28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil endursegja það, sem einn ræðumaður sagði áðan, að núv. ríkisstj. er mikill vandi á höndum varðandi varnarmálin, og bersýnilegt er, að þjóðin er klofin, ef svo mætti segja, um rætur í þessu stóra og viðkvæma máli. Þess vegna veltur á miklu, að stjórnin sýni trausta forustu í málinu í samræmi við málefnasamning sinn, og nauðsynlegt, að ekki komist á kreik alls konar sögusagnir eða gróusagnir um afstöðu flokka eða þm. frá degi til dags. Þetta leiðir smám saman til þess, að stjórnin ræður ekki lengur við málið. Það eru öll teikn á lofti í þjóðmálunum, og þetta mál er meira og minna að fara úr böndum. Þar með er ég ekki að fella strangan dóm í sjálfu sér um þessi vinnubrögð, en ég tel, að þau séu ekki heppileg. Það er mitt mat, að takist ekki í stjórnarflokkunum að koma með ákveðnar till. í þessu stórviðkvæma máli, nú jafnvel í næstu viku, þá ráði hún ekki lengur við málið. Það má ekki gerast öllu lengur þessi tvískinnungur, sem er í fréttaburði af þessum málum.

Ég tek undir það, sem fyrirspyrjandi sagði, að það er ekki vel til þess fallið að leysa málið, ef opinberlega á að hvíla einhver leynd yfir öllum hlutum, en í reynd er sagt frá þessu annað hvort vestur á Ísafirði eða í sjónvarpinu, og síðan mega þm. og þjóðin að nafninu til ekkert vita um þetta. Það er alveg ljóst mál, að óheppilega er að þessu staðið, og ég tel, að það sé nú komið að úrslitastund í þessu máli og ríkisstj. hljóti, þ.e.a.s. ef hún ræður við þetta, að koma með einhverjar ákveðnar till. nú í þessari viku eða næstu. Ég tel, að það sé ekki seinna vænna.

Í þessu sambandi vil ég aðeins leyfa mér að fara fram á það að fá að fylgjast eitthvað með málinu. Ég á ekki sæti í utanrmn. af skiljanlegum ástæðum, en mér þætti ekki óeðlilegt, úr því að svona hagar til um þingstöðu mína, að ég fengi að fylgjast með því, sem fram færi, með því að fá gögn frá utanrmn., að sjálfsögðu með þeim skyldum, sem hvíla á um trúnað.

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri, en ég vil bara brýna núv. ríkisstj. til þess að fá botn í þetta mál og ef ekki nægir að ræðast við annan hvern eða þriðja hvern dag, þá að setjast á næturfund og kanna, hvort ekki geti náðst samstaða. Það er ekki eftir neinu að bíða. Annars leysist þetta allt úr böndum.