29.01.1974
Sameinað þing: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

400. mál, húsnæðismál Menntaskólans við Lækjargötu

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 331 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um húsnæðismál Menntaskólans við Lækjargötu. Mér hefur þarna orðið á í messunni, því að þessi skóli gengur undir heitinu Menntaskólinn í Reykjavík, og biðst ég forláts á því og vona, að það hafi ekki misskilist.

Það er víst flestum ljóst, að skórinn kreppir víða í skóla- og fræðslumálum lands okkar. Margar sögur væri unnt að rekja um aðgerðaleysi, tafir og ófremdarástand í byggingarmálum skólanna. Er það kapítuli út af fyrir sig, hversu gersamlega hefur skort á allt frumkvæði stjórnvalda á vettvangi menntamála, hvernig skólabyggingarmál hafa drabbast niður og deyfð og doði markað sín spor í fræðslumálum þjóðarinnar. Á meðan grunnskólafrv. velkist hér í þinginu ár eftir ár, frv., sem fyrirsjáanlega leysir aðeins að takmörkuðu leyti þann vanda, sem við blasir á grunnskólastiginu hvað byggingarmálin snertir, hafa fræðsluyfirvöld kinokað sér við að taka vandamál framhaldsskólastigsins föstum tökum. Ætti þó að vera samdóma álit kunnugra manna, að framhaldsskólastigið væri öllu viðkvæmara og brýnna úrlausnarefni. Það skólastig ræður örlögum unglinganna og beinir þeim inn á þær brautir, sem úrslitum ráða í lífshlaupi þeirra. En einmitt á því skólastigi búum við enn í aðalatriðum við úrelta skólaskiptingu, gamaldags fræðslukerfi og gersamlega ófullnægjandi búsakost.

Ég hef beint spurningu til hæstv. menntmrh., sem varðar húsnæðismál eins framhaldsskólanna, þ.e.a.s. húsnæðismál Menntaskólans í Reykjavík. En þar er aðeins um að ræða brot af heildarvandanum og aðeins það, sem snýr að ytri aðstæðum. En húsnæðismálin, aðstaðan til kennslunnar er að sjálfsögðu forsenda þess, að halda megi uppi árangursríku og eðlilegu skólastarfi. Reyndar væri af nægu að taka varðandi framhaldsskólana hér í Reykjavík og þá ekki síst menntaskólana. Enn er ekki lokið að byggja yfir Hamrahliðarskólann, ekkert er enn aðhafst í byggingarmálum Menntaskólans við Tjörnina, og ástandið í Menntaskólanum í Reykjavík er eins og raun ber vitni. Verður að segja þá sögu eins og er, að ríkisvaldið og fjárveitingavaldið hafa nánast virt að vettugi þessa reykvisku skóla, og fyrir löngu er orðið tímabært fyrir þá þm., sem valdir eru af Reykvíkingum, að vakna upp af Þyrnirósarsvefni sínum og átta sig á, að Reykjavík hefur verið sniðgengin hér sem viða annars staðar.

Gagnrýni mín er ekki tilhæfulaus. Vanræksla og tillitsleysi gagnvart hinum reykvísku menntaskólum eru augljósar staðreyndir. Menntaskólinn í Reykjavík rúmaði á sínum tíma 60 nemendur, sennilega heil öld liðin síðan. Nú sækja skólann um og yfir 900 nemendur ár hvert. Nemendafjöldinn hefur farið yfir þúsund, og í haust byrjuðu þar nám 880 nemendur. Kennsla fer þar fram í ekki færri en 7, — sagt og skrifað 7 fasteignum, reyndar í öllu tiltæku húsnæði í nágrenni gamla skólans, sem völ er á. Nemendur og kennarar eru á hlaupum milli húsa með bækur og önnur gögn, og þarf vart að lýsa því neyðarástandi, sem í skólanum ríkir.

Nú um nokkurt skeið hefur ýmsum úrbótum verið lofað af hálfu stjórnvalda, en minna orðið úr efndum. Forsvarsmenn skólans, nemendur og Reykvíkingar yfirleitt eru orðnir langþreyttir á þessu sinnuleysi. Því er þessi fsp. borin fram, ef hún mætti verða til þess að koma hreyfingu á úrbætur til handa þessari gömlu og virðulegu menntastofnun.