28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það er fyrst út af ummælum hæstv. forseta nú síðast, sem ég tel nauðsynlegt að segja örfá orð.

Þegar settar voru svo strangar skorður 1972 við umræðum um fyrirspurnir, að þm almennt megi ekki tala lengur en 2 mín., var ekki um það talað og ekki gert ráð fyrir að rýra á nokkurn hátt hefðbundinn rétt manna til að kveðja sér hljóðs utan dagskrár út af mikilvægum málum. Ég ætla, að það hafi ekki heldur borið á góma þá, að þegar menn kveddu sér hljóðs í því skyni, yrði ræðutími takmarkaður svo mjög sem forsetar þingsins virðast nú vilja vera láta. Ég vil aðeins taka það fram, að ég er ekki samþykkur þessari túlkun hæstvirtra forseta.

Það er auðvitað rétt hjá hæstv. forsrh., að þetta mál, varnarmálin, er ákaflega vandmeðfarið og vandasamt. Á það sérstaklega við um það, hvílíkur vandi hæstv. ríkisstj. er á höndum, því að allir þm. vita, hversu langt bil er milli skoðana Alþb. og þess, sem hæstv. forsrh. vill eða óskar eða a.m.k. hugsar í leyndum hjartans í þeim málum. Þess vegna er eðlilegt, að þetta sé mjög vandasamt mál innan stjórnarinnar.

Um leið og ég tek eindregið undir óskir hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar, um að þessar nýju till., sem hæstv. utanrrh. skýrði lauslega frá í sjónvarpi á föstudaginn, verði birtar, vil ég taka það fram, að yfir þessum málum öllum hefur, frá því að stjórnin var mynduð, verið þokuslæðingur, svo að ekki sé meira sagt, ákvæði stjórnarsáttmálans óljós og stjórnarsinnar sjálfir mjög ósammála um, hvernig ætti að túlka þau ákvæði. Það er mjög alvarlegt, hversu upplýsingum í þessu máli, mikilvægum upplýsingum, hefur verið haldið leyndum fyrir þjóðinni og þingheimi, því að þeim upplýsingum, sem utanrmn. eru afhentar sem trúnaðarmál, hefur samkv. venju ekki einu sinni verið talið heimilt að skýra þingfl. frá. Ég ætla, að þetta hafi lengi verið venja á þingi, þannig að t.d. það, sem gerst hefur í viðræðum hæstv. ríkisstj. og fulltrúa Bandaríkjastjórnar undanfarna mánuði, er ekki einu sinni á vitorði þm., annarra en þeirra, sem eru í utanrmn.

Nú gerðist það, eins og minnst var á hér í umr utan dagskrár s.l. þriðjudag, að einn þm., form. eins stjórnarfl., hv. 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, skýrði opinberlega á fundi á Ísafirði ekki alls fyrir löngu frá því, sem Bandaríkjastjórn hefði boðið fram í þessum viðræðum eða léð máls á að fallast á. Af þessu tilefni, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur farið með það, sem hefur gerst á þessum fundum, sem algert leyndarmál, sem ekki einu sinni þingfl. hefur verið skýrt frá eða ekki heimilað að skýra frá á þingflokksfundum, beindi ég þeirri fsp. þá til hæstv. utanrrh., hvort það væri ekki rétt, sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson hefði frá skýrt. Hæstv. utanrrh. treysti sér ekki þá til að svara þessu. En nú hefur hann fengið sex daga umhugsunarfrest, og vænti ég því, að við fáum skýr svör við því nú á þessum fundi. Það þýðir ekki að bera alltaf fyrir sig, að það sé ekki hægt vegna hins aðilans, Bandaríkjastjórnar, að skýra frá þessu. Ef samið hefur verið Um það milli stjórnanna, að þessu skyldi haldið leyndu, hefði verið í lófa lagið fyrir íslensku stjórnina að fara fram á það við Bandaríkjastjórn; að það mætti birta þetta, og ekki trúi ég því, að þar yrði nokkur fyrirstaða á.

Ég vil endurtaka þessa fsp. mína og vænti þess að fá svör við henni nú, til þess að dalalæðunni fari í þessu máli eitthvað að létta.