29.01.1974
Sameinað þing: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

401. mál, litasjónvarp

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svarið, enda þótt það hafi verið nokkuð rýrt. Það gleður mig, að hann skuli vera farinn að lesa Alþýðublaðið, því að þar komst hann á snoðir um það, hvað stæði til hjá þeim á Keflavíkurflugvelli, og er hann væntanlega farinn að lesa það að staðaldri eftir sameininguna. Það hefur verið opinbert leyndarmál hér í þéttbýlinu, hvað til stæði um þetta litasjónvarp, nú um nokkuð langan tíma. Hitt er annað mál, að ég byggði ekki þessa fsp. mína á þeim sögusögnum, og reyndar er það tilviljun, að þessi frétt birtist sama dag sem þetta mál er tekið fyrir hér á þingi.

Ég verð því miður að taka undir það með vini mínum, hv. þm. Jónasi Árnasyni, að ég held, að hann sé orðinn nokkuð gamall, ef hann er ekki lengur farinn að skilja það, sem ég segi, né heldur hann átti sig á þeim tvískinnungi, sem hann tekur þátt í þessa dagana með því að telja þjóðinni trú um, að varnarliðið eigi að fara úr landi innan tíðar, á sama tíma sem stórfelldar byggingarframkvæmdir eiga sér stað með vitund og vilja núv. stjórnvalda. Ég tel, að í þessu sé fólginn tvískinnungur. Ég held, að það sé líka í því fólginn tvískinnungur að tala um atlögu að íslenskri menningu með stóryrðum, eins og hann og hans félagar gerðu hér á árum áður, en hreyfa hvorki legg né lið nú, þegar þeir komast í valdaaðstöðu, gegn þessu háskalega sjónvarpi. Þetta er sá tvískinnungur, sem ég var að tala um áðan.

Ég hugsa, að hv. 6. landsk., Stefán Jónsson, hvað sem útvarpinu líður og að það skuli ekki heyrast um allt land, sem er að sjálfsögðu slæmt, þá sé hann sammála mér um það, að betra var á sínum tíma að stofna til íslenska sjónvarpsins og setja það af stað heldur en láta Keflavíkursjónvarpið, sjónvarpsstöð erlends varnarliðs í landinu, vera eitt um hituna og láta Íslendinga horfa á það. Ég get sagt frá því, sem ég hef sagt áður í umr, á þingi, að ég taldi það hneyksli og tel það enn hneyksli, að slíkt sjónvarp sé eitt um hituna. Má vera, að það hafi skapast annað ástand í dag.

Ég geri litasjónvarp Keflavíkursjónvarpsins að umtalsefni vegna þess, að ef á ekki að stöðva þetta sjónvarp, sem ég tel engar líkur á, meðan þessi stjórnvöld sitja, þá verða Íslendingar að gera sér grein fyrir því, að hér er á ferðinni samkeppni, sem stefnir íslenska sjónvarpinu í hættu vegna þess að þegar kemur litasjónvarp, fullkomið sjónvarp á Suðurnesjum, þá má reikna með því, að fólk fari aftur að horfa að staðaldri á þetta sjónvarp. Hvar stöndum við þá með okkar íslenska sjónvarp? Meðan þetta er staðreynd, verðum við að horfast í augu við það og haga okkar sjónvarpsrekstri í samræmi við það. Þess vegna held ég, að það sé fyllilega kominn tími til, að við gerum okkar ákvarðanir og áætlanir um þetta efni, enda þótt engin svör sé hægt að draga upp úr hæstv. ráðh.