29.01.1974
Sameinað þing: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

184. mál, mjólkursölumál

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það ber nokkuð á milli skilnings míns og hv. 9. landsk., hvað sé kurteisi í vinnubrögðum. Ég hefði talið það ókurteisi af minni hendi að fara að skýra frá því, sem væntanlega kæmi í því nál., sem mér yrði skilað. Ég hef frásagnir formanns n. um, hvað sennilega verði í nál. Hins vegar er nál. ekki frágengið og undirritað, og meðan svo er ekki, tel ég ekki, að ég eigi að skýra frá því, hvorki hér á hv. Alþ. né annars staðar, hvað kynni að koma fram í nál., enda mun oft reynast svo, að nál. geta breyst á síðasta stigi, þó að horfurnar séu nokkuð séðar á því stigi, sem upplýsingar eru gefnar í samtölum. Ég taldi því, að mér bæri að skýra frá því, sem ég vissi um málið og hafði rétt til að skýra frá, en öðru ekki.

Hins vegar vil ég segja það út af því, sem hv. þm. sagði í sinni fyrri ræðu, að það var ekki löngu eftir að ég tók við starfi landbrh., sem ég ræddi bæði við Kaupmannasamtökin og einnig við framleiðsluráð og mjólkursölumenn um þessi mál og hafði átt við þessa aðila nokkrar umr., þegar hann bar fram sitt mál fyrst. Ég hef alltaf talið, að heppilegasta lausnin, til þess að úr þessu máli leystist á þann veg, sem farsælast væri talið af þeim mönnum, sem best þekktu og um fjölluðu, væri að gefa þeim tækifæri til að vinna að lausninni, en vera ekki með afskipti af því, meðan verið væri að vinna eð því, og þá ekki heldur að fara að skýra frá væntanlegum niðurstöðum, heldur bíða þess, að þær komi.