30.01.1974
Efri deild: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Hv. þm. Geir Hallgrímsson talaði um, að það væri ekki vert að eyða tíma Alþ. í deilumál í sambandi við þessi mikilvægu mál. Ég átti ekki upptök að þessum deilum. Ég flutti hér framsöguræðu fyrir frv. til l. um virkjun við Kröflu eða Námafjall, sem ég held að hafi verið alveg málefnaleg og áreitnislaus, og ég stuðlaði ekkert að því, að hér yrði hafinn neinn eldhúsdagur um þetta mál. Það hefur hins vegar þróast þannig. Og ég ætla ekki að fara að halda neinum deilumálum áfram sem heitir.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson benti á að það væru ekki sambærilegar tölur að um orkusölu til Álverksmiðjunnar og almenna orkusölu í landinu, og það er alveg rétt. Sá markaður, sem þarna er selt til, er allt annars háttar, og það er rétt, að það er reikningslega hagkvæmt að selja þá raforku á lægra verði en raforku, sem nýtist miklum mun verr. En verðmunurinn á þessu er skelfilega mikill og í engum skynsamlegum hlutföllum. Það var viðurkennt, að þetta verðlag væri ákaflega lágt, þegar samningurinn var gerður, og var erfitt að finna hliðstæður í nokkrum samningum, sem gerðir voru þá. Því var lofað, þegar fyrsti samningurinn var gerður, að við næsta orkusölusamning til álbræðslunnar yrði samið um hærra raforkuverð. Á þetta var raunar lögð áhersla í skýrslum frá Alþjóðabankanum. En þá gerðist sá undarlegi hlutur, þegar samið er um viðbótarsölu fyrir álbræðsluna, að þá er samið um sama lága verðið. En það var ekki aðeins, að það væri samið um þetta lága verð. Það var ekki hægt að fá þar inn ákvæði um, rað þetta raforkuverð yrði endurskoðað á samningstímanum. Þetta lága raforkuverð átti að haldast óbreytt í 25 ár, ef undan er skilin mjög óveruleg breyting, sem átti að miðast við tilkostnað við rekstur Búrfellsstöðvar, sem er nú ekki svo mjög mikilvægt atriði, eftir 15 ár, ef ég man rétt. En raunveruleg endurskoðun á ekki að koma fyrr en eftir 25 ár, þ.e. á árinu 1997, og ég þekki ekki neinn aðila, sem hefur gert orkusölusamning af þessu tagi. Það er algert glapræði að gera slíkan samning. Við vitum núna, hvað þessi samningur er orðinn fjárhagslega óhagstæður. En ég er hræddur um, að við eigum eftir að sannreyna það enn betur, og ég vil nú fara fram á það við hv. þm. Geir Hallgrímsson og aðra þá, sem báru ábyrgð á samningunum við álbræðsluna, að þeir reyni ekki í ákafa sínum að halda því fram, að þetta raforkuverð sé ákaflega hagstætt, vegna þess að ég ræddi þessi mál við forustumenn Alusuisse í haust og benti þeim á, að með tilliti til þeirra stórfelldu breytinga, sem orðið hefðu, litum við á það sem sanngirnismál, að þeir féllust á, að hægt væri að taka þennan orkusölusamning til endurskoðunar, og þeir hafa á það fallist, að það væri hægt að taka upp viðræður af vissu tagi. Ég held, að staða okkar í þeim viðræðum yrði ögn betri, ef ekki væru Íslendingar hér að halda því fram þvert ofan í allar staðreyndir og þvert ofan í heilbrigða skynsemi, að þarna sé um ákaflega hagstætt verð að ræða.

Hv. þm. hélt því enn fram, hann er búinn að halda því fram margsinnis, á hverju einasta þingi, að ég hafi verið andvigur Búrfellsvirkjuninni. Ég átti sæti hér á þingi, þegar lögin um Búrfellsvirkjun voru samþykkt. Þau voru samþykkt einróma af þm. allra flokka, af mér eins og öðrum. Það yfirgengur minn skilning að geta haldið þessu fram endalaust. Ég hélt, að hv. þm. Geir Hallgrímsson væri grandvarari en svo að hann þyrfti á slíkum málflutningi að halda. Hitt er alveg rétt, að ég gagnrýndi kostnaðaráætlanir, sem gerðar voru í þessu sambandi. Ég hélt því fram og það var ekkert, sem ég fann upp sjálfur, heldur studdist ég þar við álitsgerðir þeirra manna, sem mesta reynslu og þekkingu hafa, að rennslisvirkjun á þessum stað hlyti að leiða til þess, að þarna yrði um að ræða alvarlegar ístruflanir, ef það kæmu harðir frostakaflar á vetrum. Ég færði fyrir því margvisleg rök sem ég sótti til þessara sérfróðu manna. En þetta var allt saman haft að engu, vegna þess að það mátti ekki reikna þennan tilkostnað við að koma í veg fyrir slíkar ístruflanir inn í rekstrarkostnað Búrfellsvirkjunar, svo að hægt væri að rökstyðja þetta afar lága raforkuverð, sem samið var um til álbræðslu. Við vorum sem betur fer svo heppnir, jafnvel eftir að stöðin kom upp, að það reyndi tiltölulega litið á þetta. Það komu ekki alvarlegir frostakaflar þessa vetur. En slíkir frostakaflar hafa komið nú í vetur. Og þá var sem betur fer komin í gagnið Þórisvatnsmiðlun, sem bjargaði því, sem bjargað varð við þessar aðstæður. Ef hún hefði ekki verið komin, hefði þarna skapast algert neyðarástand. En þrátt fyrir Þórisvatnsmiðlunina þurfti að keyra allar tiltækar varaaflsstöðvar hér í Reykjavík og heildarkostnaðurinn af því hafði farið yfir 10 millj. kr., jafnframt því sem varð að skammta mjög verulega til álbræðslunnar og til Áburðarverksmiðjunnar í vetur. (Gripið fram í.) Ég hef tölur um þetta. Það er ekki aðeins kostnaður við raforkuöflunina, heldur einnig við Hitaveitu Reykjavíkur, og það hvort tveggja var yfir 10 millj. (Gripið fram í.) Það hlýtur tíminn að leiða í ljós. Og öll gagnrýni á Búrfellsvirkjun sem slíka var í tengslum við þessi atriði, en Búrfellsvirkjunin sem slík var samþ. einróma hér á þingi.

Hv. þm. sagði, að ég hefði tekið mér frest, þar til ég féllist á till. Landsvirkjunar um að ákveða virkjun við Sigöldu. Þetta er alveg rétt. Ég kem í ráðuneytið sem nýr maður, og ég taldi, að það væri skylda mín að bera saman þá valkosti, sem þar kynni að vera um að ræða. M.a. var litið á gamla áætlun um gufuaflsvirkjun í Hveragerði, hefur komið til mála að skjóta inn einhverri virkjun af því tagi. Ég taldi rétt, að ég skoðaði þetta gaumgæfilega, það væri mitt hlutverk, til þess væri ég þarna. En það var eins með Sigölduvirkjun og Búrfellsvirkjun, að það var samþykkt einróma hér á þingi heimild til að ráðast í hana.

Ég rifjaði það hér upp um daginn, að ég hefði ásamt Lúðvík Jósepssyni flutt till. í sambandi við breyt. á l. um Landsvirkjunina, að Landsvirkjunin hefði það sem verkefni að stuðla að aukinni húshitun í landinu. Þetta felur ekki í sér, að ég þykist fyrstur manna hafa látið mér koma þetta til hugar. Því fer víðsfjarri. Þetta hafa margir menn séð lengi. En hitt er staðreynd, að till. flutti ég og þessi till. var samþykkt, og á grundvelli þessarar samþykktar féllst Landsvirkjun á að miða Sigölduvirkjun við innlendan markað, við húshitunarmarkað og við samtengingu. Það voru áform fyrrv. ríkisstj., frá þeim var greint opinberlega, að það væri ekki hægt að ráðast í Sigölduvirkjun nema tengja hana við orkufrekan iðnað, að öðrum kosti væri þetta ekki framkvæmanlegt. Þessu var lýst yfir meira að segja skömmu fyrir kosningar 1971. En það var haldið þannig á þessu máli, að það var sótt um lán hjá Alþjóðabankanum til Sigölduvirkjunar og einvörðungu vísað á innlendan markað í því sambandi, þ.e.a.s. að flýta húshitunarframkvæmdum eins og hægt væri og að reyna að tryggja, að þessi stöð hefði aðgang eð sem stærstum innlendum markaði. Þessi áform voru ekki fyrir fram á neinn hátt í sambandi við neinn orkufrekan iðnað.

Í sambandi við Búrfellsvirkjun muna menn ákaflega vel, að samningarnir við Alusuisse voru gerðir áður en Búrfellsvirkjun komst upp, og þeir voru forsenda þess, að Alþjóðabankinn vildi veita lán til Búrfellsvirkjunar. Við komumst þarna í ákaflega hvimleiða sjálfheldu. Erlendur aðili fékk þá samningsstöðu við okkur, að ef við féllumst ekki á eða næðum samkomulagi við hann um raforkuverð, þá lenti allt í vandræðum með sjálfa virkjunina. Í slíkri stöðu megum við að sjálfsögðu ekki vera.

Mér þótti mjög fróðlegt, þegar hingað komu sérfróðir menn frá Alþjóðabankanum til þess að fara ofan í þessi áform, að þá sögðu þeir mér frá því, að það, sem þeim þætti raunsæjast af okkar hálfu, væri einmitt að nýta þennan húshitunarmarkað, sem tiltækur væri í landinu, og tengja saman orkuveitusvæðin. Þeir töldu þetta vera eitt mesta gildi þessara áætlana um Sigölduvirkjun.

Hvort Sigölduvirkjun hefur orku aflögu til þess að tengja hana við orkufrekan iðnað, það er atriði, sem við þurfum að skoða mjög gaumgæfilega. Áður en olían hækkaði, gat maður varla séð fyrir nema nokkuð hægfara þróun húshitunarmarkaðarins, vegna þess að þeir, sem væru búnir að koma sér upp olíukyndingu í húsum sínum, mundu varla fara að breyta því, nema þá að gerðar væru þær breyt. sem nú hafa gerst, þannig að það var aðallega reiknað með nýjum húsum, að ný hús kæmu inn í þetta kerfi. En nú hafa þessar aðstæður sem sagt gerbreyst og þessi markaður, sem er fyrir í landinu sjálfu, er það stór, að hann gæti tekið við allri orku frá Sigölduvirkjun. Þetta eru að sjálfsögðu aðstæður, sem við verðum að vega og meta, hvernig við eigum að ráðstafa þessari orku og hvernig við getum ráðstafað henni, því að það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það þarf að auka dreifikerfið til mikilla muna, til þess að við getum komið þessari orku á framfæri.

Hv. þm. vildi gera lítið úr þeirri ákvörðun Alþ. að veita fé í fjárlögum, eftir að ljós voru þessi vandkvæði, talaði um, að það hefði aðeins verið tekið inn á heimildarlið. Það er á 1. síðu fjárlaga, ef hv. þm, vill líta á þau, tekin upp sérstök fjáröflun til framkvæmda á sviði orkumála, 476.3 millj, kr., og þetta var allt saman sundurliðað, og ef hv. þm. hefur fylgst með því, hvernig frá fjárlögunum var gengið, þekkir hann þessa sundurliðun í einstökum atriðum. Þarna var um að ræða mjög stórfelldar hækkanir frá því, er frv. var lagt fram í upphafi.