28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir orð hv. 7. þm. Reykv, og hv. 5. þm. Reykv. í sambandi við þau vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. virðist hafa þessa dagana í sambandi við varnarmálin og þær umr., sem um þau fara fram. Til viðbótar við það, að hæstv. utanrrh. kemur í sjónvarpið og lýsir till., sem flokkur hans hefur lagt fram í ríkisstj., hefur komið fram á opinberum vettvangi, að ríkisstj. Íslands hefur borist frá Noregi grg, um sjónarmið Norðmanna í sambandi við varnarmálin, en þingheimur hefur ekki fengið neinar skýrslur í sambandi við þessi mál. Utanrmn. var afhent umrædd grg. frá norsku ríkisstj. seint á s.l. ári, en aðrir hafa ekki fengið um þá skýrslu að vita. Að sjálfsögðu hafa fulltrúar í utanrmn. haldið þann trúnað, sem þessu skjali fylgdi, og ekki greint frá efni þess né að það væri fram komið. Hins vegar gerir utanrrh. það í dagblaði í gær að mig minnir, frekar en á laugardag. Ég sé því ástæðu til að vekja athygli á þessu hér og í framhaldi af ábendingum hv. 7. þm. Reykv. um að skýra frá till. þeim, sem fjallað er um í ríkisstj., mælast til þess, að enn fremur verði skýrt frá þessari grg., sem fram hefur komið.

Hv. 4. þm. Reykv., formaður utanrmn., kom hér áðan og lýsti yfir, að það stæði ekkert á honum að boða til fundar í utanrmn. í sambandi við þessi mál, það hefði ekki heyrst nein ósk af hálfu stjórnarandstöðunnar þar um. Þegar síðasta skýrslan um viðræður Bandaríkjastjórnar og íslensku ríkisstj. var lögð fram í utanrmn., fengu utanrmn.-menn þá skýrslu inn á fundinn, og var, ef ég man rétt, samkomulag um, að umr. um skýrsluna færu fram síðar, þegar menn hefðu haft tækifæri til þess að kynna sér hana. Ég man ekki betur en á síðasta fundi í utanrmn., sá fundur var haldinn eftir ósk formanns Sjálfstfl. vegna samninganna við Þjóðverja, — óskuðum við sérstaklega eftir því, að þær umr, færu bráðlega fram, sem áður hafði verið um talað.

Hv. 4. þm. Reykv. ræddi einnig um, hvernig með þessi mál væri farið sem trúnaðarmál. Ég skil mætavel, að ríkisstj. treysti ekki ýmsum þm. til að fara með þessi mál sem trúnaðarmál. Það hefur gerst fyrr á þessu þingi, að það hafa farið gögn frá ríkisstj. — frá hæstv. forsrh. — sem trúnaðarmál til þingflokkanna, og einn af stjórnarflokkunum rauf þann trúnað, birti úr þeim skýrslum, svo að ég skil mætavel, hvers vegna verið er að halda slíku leyndu fyrir þm.

Ég vil jafnframt tjá hv. 4. þm. Reykv., formanni utanrmn., það, að ég veit, að formaður Sjálfstfl. óskaði eftir því í ræðu sinni utan dagskrár í dag í hv. Ed., að fundur yrði haldinn í utanrmn. um þessi mál, og ég veit, að hv. 4. þm. Reykv., formaður n., mun að sjálfsögðu taka þá beiðni til greina.

Árásir hv. 5. þm. Vesturl. áðan á þann sjónvarpsþátt, sem var á föstudagskvöldið, voru næsta furðulegar. Ég hefði gaman af því, að það yrði tekinn saman mínútufjöldinn, sem utanrrh. og formaður míns £lokks notuðu og hins vegar mínútufjöldinn, sem þriðji aðilinn, sem fram kom í sjónvarpsþættinum, notaði, og leitt í ljós, hvor aðilinn hefði þar meiri tíma til umráða. Það væri líka dálitið gaman að fá tíma þann, sem Hörður Einarsson lögfræðingur notaði þar, og svo hinn fulltrúinn, Dagur Þorleifsson, og bera þann mínútufjölda saman.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið reynt að gera lítið úr hlut þeirra manna sem væru gegn her í landi. Ég man ekki betur en fyrirspyrjendurnir hafi margsinnis reynt að fá það fram, hversu margar undirskriftir hefðu komið, þegar undirskriftasöfnun þeirra fór fram á sínum tíma, en það fékkst ekki. Hefði það fengist, hefði verið hægt að sjá, hver hefði verið hlutur þessara manna í sambandi við þær undirskriftir.

Þegar slíkur sjónvarpsþáttur er settur upp eins og þarna var, er mjög eðlilegt, að það séu fulltrúar frá ríkisstj. og svo frá stjórnarandstöðunni og ég held, að þessi þáttur hafi á engan hátt verið frábrugðinn öðrum. Það kom glögglega fram hjá hv. þm., eins og hann orðaði það, að spyrjendurnir höguðu fsp. sínum ekki eins og hann óskaði, og þess vegna var þátturinn að hans dómi fyrir neðan allt.

Ég vil að lokum undirstrika ósk okkar sjálfstæðismanna um fund í utanrmn. til að ræða þessi mál og þar verði þau gögn lögð á borðið, sem ríkisstj. hefur nú til meðferðar í sambandi við lausn þessa vandamáls.