28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Út af því, sem ég sagði um greinilega hlutdrægni sjónvarpsmanna í þeim sjónvarpsþætti, sem hér er til umr., spurði hv. þm. Matthías Á Mathiesen, hvort ekki væri rétt að bera saman þann tíma, sem annars vegar hæstv. utanrrh. og formaður Alþb., Ragnar Arnalds, hefðu fengið þarna, og svo þann tíma, sem formaður Sjálfstfl. hefði fengið. Það kann að vera, að þeir hafi haft að því leyti meiri tíma, að þeir höfðu miklu meiru að svara en hv. formaður Sjálfstfl. Það, sem ég var að ræða um áðan, var einmitt þetta, að þátturinn snerist allur á þá sveifina að beina spurningum til þessara manna í þeim dúr, að það var greinilegt, það fór ekki á milli mála, að allir þessir spyrjendur þrír litu á sig sem fulltrúa samtakanna Varins lands í þessum þætti. Þess vegna má satt að segja bæta þeim tíma við þann tíma, sem hv. formaður Sjálfstfl. fékk þarna, ef ætti að fara að reikna sameiginlega út það, sem fylgjendur áframhaldandi hersetu á Íslandi fengu í þessum þætti.

Það má vekja athygli á öðru í þessu sambandi, og það er, að í gær var haldinn í Háskólabíói fjölmennasti fundur, sem þar hefur nokkurn tíma verið haldinn, til stuðnings málstað þeirra, sem berjast fyrir því, að herinn hverfi af Íslandi. Það er ekkert vafamál, að sá fjöldi, sem þennan fund sótti, var meiri en hefur nokkurn tíma komið þar á fund. En sjónvarpið sá ekki ástæðu til að minnast á þennan fund einu einasta orði í gærkvöld, hvað sem verður síðar.

Að lokum þetta: Það er verið að tala hér um leynd, sem hvíldi yfir þessu máli. Menn standa hér upp og býsnast yfir leynd, sem hvíli yfir yfir þessu máli. Forustumenn tveggja stjórnarandstöðuflokkanna standa hér upp og býsnast heil ósköp yfir leyndinni, sem hvíli yfir þessu máli, yfir ólýðræðislegum vinnubrögðum, sem ríki við meðferð þessa máls, þegar verið er að vinna að því að létta af þeirri hersetu, sem komið var á 1951. Ég leyfi mér að minna á, að það var ekki laust við, að það hvíldi leynd yfir vinnubrögðunum, þegar verið var að koma þessari hersetu á 1951. Þá voru kallaðir hingað suður til Reykjavíkur fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna nema Sósfl. Þetta veit ég vel, vegna þess að ég var á þingi þá, 1951. Og þeir, sem gátu komið suður, voru látnir samþykkja hernámið, en þeir, sem ekki gátu komið suður, voru látnir segja gegnum síma, að þeir væru samþykkir því. En við þm. Sósfl. vorum aldrei að spurðir, og málið kom ekki til afgreiðslu Alþingis fyrr en um haustið. Það hefur sannarlega hvílt leynd yfir þessum alvarlegu málum, en oft miklu meiri og alvarlegri leynd en núna. Og þegar þeir standa hér upp, þessir hv. þm., forustumenn þessara flokka, hv. þm. Gunnar Thoroddsen og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, til að býsnast yfir leynd og ólýðræðislegum vinnubrögðum, þá leyfi ég mér að segja: Heyr á endemi og vei yður, þér hræsnarar.