28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Hér hefur verið rakið efni frv. til l. um sérstakt útflutningsgjald af loðnuafurðum framleiddum á árinu 1974, sem lagt er fram til staðfestingar á brbl., sem sett voru 11. jan. s.l. Eins og hér hefur komið fram, er gert ráð fyrir, að þetta útflutningsgjald nemi 6% af fob- verðmæti loðnuafurða. Undanskildar eru þó niðursoðnar og niðurlagðar loðnuafurðir.

Þeim fjármunum, sem þannig yrðu innheimtir, skal aðallega varið til að greiða niður verð á brennsluolíum til íslenskra fiskiskipa, og skal miðað við það, að olíuverð hérlendis til fiski skipa verði ekki hærra á fyrstu 5 mánuðum ársins 1974 en það var í nóv. 1973, eða kr. 5.80 lítrinn. Þá skal einnig varið 25 millj. kr. af tekjum þessa sjóðs til lífeyrissjóða sjómanna.

Þessar ráðstafanir eru grundvallaðar á því, eftir því sem skýrt kemur fram í grg., að verðhækkanir á olíu í heiminum komi sérstaklega hart niður á útgerðinni og geta einstakra greina sjávarútvegsins til að mæta þessari hækkun sé misjöfn. Þetta er sem sagt grundvallarástæðan fyrir þessari lagasetningu, eftir því sem fram kemur í grg., sem fylgir þessu frv.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að olíuskortur og verðhækkanir á brennsluolíu undanfarið hafa haft í för með sér ýmsar ófyrirsjáanlegar afleiðingar í verslun og viðskiptum þjóða á milli og raunar á fjölmörgum sviðum öðrum. Þótt við Íslendingar höfum verið svo lánsamir hingað til að geta fengið keypt nægjanlegt magn þessarar vöru til eigin nota, sem er meira en aðrar Vestur-Evrópuþjóðir geta sagt, er því ekki að neita, að við höfum ekki farið varahluta af ýmsum áhrifum, sem fylgt hafa í kjölfar olíuskortsins. Sú staðreynd er auðvitað hverjum manni ljós. Afleiðingar þessa hafa vissulega skapað okkur Íslendingum nokkur vandamál og erfiðleika. En það hefur ekki heldur farið fram hjá mönnum, að formælendur hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar virðast reyna að nota olíukreppuna til óeðlilegra aðgerða svo og til framdráttar óvinsælum málum langt umfram það, sem efni standa til. Um það væri hægt að nefna ýmis dæmi.

Í fersku minni er t.d. yfirlýsing formanns Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, svo að eitthvað sé nefnt af slíkum dæmum, þegar hann skýrði samningagerð bandalagsins um kaup og kjör opinberra starfsmanna, þar sem fallið var m.a frá mikilvægum kröfum um úrbætur í skattamálum og húsnæðismálum á þeim forsendum, að olíuskortur væri í heiminum. Málflutningur hæstvirtra ráðh. er einnig stundum slíku marki brenndur. Sá málatilbúnaður, sem liggur að baki því máli, sem hér er til umr., virðist að nokkru leyti a.m.k. af þeim toga spunninn. En áður en ég skýri það nánar, skal víkið með örfáum orðum að þeim atriðum í umræddu máli, sem rétt eiga á sér að mínum dómi.

Því verður auðvitað ekki neitað af neinni sanngirni, að tilfinnanlegar hækkanir hafa orðið á verði brennsluolíu, sem hljóta að raska hag og afkomu útgerðarinnar, og má gera ráð fyrir, að geta einstakra greina sjávarútvegsins til að mæta þessari hækkun geti orðið misjöfn. Þess vegna er hægt að færa fram rök fyrir því, að eðlilegast sé, að niðurgreiðslur á olíu til fiskiskipa komi til. Það, sem á hinn bóginn orkar tvímælis að mínum dómi, snertir fyrirkomulag, uppbyggingu og hugsanlega framkvæmd á niðurgreiðslum á olíum til fiskiskipanna samkv. því, sem fram kemur í þessum brbl. Því var slegið föstu, þegar brbl. voru sett að loðnuframleiðslan yrði aflögufær á þessu ári. Í grg. með brbl. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkjandi verðlag á þessum afurðum er nú mjög hagstætt. Þessi grein er talin aflögufær. Er sýnt, að hagur loðnuveiða og vinnslu getur orðið mjög góður þrátt fyrir þessa gjaldtöku.“

Svo mörg eru þau orð. Þetta er sjálfsagt ritað fyrri hl. jan., en brbl. voru gefin út 11. jan. s.l. Því miður er nú svo komið, að þessi tilvitnuðu orð fá ekki lengur með nokkru móti staðist. Sú breyting hefur orðið á allri aðstöðu í sambandi við sölumál loðnuafurða, eins og kunnugt er af því, sem fram hefur komið í fjölmiðlum viða, að óvissa ríkir nú um verðlag á loðnuafurðum á mörkuðum. Þá þróun, sem orðið hefur í þessum efnum, síðan brbl. voru .sett, var ekki hægt að sjá fyrir að mínum dómi. Ég treysti mér því ekki til að gagnrýna hæstv. ríkisstj. fyrir að hafa metið stöðuna í sölumálum loðnuafurða, þegar brbl. voru sett, öðruvísi en nú horfir í dag. Vonandi rætist úr þeim á þann veg, sem gerð er grein fyrir í grg. með brbl. Hitt er svo annað mál, að af ýmsum öðrum ástæðum verður að telja varhugavert, svo að ekki sé kveðið fastar að orði, að skattleggja eina grein sjávarútvegs til aðstoðar öðrum þáttum hans á þann veg, sem brbl. gera ráð fyrir. Auk þess sem slík aðferð getur haft í för með sér mikið óréttlæti gagnvart þeim, sem skattlagninguna verða að þola, t.a.m. eins og það, að markaðsástand og söluverð verði allt annað á tímabilinu en gert er ráð fyrir við lagasetninguna, hlýtur þessi skattheimta öll að byggja á ákaflega veikum grunni.

Í þessu sambandi vakna ýmsar spurningar: Hvað þurfa tekjur sjóðsins að verða miklar, til þess að hann geti annað hlutverki því, sem honum er ætlað? Hæstv. ráðh. minntist á tölu í því sambandi hér áðan, talaði um, að ég hygg, 250 millj. kr. En ég hygg, að allar spár í þessum efnum hljóti að vera meira og minna út í bláinn, því að að sjálfsögðu fer olíunotkun fiskiskipa og þar með niðurgreiðslurnar eftir sókninni á fiskimiðin, en hún ræðst aftur af veðurfari, gæftum og aflabrögðum, en hvort tveggja getur verið ákaflega mismunandi frá ári til árs, eins og allir vita.

Fæst nægjanlegt fjármagn í sjóðinn með 5% á útflutningsgjaldi á loðnuafurðir til að greiða niður olíuverð til fiskiskipa fyrstu 5 mánuði yfirstandandi árs, eins og brbl. gera ráð fyrir? Vissulega hefur loðnuvertíðin farið vel af stað, en allt er í óvissu um söluverð. Um útflutningsverðmætið veit því enginn nú. Hver á að greiða mismuninn, ef sjóðurinn reynist vanmegnugur að standa við skuldbindingar sínar? Á þá enn einu sinni að fara í vasa hins almenna skattborgara og láta hann borga brúsann?

Hvað tekur svo við að 6 mánuðum liðnum, sem brbl. gera ráð fyrir niðurgreiðslu á olíuverði til fiskiskipa, eins og hér hefur komið fram? Þá verður loðnan ekki lengur til að bjarga þessu máli í ár, ef að líkum lætur. Hæstv. ráðh. skýrði frá því áðan í ræðu sinni, að hann hefði gefið vilyrði fyrir áframhaldandi stuðningi við sjávarútveginn til að tryggja sama afkomugrundvöll eftir 1. júní og gert er ráð fyrir á komandi vertíð. En um það, hvernig það skuli gert virðist allt á huldu enn sem komið er. Á enn að auka skattáþján á allan almenning til þess að koma til móts við vanda útgerðarinnar þá? Kannske gerir hæstv. ríkisstj. sér vonir um, að olíukreppan verði þá úr sögunni. Óskandi væri, að slíkar vonir gætu ræst. En óvarlegt er að gera ekki ráð fyrir, að við vandamál verði að etja hjá sjávarútveginum af völdum hins háa verðlags á brennsluolíum, þegar tími þessara laga er á enda á næsta vori, og vonandi ber hæstv. ríkisstj. gæfu til að finna þá ný ráð til að leysa þann vanda, sem þá kynni að vera við að etja að þessu leyti.

Enn eitt atriði í sambandi við þetta mál vekur athygli og umhugsun. Þegar brbl. voru sett, var söluverð gasolíu kr. 7.70 lítrinn. Það hafði hækkað úr kr. 5.80 í kr. 7.70 lítrinn 7. des. s.l. Hvaða rök liggja nú til grundvallar því að miða við kr. 5.80, eins og ráð er fyrir gert, en ekki einhverjar aðrar fjárupphæðir. Það virðist svo sem hæstv. ríkisstj. hafi látið freistast til að nota olíukreppuna til þess að hækka verðlag og mikið tal um ýmiss konar vandamál í því sambandi til að seilast lengra til fanga í sjóði loðnuframleiðenda en eðlilegt getur talist til að leysa það sérstaka vandamál, sem hækkun á olíukostnaði fiskiskipa hefði orðið á komandi vertíð.

Brbl. gera ráð fyrir, að sjútvrn. setji reglur um framkvæmd á niðurgreiðslum á brennsluolíum til fiskiskipa. Ég hygg, að það verði mikið vandaverk, ef takast á að fyrirbyggja með öllu misnotkun við framkvæmd þessa máls. Samkv. 2. gr. l. ber að greiða niður verð allrar þeirrar brennsluolíu, sem pöntuð er til íslenskra fiskiskipa. Hvernig á að tryggja, að olían, sem fer í fiskiskip, sé ekki tekin þaðan aftur og notuð til einhvers í landi? Hefði ekki verið eðlilegra að miða greiðsluna t.d. við úthaldsdaga fiskiskips á veiðum? Misnotkun af því tagi, sem hér um ræðir, skapar óviðunandi misrétti gagnvart þeim fjölda, sem verður að una því að greiða olíu til upphitunar húsa sinna og til annarra þarfa í landi fullu verði og án nokkurra niðurgreiðslna. Það skal þó tekið fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að ég hef enga sérstaka ástæðu til að ætla, að þeir, sem aðstöðu hefðu til slíkrar misnotkunar, sem ég geri hér að umtalsefni, mundu notfæra sér hana. En það hlýtur að vera skylda löggjafans að búa þannig um hnútana við hverja lagasmíð, að slíkum hættum sem ég geri hér að umtalsefni sé ekki boðið heim, sé annarra kosta völ. Ég hygg, að unnt hefði verið að ná því meginmarkmiði, sem stefnt er að með setningu brbl.., og jafnframt tryggja framkvæmd þeirra, án þess að boðið sé upp á misnotkun eins og ýmislegt bendir til, að geti orðið í þeirri gerð, sem lögin nú eru, ef öðruvísi hefði verið að þessu máli staðið, svo sem ég hef gert hér grein fyrir.

Ég vil að lokum minnast nokkrum orðum á það ákvæði í brbl., sem gerir ráð fyrir, að 25 millj. kr. verði teknar af loðnuframleiðendum til að setja í lífeyrissjóð sjómanna eða réttara sagt teknar úr þeim sjóði, sem myndaður verður af 5% útflutningsgjaldinu, sem annars á að nota til að greiða niður brennsluolíuverðið til fiskiskipanna. Það er góðra gjalda vert og því ber að fagna, að lífeyrissjóðir sjómanna séu efldir. Á því er ekki vanþörf að mínum dómi. Ég fagna því sérstaklega, að ætlunin virðist vera að stefna að því að tryggja, að sjóðirnir miði eftirlaunagreiðslur til sjómanna við lægri aldur en gert hefur verið. En að tengja slíkt mál ráðstöfunum til stuðnings vissum greinum sjávarútvegs vegna verðhækkana á olíum er óvenjuleg aðferð, svo að ekki að meira sagt. En þetta er bara enn eitt dæmi um þá tilhneigingu hæstv. ríkisstj. að nota olíukreppuna sem skálkaskjól til að leysa verkefni, sem ekki eru bundin því vandamáli.

Herra forseti. Ég hef gert aths. um nokkur efnisatriði þessa frv. Ég á sæti í þeirri þn., sem fær þetta mál til meðferðar, ef að líkum lætur, og gefst þá væntanlega tækifæri til að athuga betur þau atriði, sem ég hef minnst hér á, og fleira í því sambandi. En ég vil að lokum leggja áherslu á þá skoðun mína, að ekki varð hjá því komist að gera sérstakar ráðstafanir til að mæta þeim vanda, sem útgerð fiskiskipaflota landsmanna hefur orðið fyrir vegna verðhækkana á olíu. En sá háttur eða aðferð, sem notuð hefur verið til lausnar þessum vanda með setningu þeirra brbl., sem nú liggja hér fyrir til staðfestingar, orkar aftur á móti tvímælis, eins og ég hef sýnt fram á.