28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Mér sýnist, að þessar umr. utan dagskrár þurfi ekki að verða öllu lengri. Það er upplýst, að orðið verður við ósk þm. í utanrmn. um, að þar verði fundur haldinn og þar verði gerð nánari grein fyrir þeim drögum, sem Framsfl. hefur samþ., þrátt fyrir það að ég undirstriki það enn, sem ég sagði áðan, að samþykktir einstakra flokka geti út af fyrir sig ekki gefið tilefni til utanrmn.-fundar.

Ég held, að það sé mjög ofmælt hjá þeim þm., sem hafa sagt, að það hafi einhver sérstök leynd verið yfir þessum umr. og verið yfir þeim einhver þokuslæðingur fram Yfir það sem eðlilegt er í milliríkjaskiptum. Ég veit ekki betur en hv. utanrmn. hafi verið gefin skýrsla um hvaðeina, sem hefur gerst í þessum efnum. Fyrir hana hefur verið lögð skýrsla um viðræður við Porter aðstoðarutanrrh. Bandaríkjanna. Fyrir hana hefur á sínum tíma verið lögð sú skýrsla, sem framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins kom með, Joseph Luns, og reyndar hefur verið úti í Brussel birtur úr henni útdráttur, sem öllum er tiltækur. Ég veit ekki betur en utanrmn. hafi verið kynnt erindi norsku stjórnarinnar. En það hljóta menn þó að viðurkenna, að ef ein ríkisstj. sendir þannig erindi til annarrar, þá er ekki ætlast til þess, að farið sé að ræða um það opinberlega, heldur er gert ráð fyrir því, að beð sé farið með það sem trúnaðarmál. Og ég er hræddur um, að ef við fylgdum ekki þeirri reglu, yrði það nú ekki litið hýru auga af þeim, sem við þurfum að eiga margvísleg skipti við, — skipti, sem þurfa að fara fram í trúnaði.

Svo vil ég bæta því við út af því, sem hv. þm. Bjarni Guðnason sagði, að ég vil ráðleggja honum að vera ekki of óþolinmóður um þetta. Mér sýnist nú horfa vænlega einmitt, þar sem hann lýsir fullu fylgi við stjórnina í þessu máli, svo að þar höfum við þó nógan meirihl. En fyrir mér er það auðvitað svo, og ég geri ráð fyrir því, að svo sé unn aðra, að það er markið, sem skiptir höfuðmáli, en ekki hitt, hvort það verður deginum eða mánuðinum fyrr eða seinna. Hins vegar vil ég segja það, að mér finnst vegna stöðu hv. þm. eðlilegt, að utanrrh. gefi honum kost á að fylgjast með í þessu máli. Það þýðir vitaskuld ekki það, að hann geti fengið að fylgjast með í hvert sinn, sem þessi mál eru rædd í ríkisstj., en hann fái að fylgjast með, þegar eitthvað verulegt gerist í þeim.