29.01.1974
Sameinað þing: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

184. mál, mjólkursölumál

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 331 þá hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. landbrh.: „Hvað líður störfum mjólkursölunefndar?“

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um aðdraganda eða tilurð þeirrar mjólkursölunefndar, sem hér er minnst á og um spurt. Á tveim undanförnum þingum hef ég borið fram frv. til d. um breyt. á l. um Framleiðsluráð landhúnaðarins, sem gerir ráð fyrir rýmkun á smásölu mjólkurvara. Ég tíundaði margvísleg rök til stuðnings þessu frv. og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri til hagsbóta fyrir framleiðendur, mjólkursamlög og neytendur, að mjólk væri seld víðar en nú er gert. Ég taldi, að það fyrirkomulag, sem verið hefði á mjólkursölu, gæfi grunsemdum um mismunun byr undir háða vængi, og hvatti þm. til að taka tillit til þeirra réttlátu óska, sem í frv. mínu voru fólgnar. Það er skemmst frá því að segja, að þessi frv. mættu nokkurri andstöðu hér á þingi. Á þinginu 1971–72 dagaði frv. uppi í þingnefnd. Var það sniðgengið og vart tekið fyrir. Hæstv. landbrh, hafði þá góð orð um að skipa sérstaka n. með hagsmunaaðilum til að skoða málið, en til þess kom þó ekki. Aftur bar ég þetta frv. fram lítið breytt á þinginu 1972–73 og eftir nokkrar umr. og þóf á bak við tjöldin var skipuð fyrir tilstilli hæstv. ráðh. nefnd sú, sem hér um ræðir.

Upphaflega mun ætlunin hafa verið, að n. gæti lokið störfum í byrjun þessa þings, en nefndarstörfin hafa dregist af ástæðum, sem óþarft er að gagnrýna. Nú síðustu vikurnar hefur hins vegar kvisast, að mjólkursölunefnd væri í aðalatriðum komin að einhverju samkomulagi, og taldi ég því eðlilegt og tímabært að spyrjast fyrir um störf n., þannig að ráðh. gæti upplýst, hvers eðlis það samkomulag sé, sem talað er um, að n. hafi komist að.