28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. S.l. föstudagskvöld gerðist mjög óvenjulegur atburður í íslenskum stjórnmálum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mikil leynd hefur hvílt yfir viðræðum hæstv. utanrrh. við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um endurskoðun varnarsamningsins. Utanrmn. hefur að vísu verið skýrt frá viðræðum við fulltrúa Bandaríkjastjórnar, eftir að þær hafa átt sér stað. Hins vegar hefur n, aldrei í þau 21/2 ár, sem núv. ríkisstj. er búin að sitja að völdum, verið skýrt fyrir viðræðufundi frá því, hvað hæstv. utanrrh. hygðist leggja til við Bandaríkjamenn, fulltrúa stjórnar þeirra, varðandi endurskoðun varnarsamningsins. Hæstv. ríkisstj. er þó skylt að hafa samráð við utanrmn. varðandi stefnumótun í utanríkismálum.

Þetta algera samráðsleysi við n. getur ekki átt sér nema aðra af tveim skýringum. Annaðhvort hefur ríkisstj. aldrei mótað neina stefnu af sinni hálfu varðandi endurskoðun varnarsamningsins í þeim viðræðum, sem fram hafa farið, eða þá að hún hefur vanrækt þá skyldu sína að hafa samráð við utanrmn., þegar hún mótar þessa stefnu, og hvorugt er gott. Nú hefur það hins vegar gerst, gerðist s.l. föstudag, að hæstv. utanrrh. skýrði frá því í sjónvarpi, í umræðuþætti um varnarmál. að flokkur hans hefði mótað till. sem umræðugrundvöll varðandi endurskoðun varnarsamningsins og að þessar till. hefðu verið lagðar fram í ríkisstj. Mátti skilja það á öðrum þátttakanda í þættinum, formanni Alþb., að honum væri kunnugt um till., og má því gera ráð fyrir, að þær hafi verið ræddar í þingflokkum hæstv. ríkisstj. og kannske einnig í öðrum stofnunum þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa. Hins vegar hafði stjórnarandstaðan, áður en hún heyrði ummæli ráðh. í sjónvarpinu enga hugmynd um, að slíkar till. væru komnar á blað né heldur að þær væru komnar til umræðu í ríkisstj. og hjá stuðningsflokkum ríkisstj.

Þetta er að sjálfsögðu algerlega óviðumandi, að þm. skuli frétta af því í fjölmiðli, að einn stjórnarflokkurinn sé búinn að móta stefnu sem umræðugrundvöll í viðræðum, en utanrmn. hafi ekkert um málið heyrt og þm. ekki heldur. Mér finnst því nauðsynlegt og það var erindi mitt í ræðustólinn að skora á hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh., — ég sé, að utanrrh, er ekki í d., en þá beini ég orðum mínum til hæstv. forsrh., — ég tel alveg nauðsynlegt að þinginu sé skýrt frá því, hvað í þessum till. felst, till. séu lesnar upp hér á hinu háa Alþingi, til þess að allir þm. geti gert sér grein fyrir því, hvað í þeim felst.

Ástæðan til þess, að ég tel þetta nauðsynlegt, er sumpart sú, að af lauslegri frásögn hæstv. utanrrh. virðist vera ljóst, að í till. felst frávík frá ákvæðum stjórnarsáttmálans. Í stjórnarsáttmálanum segir, að stefnt skuli að því, að herinn hverfi af landinu í áföngum á kjörtímabilinu. Orð hæstv. ráðh. urðu ekki misskilin í sjónvarpinu á föstudagskvöldið, þar sem hann sagði, að gert væri ráð fyrir því, að brottflutningurinn mundi taka nokkur ár. M.ö.o.: það á ekki að flytja herinn burt á kjörtímabilinu, heldur á lengri tíma. Þetta virðist vera alveg ljóst. Hér er um að ræða greinilegt frávík frá ákvæðum stjórnarsáttmálans. Þess vegna er nauðsynlegt að þingið fái um það að vita, hvernig þetta er orðað, hvernig till. eru, að því er þetta varðar. Af lauslegri frásögn ráðh. eru hins vegar ýmis atriði óljós. Þess vegna er nauðsynlegt, að menn fái að vita nákvæmlega, hvernig till. eru, ef það gæti hjálpað til að upplýsa óljós atriði.

Það var t.d. í fyrsta lagi ekki ljóst af orðum hæstv. utanrrh. í sjónvarpinu á föstudagskvöldið, hvort bandarískir hermenn eiga að vera áfram við öryggisgæslu og þá hve margir. Það kom greinilega fram í umr., að hæstv. utanrrh. og form. Alþb. skildu till. um þetta efni ekki á sama hátt. Þess vegna er nauðsynlegt að fá að vita, hvort ástæða sé til misskilnings eða ekki.

Þá er í öðru lagi nauðsynlegt að fá það upplýst, hvað felst í hugmyndunum um hreyfanlega flugsveit, sem þarna var orðuð. Þýðir þetta, að hér eigi stöðugt að vera herflugvélar á flugvellinum eða aðeins hafa lendingarleyfi og koma hingað öðru hverju? Það kom greinilega fram í sjónvarpinu, að þeir tveir talsmenn ríkisstj., sem þarna voru, voru ekki á einu máli um hvað setningar í till. um þetta efni þýða í raun og veru. Af orðum utanrrh. mátti helst skilja, að það ættu alltaf að vera hér einhverjar herflugvélar, þær ættu bara ekki að hafa fast aðsetur á vellinum. En form. Alþb. vildi skilja till. svo, að einungis ætti að vera um að ræða heimild til lendingar, þannig að flugvélarnar kæmu þangað aðeins öðru hvoru. Hér er um gerólíkan skilning að ræða, og þetta þarf að liggja ljóst fyrir.

Mikilvægast er þó, að það kom ekki fram af orðum hæstv. utanrrh., hvort hann ætlast til þess, hvort till. ætlast til þess, að áfram sé haldið þeim eftirlitsstörfum sem nú eru unnin á Keflavíkurflugvelli, eða hvort þeim eigi að hætta. Þetta er auðvitað grundvallaratriði og þarf að liggja ljóst fyrir, hvað hæstv. utanrrh. og flokkur hans ætlast fyrir um þetta efni. Á að halda eftirlitsstöðvunum áfram, eða eiga þær að hætta? Þetta verður að liggja alveg ljóst fyrir. Ég held, að menn geti að athuguðu máli verið sammála um, að ekki er við það unandi, að um stefnumótun í svo mikilvægu máli sem þessu séu höfð einhver hálfyrði. Annað hvort varð að skoða till. sem algert trúnaðarmál, — það hefði mátt virða í sjálfu sér, — algert trúnaðarmál innan ríkisstj., eða þá að skíra frá þeim opinberlega. Hálfyrði um það, hvað í till. felist, eru hvorki þingi né þjóð bjóðandi. Það á annaðhvort að segja ekki neitt um málið, fara með það eins og oft er gert með slík mál, eða þá að segja allan sannleikann um það. Eftir þau hálfyrði, sem sögð voru í sjónvarpinu á föstudagskvöldið, leyfi ég mér að beina þeim mjög eindregnu tilmælum til hæstv. forsrh., að hann segi allan sannleikann um þessar till., sem frá var skýrt á föstudagskvöldið.