29.01.1974
Sameinað þing: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

401. mál, litasjónvarp

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég finn það núna, að ég er farinn að eldast. Mér var ómögulegt að skilja röksemdafærsluna að baki þeirri fullyrðingu hv. þm. Ellerts Schram, að það bæri vott um tvískinnung hjá íslensku ríkisstj. eða í stjórnarflokkunum, að Ameríkanar ætla að fara að senda út í litum frá Keflavíkurflugvelli. Ég held, að þetta hljóti að vera að kenna ellihnignun hjá mér, sé ég allt í einu hættur að skilja þennan skynsama mann.

En ég tek undir margt af því, sem hann segir hér varðandi Keflavíkursjónvarpið. Fréttin í Alþýðublaðinu í morgun er sannarlega athyglisverð. Alþýðublaðið hefur, eins og menn vita, valið sér kjörorð: „Blaðið, sem þorir.“ Þetta er skrifað rauðu letri á forsíðunni. Eitt af því, sem þetta blað „þorir“, er að birta dagskrá Keflavíkursjónvarpsins. Það notar rautt letur, þegar það segir frá einhverju, sem það telur vera merkilegt. Þótt ótrúlegt sé að vísu, notar það ekki rautt letur á dagskrá Keflavíkursjónvarpsins, heldur bara venjulega prentsvertu eins og á dagskrá íslenska sjónvarpsins.

Nú þessa dagana, þegar Íslendingar takast á um það stórmál. hvort hér skuli vera her eða ekki her, og menn tala mikið um þjóðernislegan metnað, þjóðarstolt og sjálfsvirðingu Íslendinga, gerist það varla nokkurn tíma, að Alþýðublaðið taki nokkurn þátt í þeim umr. Í morgun t.d. er ekki nokkurt orð um umr., sem áttu sér stað hér á Alþ. í gær Aftur á móti er á forsíðu þessi líka frétt, fagnaðarboðskapur: „Keflavíkursjónvarpið í lit í júní í sumar.“ Ég leyfi mér þess vegna að spyrja og ítreka ýmsar spurningar, sem fram komu hjá hv. þm. Ellert Schram, hvort eigi virkilega að þola, að Keflavíkursjónvarpið, sem með starfsemi sinni margbrýtur og þverbrýtur íslensk lög, fari nú að efla sig í samkeppni við hið íslenska sjónvarp með því að senda út í litum. Og ég spyr, hvort stjórnendur þessa sjónvarps geti leyft sér hvað sem er án þess að fá samþykki löglega kjörinna íslenskra yfirvalda yfir íslensku sjónvarpi og hljóðvarpi. Eða er það kannske með samþykki hæstv. menntmrh., að Ameríkanar hafa í undirbúningi að senda út í litum strax í júní í sumar, rétt fyrir þjóðhátíð okkar Íslendinga? Þessa vil ég sem sé leyfa mér að spyrja hér, og ég vænti þess sem einn af stuðningsmönnum ríkisstj. að fá við þessu skýlaus svör. Hitt þykist ég vita, að þegar kemur að því, að Kanar fari að senda út í litum, þá muni málgagn Alþfl. íslenska einnig fara að birta dagskrá þess sjónvarps í litum.