29.01.1974
Sameinað þing: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

124. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins reisi verksmiðju í Grindavík

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er án efa mjög hagkvæmt að auka möguleika til loðnubræðslu í Grindavík, ekki síst þar sem hafnarskilyrði verða nú betri ár frá ári og loðnan heldur sig í nágrenni þessarar verstöðvar, þegar fram á líður.

Í sambandi við þetta mál langaði mig til að vekja athygli á því, að ef svo færi, að Alþingi samþykkti að síldarverksmiðjur ríkisins reistu loðnuverksmiðju í Grindavík, fyndist mér eðlilegt og sjálfsagt, að þarna yrði a.m.k. að einhverju leyti um tilraunaverksmiðju að ræða, sem framleiddi loðnumjöl til manneldis. Fiskmjöl til manneldis hefur um mörg ár verið rannsóknarefni margra vísindamanna víða um heim. Einkum eru það 3 lönd, sem hafa staðið þar framarlega í athugunum: Japan, Bandaríkin og Noregur. Enda þótt þau árum saman berðust við örðugleika um að ná burt lykt og ná burt bragði af loðnumjölinu, bæði síldar- og loðnumjöli, tókst það að lokum, og þeir komust með þetta mjöl á markað. En þá brá svo við, að enginn vildi neyta þess. Um tíma lögðust þessar rannsóknir því að verulegu leyti niður, þar til Norðmönnum datt í hug, hvort það væri ekki alveg ástæðu laust að taka burt bragðið og lyktina, og tóku til að nýju, og nú er svo komið, að Norðmenn hafa breytt 5 af sínum verksmiðjum í framleiðslu á loðnumjöli til manneldis, loðnu- og makrílmjöli, með þeim árangri, að þeir seldu út þessa vöru til 13 landa á síðasta ári, eitthvað um 3 þús. tonn. Segja verður, að nokkuð af þessari framleiðslu fór sem gjafavara til þróunarlandanna, en þó seldu þeir mikið magn til Nígeríu á frjálsum markaði.

Þetta er mjög athyglisvert, og er ekki nokkur vafi á því, að í þeim eggjahvítuskorti, sem nú vofir yfir heiminum og reyndar er fyrir hendi, er hér geysilega merkilegt að gerast, þar sem um verðmætt eggjahvítuefni er að ræða, og eggjahvítuefni þetta nýtist margfalt betur, sé þess neytt beint, en ef það er sett í gegnum nautgripi eða svín. því vil ég vekja á því athygli, hvort ekki væri rétt, að þessi verksmiðja, ef reist yrði, fengi þetta verkefni og enn fremur jafnvel frekari fjölbreytni í nýtingu loðnunnar. Við vitum, að það er til ágætur markaður fyrir þurrkaða loðnu. Í Grindavík ættu einmitt að vera góð skilyrði vegna jarðhita til þess að þurrka loðnu í stórum stíl. Þetta hvort tveggja ætti að vera þess virði, að gerð væri tilraun með slíka framleiðslu.