29.01.1974
Sameinað þing: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

401. mál, litasjónvarp

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér er að vísu ekki ljóst, hvort nokkuð meira athugavert væri við það, að Ameríkumenn sendu út í litum af Keflavíkurvelli, hvort það væri nokkuð ólöglegra heldur en þeir sendu út sjónvarpsmyndir í svörtu og hvítu. Mér er það ekki alveg fyllilega ljóst. En fsp., sem hér er borin fram og svarað af hæstv. menntmrh., hljóðar upp á íslenskt litasjónvarp, og vakin var athygli á því í framsöguræðu, að það var tilkoma Keflavíkursjónvarpsins, sem knúði Íslendinga áfram um það að koma upp sjónvarpi, áður en þeir höfðu komið upp útvarpi, sem heyrðist um landsbyggðina. Mér er kunnugt um það, að hér inni eru þm. Austfirðinga og Norðlendinga, sem á sínum tíma inntu þáv. útvarpsstjóra eftir því, hvort ekki væri hægt að gera ráðstafanir til þess að útvarp heyrðist um landsbyggðina, sérstaklega um Austur- og Norðausturland, áður en lagðar yrðu stórar fjárfúlgur í að koma upp sjónvarpi, en fengu svör á þá leið, að það hefði aldrei verið stefna Ríkisútvarpsins að heyrast út um hvippinn og hvappinn. Enn í dag heyrist ekki útvarp á stórum svæðum á Austurlandi og Norðausturlandi og á Vestfjörðum, þó að Ríkisútvarpið hafi starfað í 44 ár. Þegar nú á að hefja umr. um það, hvort við eigum ekki að verða a.m.k. jafnfljótir til og Kaninn að byrja litsjónvarp á Íslandi, áður en þannig hefur verið gengið frá tæknimálum Ríkisútvarpsins, að t.d. útsendingar á góðri músík heyrist víðs vegar um landið, þá liggur við, að manni finnist ástæða til að hvetja til þess, að hægt verði á umr. í bili og athugað, hvort ekki væri hægt áður að koma því til leiðar, að útvarp heyrðist um hinar dreifðu byggðir. Nú vill svo til, að Ríkisútvarpið hefur þegar komið sér upp þeim tæknibúnaði, sem mestur kostnaðurinn liggur í, til þess að koma mætti örbylgjusendingum eða FM-útvarpi til a.m.k. allra þeirra byggðra býla á Íslandi, sem njóta sjónvarps, og ég ítreka aðeins þessa aths. mína, að það væri vel viðeigandi að athuga, hvort ekki væri fyrst hægt að koma útvarpinu eftir 44 ár inn á íslensk heimili.