. e. a. s. Húsavík. Þar eru því skilyrði á ýmsan hátt betri en við Kröflu til ýmiss konar iðnaðarnota. Sýnist því rétt að geyma það svæði um sinn til hugsanlegra iðnaðarnota fremur en að vinna úr því raforku, þar eð annað svæði, Kröflusvæðið, er eins vel fallið til þess, en hins vegar miður til iðnaðarnota sökum hæðar yfir sjó og fjarlægðar frá þéttbýli. Raforkuvinnsla í stórum stíl kann að rýra hæfni Þeistareykja til iðnaðarnota síðar.

Með tengingu Norðurlands og Suðurlands skapast möguleikar á að fullnýta afköst Kröfluvirkjunar þegar frá upphafi, en það er mikilvægt fyrir allar virkjanir. Næsta virkjun á eftir Kröflu gæti t. d. verið sunnanlands, næst þar á eftir norðanlands o. s. frv. Með þessu fengist best nýting þeirra miklu fjármuna, sem í raforkuverum liggja. Tengilínan suður flytur þannig einnig orku til skiptis í báðar áttir, þegar hún er komin í gagnið. Hluti af línunni milli Norðurlands og Suðurlands er þegar lagðar, eins og menn vita, þ. e. a. s. línan frá Akureyri til Varmahlíðar. Stundum er sagt, að engin raforka sé fyrir hendi til að flytja um þá línu. Um slíka orkusölu var þó í apríl 1972 gerður sérstakur samningur milli Laxárvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins, og undirrituðu forráðamenn Laxárvirkjunar þann samning. Var þar gert ráð fyrir flutningi á 20 gwst., þar af 15 gwst. frá vatnsaflsstöðvum, og samið um mjög hagstætt raforkuverð, 30 aura á kwst. Síðan þessi samningur var gerður, hefur orkuþörfin á Laxársvæðinu að vísu vaxið örar en forráðamenn Laxárvirkjunar höfðu reiknað með, þegar þeir gerðu samninginn, þannig að í kuldum og endranær um háveturinn er lítið sem ekkert aflögu handa Norðurl. v. En á öðrum árstímum og þó einkum að sumrinu mun verða raforka aflögu frá Laxárstöðvunum og jarðgufustöðinni við Námafjall, og sparast þá dísilorkuvinnsla á Norðurl. v. sem því nemur. Með tilkomu línunnar að sunnan til Varmahlíðar breytist svo viðhorfið á ný, og flytur þá lína þessi orku til Akureyrar um sinn í stað þess að flytja hana í gagnstæða átt. Slíkur orkuflutningur ýmist í þessa áttina eða hina er einmitt hlutverk tengilína, eins og áður segir.

Með vaxandi raforkunotkun á Austurlandi dregur fljótt að því, að Lagarfossvirkjun verði fullnýtt. Möguleikar austanlands á litlum eða miðlungsstórum hagkvæmum virkjunum eru mjög takmarkaðir. Auk þess þarf að sjá Hornafirði fyrir meiri raforku, en þar er ekki heldur völ á hentugum virkjunarstöðum. Tenging Hornafjarðar og Austurlands og þeirra beggja síðar við Norðurland er því eðlilegasta ráðstöfunin til að afla þeim viðhótarraforku. Um sinn, eftir að Krafla er fullnýtt, fengist slík raforka um tengilínuna milli Norður- og Suðurlands, en síðar mætti stækka Kröfluvirkjun meira, ef nægilega stór orkunotandi kemur fram norðanlands, og virkja Dettifoss eða Blöndu. Í samræmi við þessi viðhorf hefur iðnrn. nú nýlega falið þeim sama vinnuhópi og undanfarið hefur unnið að undirbúningi línunnar norður að undirbúa einnig línulagnir frá Kröflu eða Dettifossi til Egilsstaða og frá Egilsstöðum til Hornafjarðar, auk línunnar frá Kröflu til Akureyrar, sem er hluti þeirra mannvirkja, er þetta frv. tekur til.

Möguleikar á jarðgufuvirkjunum eru taldir allgóðir á ýmsum stöðum sunnanlands, svo sem á Torfajökulssvæðinu, sem er stærsta háhitasvæði landsins. Sú reynsla, sem fæst af Kröfluvirkjun, mun koma að mjög miklum notum við sams konar virkjanir þar og annars staðar síðar meir.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til hv. iðnn.