29.01.1974
Sameinað þing: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

121. mál, z í ritmáli

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Á þskj. 148 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Helga F. Seljan, Ellert B. Schram og Bjarna Guðnasyni að flytja till. til þál. um z í ritmáli. Tillgr. er örstutt, og hún er um það, að Alþingi álykti, að hrundið skuli þeirri ákvörðun að fella z niður í íslensku ritmáli.

Þessi till. er búin að liggja alllengi fyrir í hv. Alþingi, og þess vegna geri ég ráð fyrir því, að öllum hv. þm. hafi gefist kostur á að kynna sér grg., sem þessari till. fylgir. Hún er stutt og er ein fullyrðing. En allir, sem í alvöru vilja hugsa um þetta mál, geta séð í hendi sinni, að þessi fullyrðing á fyllsta rétt á sér. Ég mun þó reyna að finna henni frekari stað.

Það mun hafa verið í byrjun sept. s.l., sem tilkynning barst frá menntmrn., að fella skyldi bókstafinn z niður í íslensku ritmáli. Það má með sanni segja, að sú tilkynning hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Um leið fékk almenningur að vita að rn. hefði með bréfi, dags. 2. maí s.l., skipað menn í n. til að endurskoða íslenskar ritreglur.

Ég fer fram á það hér og nú að fá upplýsingar um, hverjir skipa þessa n. og hvaða laun t. d. hún þiggur. Enn fremur er farið fram á að fá upplýsingar um, hvaða nauður rak til þess nú að hefja endurskoðun á ritreglum, að hverra eða hvers frumkvæði var ráðist í þá endurskoðun. Það er nauðsynlegt að fá sem gleggstar upplýsingar um alla þætti þessa máls, því að greinilega er með því vegið að íslensku ritmáli og úr launsátri.

Í samtali við Morgunhlaðið sagði form, endurskoðunarnefndarinnar, prófessor Halldór Halldórsson, að samstaða hefði verið í meginatriðum innan n. um niðurfellingu z. Halldór kvað afnám z einföldun á stafsetningunni, en hann bjóst við, að það mundi taka eina kynslóð, áður en hinar nýju reglur yrðu ríkjandi í stafsetningunni. Halldór Halldórsson veit ofur vel að ekki tjóir að hugsa í máli þessu í mánuðum eða árum, heldur í mörgum áratugum og jafnvel öldum.

Það er dálítið hlálegt í sambandi við þetta mál. að hv. form. endurskoðunarn. hefur sjálfur lýst yfir, að hann muni vitaskuld halda áfram að rita z.

Í sama tölubl. Morgunblaðsins er viðtal við sjálfan hæstv. menntmrh., og er hann heldur en ekki djúpskreiður í spekinni. Menntmrh. segir þar orðrétt, með leyfi forseta: „Menntmrh. Magnús Torfi Ólafsson sagði í viðtali við Morgunblaðið, að ráðist væri í þessa breytingu einmitt nú, þar sem menn hefðu talið það vera að fara aftan að kennurum og nemendum í skólum að kenna z hálft eða heilt skólaár til viðbótar, þegar ljóst var, að samstaða var innan n. um þessa tilteknu breytingu og hún kæmi því óhjákvæmilega til framkvæmda.“ Það var og. Það heitir að fara aftan að kennurum og nemendum að kenna z í hálft eða heilt skólaár til viðbótar við þau 44 ár, sem við höfum búið við þessa reglu alfarið. Ástæðan er sú, að þar sem samstaða hafi verið innan n. um þessa tilteknu breytingu, — að vísu gat form. n. þess, að það hefði verið í meginatriðum samstaða um það, — kæmi hún óhjákvæmilega til framkvæmda.

Er nægilegt, að samstaða, — samstaða í meginatriðum, eins og form. orðaði það, — náist innan þessarar huldunefndar, til þess að álit hennar verði að lögum? Það eru meinleg örlög, ef hæstv. menntmrh., sem talinn er mjög fróður maður, hefur ekki þekkt neitt til sögu íslenskrar stafsetningar, svo að hann gat látið sér til hugar koma, að samþykkt lítillar n., sem hann skipar, gæti orðið alræði í þessum sökum.

Út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því, að ritreglur séu athugaðar, þó að ég sjái til þess enga ástæðu nú og eigi eftir að fá skýringu á slíku uppátæki. Um leið og þær skýringar eru gefnar, óska ég eftir því sérstaklega, eins og ég tók fram, að fá alla þætti málsins upplýsta og hverjir áttu hér frumkvæði.

Hverjir eru eðlilegir starfshættir þeirra, sem til þess eru kallaðir að endurskoða einhver efni? Er ekki eðlilegt og sjálfsagt, að þeir skili áliti sinu formlega og í heild. Í stað þess að hafa þann sjálfsagða hátt á er hér einum bókstaf varpað fyrir borð. Mönnum kynni að fljúga í hug, að þetta væri gert til að sýna eljusemi í starfi fyrir útborgunardag. En svo einfalt er málið ekki. Þeir vita betur, sem eru vel kunnugir sögu hörkulegrar þrætu um ritreglur, sem stóð hátt á aðra öld uppstyttulítið.

Fyrir hálfri öld hefði engum lifandi manni dottið í hug að haga sér þannig, ef hann vildi hafa áhrif á ritreglur, að varpa slíkri till. fram án rökstuðnings. Sá hinn sami hefði fyrir fram getað sagt sér til um viðbrögðin. En nú á að gera tilraun á Íslendingum. Nú hyggja launsátursmenn, að kunni að vera dag, og því skal róið. Könnuð skulu viðbrögð almennings í velferðarþjóðfélaginu. Kanna skal, hvort hann er ekki daufdumbur orðinn fyrir öllu öðru en brauði og leikjum, einnig hvort t. d. alþm. hafa ekki áreiðanlega asklokið fyrir himin. Z hefur aldrei verið og er ekki heldur þessum mönnum neitt aðalatriði. Þeir verða að fikra sig áfram að þeirri aðferð, að ritað skuli eftir framburði. Og þá er feitari gelti að flá en z, og þar á ég t. d. við y. Ef þessi tilraun með z heppnast vel. þá er að snúa sér að stóru verkefnunum og þá fyrst og fremst að y. Meðan þrætan stóð um íslenskar ritreglur í 150 ár eða þ. u. b., var endurskoðunarsinnum öllum miklu meira í nöp við y en z.

Ég ætla ekki hér og nú að orðfæra frekar um þessa aðferð, sem er næst í boði, að leggja niður y, ég læt öllum hv. alþm. það eftir. En það verður tilhlökkun að vera ritstjóri Morgunblaðsins með nafni eins og Eyjólfur og Styrmir og allt með einföldu, — og hæstv. forseti, sem að vísu er ekki viðstaddur, þegar hann verður t.d. orðinn yfirþjóðgarðsvörður og verður neyddur til þess að skrifa nafn sitt með einföldu: „Eisteinn Jónsson.“ Menn skulu vita, að ýmsir stærri bógar en nm. hæstv. menntmrh. hafa gert hrakalegar tilraunir til að gerbreyta íslenskri réttritun á síðari öldum, en hafa ekki haft erindi sem erfiði. Fyrst má frægan telja sjálfan Konráð Gíslason. Hann taldi á sínum tíma einsýnt að rita eftir framburði, og með Fjölni að vopni skyldi maður halda, að hann hefði haft lykilaðstöðu til þess að fá því framgengt. En svo varð alls ekki. Og geta má þess að hinn fastmótaði gáfumaður, Konráð Gíslason, sneri sjálfur frá villu síns vegar, eftir að þeir vorn látnir Tómas og Jónas, og er Konráð gaf Fjölni út í samráði við aðra, breytti hann til. Úrslitum mun hafa ráðið, að þá höfðu hafið göngu sína Ný félagsrit Jóns forseta, sem í öllum aðalatriðum hélt sig við ritreglur málssnillingsins og Íslandsvinarins Rasmus Rasks. Þær ritreglur, sem við búum við enn í dag, eru að meginstofni hinar sömu, og tel ég þá með hinn nýjasta sið enda er hann hin mesta óregla. Fleiri stórmenni, sem feta vildu í fótspor Konráðs, má nefna, eins og t.d. Björn Ólsen, Bjarna frá Vogi, Guðmund Björnson landlækni og enn marga fleiri. En allar þessar tilraunir enduðu á einn veg, sem sagt að þær náðu ekki fram að ganga.

Ég vil leyfa mér að vitna í orð prófessors Guðbrands Vigfússonar, þar sem hann víkur að þessari reglu, að rita eftir framburði. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En ef menn sveigja á bakborða með Fjölni, þá horfir beint út í hafsauga út í endalausar stafsetningarvillur, því að þar kemur einn ritkækur og nýjung á aðra ofan, þangað til ekki er heil brú eður urmull orðið eftir af málinu. Því að hver sem vill miða rit sitt við framburð einan, honum fer líkt og hafrinum, sem miðaði við skýin og fann ekki mat sinn, og við verðum þangað til að, að enginn veit sitt rjúkandi ráð, hvernig hann á að stafa eða rita.“ Þetta sagði ekki ómerkari maður en Guðbrandur prófessor Vigfússon.

Ég mun nú víkja sérstaklega að z. Ég hef orðið þess var, að nokkrir menn vaða í þeirri villu, að ritun z sé tiltölulega nýtt fyrirbrigði í íslensku ritmáli. Þetta er alrangt mál. Z er frá upphafi ritaldar, hvorki meira né minna. Það er alíslenskt að rita z og ég vil benda á enn fremur, að z er rituð í elstu prentaðri bók á íslensku, Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540.

Ég vil leyfa mér að vitna nokkuð í erindi, sem Magnús Finnbogason menntaskólakennari flutti í Ríkisútvarpið árið 1941. Hann segir þar svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Sjónarmið þau, sem farið er almennt eftir við stafsetningu, eru tvö: Annað er það að miða stafsetningu við framburð, hitt er að miða hana við uppruna. En í framkvæmdinni er hvorugt þessara sjónarmiða einhlítt.

Fyrra sjónarmiðið er ekki einhlítt vegna þess, að bæði er framburðurinn mismunandi í ýmsum landshlutum — og jafnvel hjá einstaklingum í sama héraði — og auk þess eru hljóðtáknin, bókstafirnir, ekki nærri nógu mörg til að tákna öll hljóð málsins.

Síðara sjónarmiðið er ekki einhlítt vegna þess, að málið hefur smám saman tekið margvíslegum breytingum, og gæti því orðið torvelt að skera úr, hvaða telja beri skv. uppruna, enda værum vér þá komnir inn í myrkviði, sem fárra væri að rata gegnum.

Eina færa leiðin hefur því reynst sú að fara bil beggja þessara sjónarmiða, enda hefur hún jafnan verið farin, síðan tekið var að sinna stafsetningu íslenskrar tungu. Aðeins hefur menn greint á um, hvernig miðla skuli málum milli þessara sjónarmiða.

Allt fram á 19, öld var stafsetning íslenskrar tungu mjög á reiki. Var eins ástatt hér og í öðrum löndum, að engar reglur voru til um ritun þjóðtungunnar, þótt hins vegar væri vandað til stafsetningar fornmálanna, latínu og grísku.

Á síðara hluta 18. aldar fer að verða vart nokkurrar viðleitni í samræmisátt, einkum frá Eggert Ólafssyni og Hannesi Finnsyni biskupi. En samræmdar reglur um íslenska stafsetningu eru engar til, fyrr en danski málfræðingurinn Rasmus Rask tekur að rannsaka íslenska tungu. Hann myndar sér fasta stafsetningu og birtir helstu atriði hennar í stafrófskveri sem hann nefndi „Lestrarkver handa heldri manna börnum.“ Nú á kannske ritun z að verða leyfileg aðeins hinum heldri mönnum, eins og prófessorum við Háskálann, þar sem form, í endurskoðunarn. gat þess sérstaklega, að enda þótt það ætti ekki að kenna ungum börnum að rita þennan merkilega staf, þá ætlaði hann að leyfa sér það sjálfur.

Nokkur helstu einkennin á stafsetningu Rasks voru í sambandi við z, að z var rituð í staðinn fyrir ds, ðs, ts og tts.

„Með reglum þessum lagði Rask þann grundvöll, sem síðan var byggt á, þótt skoðanir manna hafi löngum verið skiptar um einstök atriði.

En nærri lá nokkru seinna, að horfið væri frá þeirri stefnu, sem Rask hafði markað, og íslenskri tungu því steypt í voða. Þar á ég við hið alræmda stafsetningarflan Konráðs Gíslasonar, sem mikil hætta gat stafað af, vegna þess að Konráð var einn af útgefendum Fjölnis og hinn snjallasti málfræðingur.

Í öðrum árgangi Fjölnis, 1836, birtir Konráð langa grein um stafsetningu og telur þar, að stafsetning eigi að miðast að öllu leyti við framburð. Ég ætla ekki að lýsa stafsetningu Konráðs því að hún átti sér ekki langan aldur. En ætla má, að nútímamönnum hnykki við, er þeir sjá 19. aldar rit, ekki ómerkara en Fjölni, birta tungu vora í þeim búningi. Þess skal aðeins getið, að í einu atriði vék Konráð þó frá framburðarsjónarmiðinu: Hann ritaði tvöfaldan samhljóð næst á undan öðrum samhljóð skv. uppruna.

Árið 1846 hverfur Fjölnir frá þessari stafsetningu, en tekur upp stafsetningu, sem notuð var á riti, er hafið hafði göngu sína nokkrum árum áður.“ Það voru Ný félagsrit Jóns forseta.

„Þegar Fjölnir hvarf frá stafsetningu Konráðs, varð sú stafsetning í raun og veru sjálfdauð, því að nú var þess skammt að bíða, að Konráð félli sjálfur frá henni. Laust fyrir 1850 tók hann upp nýja stafsetningu. Til grundvallar henni lagði hann stafsetningu Rasks, en gerði á henni nokkrar smávægilegar breytingar.“ „Með því að nota stafsetningu Rasks í Nýjum félagsritum hefur Jón Sigurðsson vafalaust átt drjúgan þátt í því, að sú stafsetningarstefna, sem Rask hafði markað sigraði, en hin uggvænlega stefna Konráðs hvarf úr sögunni. Jón naut svo mikils álits, að það hefði getað riðið stefnu Rasks að fullu, ef hann hefði aðhyllst hina fyrri stefnu Konráðs, enda óvíst, að Konráð hefði þá nokkurn tíma horfið frá henni sjálfur.

Nú tók Halldór Friðriksson latínuskólakennari upp hina nýju stafsetningu Konráðs, samdi réttritunarreglur skv. henni og breiddi hana út. Var hún nú að mestu einráð í landinu fram að aldamótum og ýmist nefnd skólastafsetningin eða stafsetning Halldórs Friðrikssonar. Á síðasta fjórðungi 19. aldar reyndi Björn M. Ólsen að vekja upp hina eldri stefnu Konráðs í ýmsum greinum, t. d. vildi hann nema brott y og ý. En ekki bar sú tilraun hans neinn varanlegan árangur.

Árið 1898 var tekin upp ný stafsetning, blaðamannastafsetningin, er svo var nefnd, fyrir forgöngu Jóns Ólafssonar ritstjóra. Stafsetning þessi var frábrugðin stafsetningu Halldórs Friðrikssonar um það, að nú var é tekið upp að nýju og z látin gilda fyrir tts, auk þess sem hún gilti áfram fyrir ds, ðs og ts.“ „Blaðamannastafsetningin náði talsverðri útbreiðslu, en mætti brátt mikilli andstöðu og varð nú um hríð hið mesta stefnuleysi og ruglingur í stafsetningu manna. Hver fór sínar götur bæði um kennslu og ritun málsins,“ eins og nú virðist því miður vera í boði.

„Nú fór mönnum að þykja tími til kominn að binda enda á þennan ófagnað. Árið 1918 gaf því stjórnarráðið út auglýsingu um eina og sömu stafsetningu í skólum og á skólabókum. Stafsetning þessi er gerð upp úr blaðamannastafsetningunni“ — með smávægilegum breytingum.

„Þessi stafsetning var nú kennd í skólum og notuð á flestum blöðum og bókum um hríð, og hafa ýmsir útgefendur blaða og bóka notað hana“ — notað hana fram til 1940-1950. — En þessi stafsetning mætti einnig harðri andstöðu úr ýmsum áttum og átti sér ekki langan aldur sem opinher stafsetning.

Á fundi íslenskukennara vorið 1924 voru þeir dr. Alexander Jóhannesson, Einar Jónsson magister og Jakob Smári magister kjörnir til að gera nýjar tillögur um stafsetningu. Skiluðu þeir áliti og er stafsetning sú, sem þeir gerðu till, um, í flestum greinum hin sama og stafsetning Halldórs Friðrikssonar.

Nú gerist ekkert fram til ársins 1929. En þá gefur stjórnarráðið út nýja auglýsingu um stafsetningu, og er þá tekin upp nálega óbreytt stafsetning sú, sem þeir dr. Alexander Jóhannesson, Einar Jónsson og Jakob Smári höfðu komið sér saman um vorið 1924. Stafsetning þessi er frábrugðin stafsetningu Halldórs Friðrikssonar um það, að nú er ritað é, en ekki je, og í næst á undan samkvæðu t, sem helst í öllum beygingarmyndum orðs, en ekki p eins og í stafsetningu Halldórs. — Freysteinn Gunnarsson skólastjóri ritaði síðan stafsetningarreglur skv. þessari stafsetningu. — Síðan þessi stafsetning var tekin upp, hefur ekkert verið við henni haggað annað en það, að árið 1934 var veitt undanþága frá því að kenna z í barnaskólum,“ sem aldrei skyldi verið hafa, enda mjög létt að læra þá reglu, fyrr en svo nú, að endurskoðunarsinnar hafa heldur betur tekið til höndunum. Og hefur þó, eins og ég hef tekið fram fátt eitt fram komið af því enn.

Eins og áður hefur verið sagt, eru það þeir Rasmus Rask og Konráð Gíslason, sem hafa aðallega mótað núgildandi stafsetningu, en Jón Sigurðsson, sem átti mikilsverðan þátt í, að sú stefna, sem stafsetning þessi er sprottin upp úr, bar sigur af hólmi, er háskasamlegast var að henni vegið. Þessari stafsetningu verður því ekki fundið til foráttu, að neinir aukvisar eða angurgapar standi að henni. Öllu heldur ættu nöfn þessara manna að vera nokkur trygging fyrir því, að hún sé vel og hyggilega úr garði gerð, og jafnframt nokkur aðvörun miðlungsmönnum gegn því að flana að breytingum á henni eða afnámi hennar. Enda hygg ég mála sannast, að betri stafsetningu höfum við aldrei haft, þegar á allt er litið, og það hafi verið viturlega ráðið að taka hann upp aftur.“ „Stafurinn z er mörgum þyrnir í augum, og er ekki trútt um, að margir ímyndi sér, að hann sé eitthvert sérviskulegt uppátæki málfræðinga og jafnvel ætlaður til þess að gera stafsetningarnám allt sem torveldast.“ Ég minntist á það, að stafurinn z er frá upphafi ritaldar og hann er að finna í elstu bókum útgefnum á íslensku máli. Það verður að vísu að játa, að það þarf dálítillar málfræðikunnáttu við til þess að kunna alfarið að rita þennan staf. En því fer víðs fjarri, að það sé neinum meðalgefnum manni ofvaxið, og þegar það er haft í huga, að stöðugt er verið að lengja skólaskylduna, er víst áreiðanlega tími til þess hjá kennurum að kenna þennan staf, svo að vel fari úr hendi hjá öllum að rita hann.

Ekki væri z heldur gagnslaus, ef hún gæti orðið steinn í götu þeirrar stefnu, sem hafa vill alla móðurmálskennslu sem minnsta og ónákvæmasta. Ég vil leyfa mér að vitna hér í orð Páls Eggerts Ólasonar, sem hann viðhefur í riti sínu um Jón Sigurðsson, þar sem hann segir á einum stað: „Þá tekur skólanám að verða kynlegt, ef farið er að mæla börn undan því að læra móðurmál sitt með þeim hætti, sem skerpt getur skilning þeirra og athyglisgáfu um upptök og uppruna orða. Ef fylgt væri sömu reglu út í æsar, mættu menn ekkert læra nema eins og páfagaukar.“ Á það ber að leggja höfuðáherslu, að þær ritreglur, sem við búum við í dag, fyrir utan hina nýju óreglu endurskoðunarsinna eru niðurstaða þrætu, sem stóð töluvert á aðra öld, þar sem saman leiddu hesta sína nafngreindustu menn sem uppi voru á hverjum tíma. Ritreglurnar eru samkomulag, gert að bestu manna yfirsýn, og ég hygg, að þeir, sem e. t. v. réðu úrslitum um þær reglur, sem settar voru árið 1929, hafi ekki verið ómerkari menn en dr. Sigurður Nordal og Sigurður Guðmundsson skólameistari. Við þær reglur hefur verið farsællega búið og unað í hart nær hálfa öld.

Ég legg áherslu á, að ekkert atriði er svo smátt, er varðar íslenska tungu, að ekki sé lífsspursmál að standa um það vörð.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að lokum að vitna í orð Halldórs Kr. Friðrikssonar yfirkennara, en hann er einn af feðrum íslenskra ritreglna. Hann segir á einum .stað: „Ég vonast til, að z lifi langan aldur hjá öllum þeim sem vilja halda tungu vorri óbjagaðri og óskældri svo lengi sem auðið er.“ Við þessi orð er aðeins því að bæta, að þess verður að vera auðið að halda tungu vorri óbjagaðri og óskældri um aldur og ævi, ef við viljum halda áfram að heita íslensk þjóð.

Herra forseti. Þegar umr. þessari verður frestað, leyfi ég mér að leggja til, að till. verði vísað til hv. allshn.