28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

Umræður utan dagskrár

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég get verið stuttorð, en get ekki orða bundist vegna ummæla hv. þm. Gunnars Thoroddsens og hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesens, um þá leynd, sem á að hafa hvílt yfir þessum viðræðum. Ég er enginn talsmaður leyndar og ég er þeirrar skoðunar, að hefðu þeir flokkar, sem stóðu að ákvörðuninni um komu hersins hingað 1951, farið að með minni leynd, þá hefði margt farið öðruvísi. En ég vil einkum og sér í lagi minna þessa tvo hv. þm. og aðra þm. Sjálfstfl., sem hér eru inni, á till. til þál., sem þeir lögðu fram á Alþ. á fyrsta þingi þessa kjörtímabils, um fyrirkomulag viðræðna um öryggismál Íslands. Ég ætla að lesa þessa till., með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela hverjum þeirra þingflokka, sem styðja þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, að tilnefna einn fulltrúa, sem skuli starfa með utanrrh. Í viðræðum við Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir handalagsins um endurskoðun á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins, þátttöku Íslands í störfum bandalagsins og skipan öryggismála landsins.“

Svo mörg voru þau orð. „Alþ. ályktar að fela hverjum þeirra þingflokka, sem styðja þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu.... “Hvað þýðir nú þetta? Það þýðir, að verið er að fara fram á, að Alþ. samþykki að halda viðræðum um þessi mál leyndum fyrir 10 þingmönnum. Ég veit ekki til þess, að nokkur annar þingflokkur en Sjálfstfl. hafi farið sérstaklega fram á, að Alþ. samþykkti, að þingmál yrðu rædd á þennan hátt, að útiloka einn þingflokk algjörlega frá afskiptum af þingmálum. Meiri leynd er víst ekki hægt að viðhafa. Ég tel hollt fyrir þessa hv. þm, að draga fram þessa till. sína, lesa hana og hugleiða. Flm. voru 10 þm. Sjálfstfl., en í grg. kemur glögglega fram, að þeir tala fyrir hönd flokksins alls, og ég hef ekki heyrt hv. þm. Gunnar Thoroddsen né hv. þm. Matthías Á. Mathiesen bera á móti því, að þeir væru henni að öllu leyti samþykkir.