30.01.1974
Efri deild: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil nú segja það fyrst, að síðari ræða hv. 1. þm. Vestf., Steingríms Hermannssonar, olli mér miklum vonbrigðum. Erindi hans þá upp í ræðustólinn var það eitt að reyna að bera af sér, að hann væri óánægður með stefnu ríkisstj. í orkumálum, og talaði um í því sambandi, að svo virðist sem maður þyrfti að vera varaþm., til þess að maður sæi það. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta. En það væri kannske rétt að spyrja hv. þm., hvers vegna hann er með tillöguflutning og alls konar ábendingar um orkumál, ef hann er eins ánægður með ástandið og hann vildi vera láta í sumum köflum ræðu sinnar.

Herra forseti. Ég var með ýmislegt, sem mig langaði til þess að segja við hæstv. orkumrh. (Forseti: Ég skal athuga fyrir hv. þm., hvort ráðh. er við.)

Á meðan verið er að leita að hæstv. orkumrh., ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að hafa eftir nokkur orð í grg. með þáltill. hv. 1. þm. Vestf. o.fl. á þskj. 49 um undirbúning að næstu stórvirkjun, en þar segir m.a: „Virkjunarrannsóknir utan Þjórsársvæðisins hafa verið takmarkaðar og dreifðar og segja má, að þær hafi verið reikular og án markmiðs.“ Þetta eru þau ummæli, sem hv. þm. hafði á fyrri hluta þessa þings um þessi mál (StH: Getur ekki hv. þm. lesið meir?) Hv. 1. þm. Vestf. biður mig að lesa áfram, og ég skal verða við því, með leyfi hæstv. forseta:

„Virkjunarrannsóknir utan Þjórsársvæðisins hafa verið takmarkaðar og dreifðar, og segja má, að þær hafi verið reikular og án markmiðs. Líklega hefur mestu fjármagni verið varið til rannsókna á flutningi Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Brú yfir í Fljótsdalshérað. Þessar hugmyndir hafa verið óljósar, ekki síst með tilliti til þess, að aldrei hefur þeirri spurningu verið svarað, hvernig ætti að nýta þau 1000 MW, sem þannig fengjust. Þó hefur verið litið á aðra virkjunarmöguleika. Af þeim virðast álitlegastir annars vegar virkjun Dettifoss og hins vegar virkjun Blöndu. Þó er einnig rætt um virkjanir í Skagafirði og stóra jarðhitavirkjun á Kröflusvæðinu. Að öllum líkindum eru allir þessir valkostir álitlegir, og e.t.v. skiptir ekki höfuðmáli, í hvaða röð þeir eru valdir. því virðist auðvelt að einbeita rannsóknum að einum ákveðnum stað, sem yrði valinn með tilliti til hæfilegrar stærðar.“

Það, sem ég hef hér lesið, er það, sem er afmarkað með greinaskilum í grg. með þáltill. hv. 1. þm. Vestf. Það, sem kemur fram, er þetta, að aðalrannsóknirnar virðast vera á flutningi Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Brú yfir í Fljótsdalshérað. Síðan segir þm.: „Þó hefur verið litið á aðra virkjunarmöguleika.“ Ekki er nú virðulegt orðalagið, ef um skipulegar rannsóknir hefur þarna verið að ræða. Og hv. þm. telur á þessari stundu, þ.e. á fyrri hluta þings, að þá hafi helst komið til greina, — virðist álitlegast annars vegar virkjun Dettifoss og hins vegar virkjun Blöndu“. Eftir þetta nefnir þm. virkjanir í Skagafirði og stóra jarðhitavirkjun á Kröflusvæðinu. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. ætlar að standa við öll orðin, sem hann sagði stundum á síðasta fundi, enda kom í ljós annað veifið, að það hefur aðeins bráð af þm. og hann talaði út úr pokanum, hann kom til dyranna eins og hann var klæddur, eins og þegar hv. 1. þm. Vestf. lýsti ástandinu í orkumálum Norðlendinga. Þá sagði hann orðrétt í ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Og áreiðanlegt er það, að orkumál Norðurlands eru þó alveg sérstakur kapítuli í þessu öllu saman. Það öngþveiti, sem þar var orðið, m.a og ekki síst fyrir aðgerðarleysi eða fyrir fálm þeirra manna, sem fóru með þessi mál þá hjá hæstv. fyrrv. ríkisstj. Þetta eru staðreyndir í málinu.“

Hvað hefur verið gert síðan? Mér er ókunnugt um, hvað hefur verið gert síðan gagnvart þeim vanda, sem nú blasir við okkur á næstu 2–3 árum. Ég veit, að hæstv. orkumrh. minnist þess, að hann sendi einu sinni frá sér grg. í nafni sins rn., þar sem m.a var sagt, að sú lína, sem nú er lögð milli Akureyrar og Sauðárkróks, mundi leysa vanda Norðl. e. til ársloka 1975, en þá mundi blasa við enn á ný orkuskömmtun á Norðurlandi.

Ég spurði hæstv. orkumrh. að því hvað eftir annað í minni síðustu ræðu, hvernig hann ætlaði að bregðast við vanda Norðlendinga núna, við þeim orkuvanda, sem nú blasir við. Ráðh. fór að tala almennt um það, að einhvern tíma í framtíðinni mundi skapast hér markaður fyrir, ég man nú ekki orðalagið, en geysilega mikill markaður. Hann minntist í því sambandi ekki á orkuviðskipti Íslendinga og Norðurlandabúa, eins og hann gerði á síðasta Norðurlandaráðsfundi, vék ekkert að því núna, en hann sá ástæðu til að gera lítið úr smáveitunum. Ég held, að við getum látið okkur nægja að tala um þær, hað sé rétt að kasta málinu ekkert á dreif og halda sér við þetta.

Núna fyrir hádegið var að hringja til mín bóndi úr Norður-Þingeyjarsýslu. Hann sagði mér, að hann væri búinn að sækja um að fá hálft kw. fá rafmagn fyrir súgþurrkun og til húsahitunar og væru fleiri bændur í Norður-Þingeyjarsýslu búnir að biðja um þetta. Þeir hafa ekkert svar fengið frá Rafmagnsveitum ríkisins. Þeir eru búnir að leggja 100 þús. kr. í það að leggja rafstreng heim að býlum sínum fyrir súgþurrkunina. Þeir eru búnir að leggja 60 þús. kr. í það að kaupa rafmagnsmótor til þess að drífa áfram heyblásarana, sem kosta önnur 60 þús. kr. Og þeir fá ekkert svar um það, hvort þeir eigi von á raforku. Ég spurði í ræðu minni s.l. mánudag, hvort þetta fólk ætti von á því að fá nokkurt rafmagn. Því var ekki svarað. Ég spurði líka, hvort þeir menn, sem búið er að svíkja um rafmagn í Þistilfirðinum, sem eru búnir að biða mánuð eftir mánuð eftir rafmagni, sem var lofað rafmagni í sept., sem var lofað rafmagni fyrir fyrstu snjóa, sem var lofað rafmagni fyrir áramótin og sem var lofað rafmagni núna í febr., hvort þeir ættu von á því að fá rafmagn fyrir næsta haust. Afsökunin er alltaf sú sama: Það vantar spenni. — Hvernig er með þessa spenna hjá orkumrh? Er ekki hægt að panta spenni? Í sumum tilfellum er þarna um ný hús að ræða. Þessu fólki var lofað, að það fengi rafmagnshitun. Það er ekki einu sinni miðstöð í þessum húsum. Ætlar hæstv. orkumrh. ekkert að koma inn á þetta? Ég spurði hæstv. orkumrh. líka að því, hvort Rafmagnsveitur ríkisins mundu verða við tilmælum stjórnar Laxárvirkjunar um að neita alfarið, öllum þeim, sem sótt hafa á Norðurlandi um húsahitun með rafmagni, neita þeim um það. Og á það bann að standa til 1977 eða 1978? Hvað á það að standa lengi? Menn þurfa að fá að vita þetta. Þessu var ekki svarað. Það er verið að tala um þá miklu orkusölumöguleika, sem við hefðum einhvern tíma í fjarlægri framtíð.

Ég tók eftir því, að einn af stuðningsmönnum hæstv. orkumrh., 3. þm. Norðl. v., er búinn að flytja með öðrum þm. tvær þáltill., síðan umr. voru s.l. mánudag, báðar um orkuveitu í Norðurl. v. Ég veit ekki, hvort ég á að angra hæstv. ráðh. með því að lesa þá lýsingu, sem þar er á ástandinu, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir fyrirsjáanlegan raforkuskort á Norðurl. v. hefur orkumrh. fram til þessa ekki veitt heimild fyrir Svartárvirkjun né heldur virkjun í Fljótaá, og engar horfur eru á, að hann veiti slíka heimild nema samkv. beinum fyrirmælum Alþ.“ Enn fremur segir með leyfi forseta: „Það er alkunna, að raforkumál Norðurlands eru í mesta ólestri. Fljótvirkasta og ódýrasta leiðin til að ráða bót á orkuskorti á Norðurlandi v. á næstu árum er að virkja Fljótaá strax og tengja Skeiðsfossvirkjun við Skagafjarðarveitu, byr,ja á Svartárvirkjun, en vinna samhliða að undirbúningi stærri virkjunar eða virkjana.“ Þetta er mat eins af stjþm.

Það hefur legið í orkumrn., — ég held, að þeir séu uppgefnir á því að leita eftir svari, það hefur kannske komið núna seinustu víkurnar, — beiðni um það að stækka gufuveituna í Námafjalli. Hæstv. orkumrh. svaraði því ekki, þegar ég spurði hann um það síðast, og ég vil ítreka þá spurningu.

Ég er sammála hæstv. orkumrh. um það, að sú tíð er liðin, að Orkustofnun geti bara anað áfram án þess að tala við kóng eða prest, án þess að taka tillit til sjónarmiða heimamanna. Við verðum líka að hlusta á það, sem þeir segja. Við verðum að hafa náttúruverndarsjónarmið í huga, við megum ekki gleyma menguninni. Ég spurði þess vegna: Hafði hæstv. orkumrh., áður en hann lagði hér fram frv. um virkjun í Námafjalli, gengið úr skugga um það, hver væri vilji og hver væri skoðun hreppsnefndar Skútustaðahrepps um þetta mál? Ég hef ekki fengið svar við því. Ég spurði hæstv. orkumrh. einnig: Er það í undirbúningi í stjórn Laxárvirkjunar, er það í undirbúningi hjá Rafmagnsveitum ríkisins eða Orkustofnun að beita almennum hömlum gegn frekari raforkunotkun á Norðurlandi? Ég á t.d. með því við stjórn peningamála. Er hugsanlegt t.d., að lánastofnanir og opinberir sjóðir muni leggjast gegn því, að orkufrekur iðnaður á okkar mælikvarða verði staðsettur á Norðurlandi vegna þess ástands, sem nú er í orkumálum þar? Við þessu fékk ég ekki svar. Og hæstv. ráðh. kom ekki inn á það, hvaða ráðstafanir hann hefði hugsað sér að gera á s.l. ári til þess að brúa bilið 1974, 1975 og 1976.

Ég gat ekki annað en brosað, þegar því var haldið fram af þessum báðum fulltrúum ríkisstj., hv. 1 þm. Vestf, og hæstv. orkumrh., og annar þeirra sagði, að olíuskorturinn í heiminum hefði ekki orðið að raunveruleika fyrr en síðustu dagana fyrir áramótin, og hinn sagði, að þetta hefði orðið jafnóvænt og eldgosið í Vestmannaeyjum. Ástandið var þó þannig t.d. í Englandi, s.l. sumar, að breska ríkisstj. var búin að láta dreifa skömmtunarseðlum á bensini í öll pósthús í Englandi og gat tekið upp skömmtun samdægurs á bensini, ef hún taldi sig hafa þörf á því. Það var í júlímánuði, sem það var gert opinbert. Og allt s.l. ár voru opinskáar umr. um það á alþjóðavettvangi, hvaða stefnu þessi mál mundu taka. Menn voru búnir að gera sér grein fyrir því hvarvetna í heiminum, nema þá kannske í stjórnarherbúðunum hér, að það gat dunið yfir þá og þegar stórhækkað verð á olíu og takmarkanir á sölu olíu. Þetta lá alveg ljóst fyrir, ég tala nú ekki um, þegar farið var að líða á sumarið og var farið að nálgast það, að setja þurfti fram fjárlagafrv., þá var þetta orðið deginum ljósara og algert ábyrgðarleysi af ríkisstj. að ætla ekkert fjármagn til þess að flýta fyrir virkjunarrannsóknum og gera áætlanir í þá veru. Það getur vel verið, að með mikilli mælsku sinni, orðkynngi og snjöllum röksemdaflutningi takist hæstv. orkumrh, að sýna fram á, að ég og ýmsir aðrir hafi verið jafnilla á vegi staddir með að skilja þetta eins og hann. En það breytir ekki því, að það var hæstvirts orkumrh. að marka stefnuna í þessum málum og það var embættisskylda hans sem orkumrh. að sjá þarna nokkuð fram í tímann, hans pólitíska og embættislega skylda, og þarna brást hann. Þetta kom þessum hæstv. ráðh. algerlega í opna skjöldu, og af því súpum við seyðið núna, m.a Norðlendingar, þannig að menn eru orðnir hræddir við að setja niður atvinnurekstur og annað á Norðurlandi af ótta við orkuskort.

Af þessu tilefni spyr ég líka, vegna þess að það hefur komið fram í margvíslegum orðsendingum frá iðnrn. eftir stjórnarskiptin, að þar hefur verið tekið undir þær skoðanir, sem m.a voru grundvöllurinn og oft hafa komið fram, m.a hjá mönnum eins og Jónasi G. Rafnar og hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnúsi Jónssyni, á liðnum árum, að það er eitt grundvallaratriðið fyrir iðnaðarlega uppbyggingu á Akureyri og annars staðar á Norðurlandi, að rafmagn þar verði ekki dýrara til atvinnurekstrar heldur en í Reykjavík. Þetta hefur verið þungamiðjan í orkustefnu sjálfstæðismanna s.l. ár og allt frá því að Laxárvirkjun var reist. Ég spyr af þessu tilefni: Ætlar orkumrh. að beita sér fyrir því, eins og hann hefur gefið fyrirheit um margsinnis í opinberum tilkynningum frá sínu rn., að raforka frá Laxárvirkjun verði ekki dýrari en hér sunnanlands? Ætlar hann að gera viðhlítandi ráðstafanir til að tryggja það? Megum við treysta því, að það sé rétt, sem hann segir um það? Verður eitthvað að marka það? Það er mikið grundvallaratriði fyrir okkur að vita um þetta, algert grundvallaratriði. Við erum mjög óttaslegnir og vitum raunar ekki, hvernig á að halda á málunum, eins og ég sagði um daginn. Þriðja hver króna fór á s.l. ári í bein olíukaup hjá Laxárvirkjun, og ástandið verður sannarlega ekki betra núna, bæði vegna mjög aukinnar orkunotkunar, sem að vísu er reynt að halda niðri með margs konar hömlum, og vegna stórhækkaðs verðs á olíu.

Ég hef svolítið gaman af því, þegar hæstv. ráðh. er að segja, að við sjálfstæðismenn séum á móti stórvirkjunum, við séum á móti því að tengja saman orkuveitusvæði, og þegar þessi hæstv. ráðh. er að hrósa sér af því hér í ræðustól, að hann hafi viljað byggja Sigölduvirkjun sérstaklega til þess að láta húsahitun með rafmagni taka við. Ég spyr hæstv. orkumrh.: Er það misminni mitt, að Austri hafi skrifað grein, þar sem hann gat þess m.a. að eina virkjunin á Íslandi, sem væri fullrannsökuð og mætti ganga í af fullum krafti, væri Laxárvirkjun og hún gæti dugað bæði Norðlendingum og Sunnlendingum? Er þetta rangminni hjá mér? Það væri svolitið fróðlegt að vita það. Ég man ekki betur en það hafi verið ráðist að fyrrv. orkumrh. fyrir það, að Búrfellsvirkjun væri ekki nógu vel athuguð. Það má fletta upp í ræðum margra. Það hafa ekki allir menn alltaf verið samkvæmir sjálfum sér í öllu því, sem þeir hafa sagt. Og í sambandi við það að tengja saman orkuveitusvæði vil ég segja það, að ég ætlast til þess af þessum hæstv. ráðh., að hann lesi þau þskj., sem koma fram um orkumál. og ég bendi þá m.a til þess, að ég hef ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e., Lárusi Jónssyni, flutt þáltill. um það hér á Alþ., að þegar í stað skuli virkjað í Kröflu og jafnframt skuli haldið áfram virkjunarrannsóknum í Jökulsá á Fjöllum með stórvirkjun þar í huga og samtengingu við önnur orkuveitusvæði. En við erum hins vegar þeirrar skoðunar, það hefur margoft komið fram, bæði hjá okkur og hjá mörgum forustumönnum norðanlands, þ. á m. núv. formanni Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi, bæjarstjóranum á Húsavík, á orkufundinum nú í nóv., það hefur komið fram hjá stjórnarformanni Laxárvirkjunar og ótalmörgum forustumönnum í sveitarstjórnarmálum norðanlands, að við teljum, að eins og staðið hefur verið að hugmyndum um línulögn norður, sé ekki fullnægt þeim kröfum, sem við gerum til öryggis fyrir rafmagnstruflunum á Norðurlandi, allra síst þegar húsahitun er höfð í huga.

Það gladdi mig að heyra það hjá hæstv. orkumrh., þegar hann lýsti því yfir, að einhvern tíma fyrir þinglok mundi maður eiga von á ráðstöfunum í sambandi við það að lækka olíukostnaðinn til húsahitunar. Eins og fram hefur komið, hygg ég, að vilji muni vera til þess hjá öllum þingflokkum að leysa þetta mál. Og ég legg mikla áherslu á, að það mál er mjög knýjandi, og ég legg áherslu á, að þarna er ekki um neina skyndihjálp að ræða, sem á að standa stuttan tíma. Þarna er um það að ræða, að Íslendingar verða að leggja á sig mikla skattlagningu á næstu árum, vegna þess að hér hefur ekki verið staðið nógu vel á verðinum um það að virkja innlenda orkugjafa. Það er sem sagt enginn skyndiskattur, sem þarna kemur.

Nú er það auðvitað hugleiðing í mikla ræðu og mikla heimspeki, hvaða þjóð í heiminum ætti fremur sjálfsvirðingar sinnar vegna að leggja áherslu á það að nýta innlenda orkugjafa heldur en við Íslendingar. Það er að sjálfsögðu skylda okkar við mannkynið, vegna þess að við höfum mikið af orku og við getum framleitt hana án þess að það hafi mengun í för með sér. Hvort tveggja, virkjun gufuafls og virkjun vatnsafls, er algerlega laust við mengun. Við höfum þarna miklar skyldur, og við eigum að ganga á undan. Ég tek undir með það með hæstv. orkumrh., að við megum gjarnan setja okkur mark eins og það að reyna að bæta úr orkuþörf annarra þjóða í heiminum einhvern tíma í fjarlægri framtíð. Við eigum að setja okkur slíkt mark. Og ég ætla að vona, að sá svipur verði á næsta fjárlagafrv., sem lagt verður fram á Alþ., að stjórnarmeirihl. geri sér grein fyrir þessu, að við höfum vel efni á því, Íslendingar, að leggja töluvert fjármagn fram til þess að afla orku. Og ég mótmæli því algerlega þegar ábyrgir menn eru að tala eins og smávirkjanirnar skipti engu máli. Margt smátt gerir eitt stórt, og ætli það væri ekki svolítill munur að geta stöðvað dísilrafstöðina á Akureyri og notað í staðinn t.d. Skeiðsfossvirkjun, þótt hún sé lítil. Hún er kannske of nálægt höfuðstöðvum formanns Alþb. til þess, að það megi virkja þar að mati hæstv. ráðh.

Ég hef nú talað lengur en ég ætlaði, en það er sennilega vegna þess, að ég beið lengur eftir ráðh. en ég ætlaði. Það verða mín síðustu orð, að ég vænti þess, að hæstv. ráðh. treysti sér til að svara þeim spurningum, sem brenna á vörum okkar Norðlendinga um þetta: Eru í undirbúningi einhverjar hömlur við frekari raforkunotkun? Á að stöðva raforku til húshitunar á Norðurlandi? Er stefnan sú að halda annarri notkun í lágmarki? Og að síðustu ætla ég að ítreka þá spurningu, sem ég spurði að s.l. mánudag og var ekki svarað. Okkur var lofað því, að það yrði borað með gufubor við Kröflu nú í sumar. Ég er feginn því, ef ég hef misskilið það, en mér skildist, að enn væri ekki séð, hvaða bor ætti að nota næsta ár, bor Hitaveitu Reykjavíkur væri upptekinn allt næsta ár, og það væri skemmtilegt, að það kæmi fram.