30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

14. mál, dreifing sjónvarps

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Svarið við 1. lið fsp. hv. 1. þm. Norðurl. e. er svo hljóðandi:

Samkv. upplýsingum Ríkisútvarpsins hafa framkvæmdir við dreifikerfi sjónvarps takmarkast í ár við að ljúka við áður ákveðin verkefni, svo sem sjónvarpsstöðvar á Djúpavogi og Húsavíkurfjalli. Enn fremur var haldið áfram byggingarframkvæmdum, smærri í sniðum, á þessum stöðum: Víðidal og Vatnsdal í Húnavatnssýslu, Sandafelli í Dýrafirði, Fljótsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu, Auðbjargarstaðabrekku í Kelduhverfi, Skáneyjarbungu í Borgarfirði, á Botnsheiði milli Súgandafjarðar og Ísafjarðar og á Suðureyri sjálfri. Varavélar voru settar í stöðvarnar á Blönduósi og á Fosshóli við Goðafoss.

Svarið við 2. lið fsp. er það, að samkv. upplýsingum Ríkisútvarpsins hafa aðflutningsgjöld af innfluttum sjónvarpstækjum síðustu 5 ár verið þessi:

Árið 1968 56 725 466 kr. Árið 1969 51 418 577 kr. Árið 1970 35 770 286 kr. Árið 1971 24 043 244 kr. Árið 1972 24 661 070 kr. Á árinu 1973 áætlar Ríkisútvarpið, að gjöldin nemi 20 millj. kr., og á árinu 1974 24 millj.

3. lið fsp. er því að svara, að ekki eru uppi áform af hálfu stjórnvalda um aðrar tekjuöflunarleiðir vegna dreifingar á sjónvarpi.