30.01.1974
Efri deild: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst að gefnu tilefni orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar, segja það, að við sjálfstæðismenn höfum tekið skýrt fram, að til lausnar þeim vanda, sem fólki er búinn vegna hækkandi olíuverðs til húsakyndingar, viljum við alls ekki leggja skatt á hitaveitur eða hitaveitunotendur, vegna þess að við teljum, að slíkur skattur mundi tefja fyrir hitaveituframkvæmdum og útbreiðslu hitaveitna.

Hæstv. ráðh. sagði, að orkusölusamningurinn við ÍSAL væri algert glapræði. Þetta eru stór orð. Það, sem undrar mig mest, ef þessi orð hans hafa við rök að styðjast, er, að hann skyldi skipa sama forstöðumann samningaviðræðna inn í orkusölu til járnblendiverksmiðju og var formaður samningaviðræðna um orkusölu til ÍSALS. Ef orkusölusamningurinn við ÍSAL var algert glapræði, þá er undarlegt að treysta sama forstöðumanninum fyrir forsjá mála varðandi orkusölusamninginn við járnblendiverksmiðjuna. Ég held, að þetta dæmi staðfesti það, að hæstv. ráðh. trúi ekki sínum eigin orðum. (Gripið fram í.) Það veldur hver á heldur, og hlutverk samningamanna, hvað þá formanns samninganefndar, er æðimikilvægt í slíkum samningum sem hér er um að ræða og getur ráðið úrslitum.

Þá vildi ég minna hæstv. ráðh. á það, að orkuverðið í samningunum við ÍSAL var einn liður í margþættum samningi. M.a. var samið um ákveðið fyrirkomulag skattgreiðslna, sem tryggir skattgreiðslu þessa fyrirtækis, hvort sem það græðir eða tapar. En ef það græðir, sem allar líkur eru til, sem betur fer, að verði fremur venjan heldur en hitt, munu þessir skattar nema um helming ágóðans, og af því má draga þá ályktun, að við munum alla vega fá í okkar hlut, þegar til lengdar lætur, helming af ágóðanum í ríkissjóð. Þar af leiðandi tökum við ekki nema helming af þeirri orkuverðshækkun, sem á sér stað á því tímabili, sem verksmiðjan sýnir hagnað. Það er engum vafa bundið, að orkuverðið til ÍSALS, miðað við daginn í dag, er lágt, þótt það hafi verið hagstætt, þegar á allt var litið, miðað við aðstæður, þegar samningurinn var gerður. Ég er því alveg sammála ráðh, um, að það er full ástæða til þess að fara fram á endurskoðun þessa orkuverðs við ÍSAL. Benda má á, að í áætlunum um Sigölduvirkjun er gert ráð fyrir sölu á 20 MW til Álverksmiðjunnar í Straumsvík. Þess vegna er alls ekki rétt hjá ráðh., að í áætlunum um Sigöldu sé ekki gert ráð fyrir neinni sölu til orkufreks iðnaðar. Það er gert ráð fyrir því, í öllum rekstraráætlunum, sem Alþjóðabankanum voru sendar að 20 MW af afli Sigöldu verði ráðstafað til Álverksmiðjunnar. Það er eftir að semja um verðið, og er mjög eðlilegt og sjálfsagt, að þá verði tækifærið notað og samið um nýtt verð á þeirri orku, sem nú þegar fer til fyrirtækisins. Þarna hafa stjórnvöld tæki í höndunum til þess að fá hærra orkuverð, því að þessi viðbót í álframleiðslu er tiltölulega kostnaðarminni fyrir ÍSAL og því hagræði fyrir verksmiðjuna að fá þetta viðbótarrafmagn til ráðstöfunar. Þarna hafa stjórnvöld í hendi sér tæki til þess að fylgja markaðnum að því er orkuverð snertir, og auðvitað var ráð fyrir því gert upprunalega, að slík tæki væru í höndum stjórnvalda, ef einhver breyting yrði til hækkunar orkuverðs, þannig að ég held, að hæstv. iðnrh. sé engin vorkunn að fá fram endurskoðun á orkuverði til ÍSALS, miðað við þessa staðreynd málsins.

Þá er hæstv. ráðh. að halda því fram, að hann hafi ekki verið andvígur Búrfellsvirkjun. Það er alveg rétt, að hann greiddi atkv. með Búrfellsvirkjun. En forsenda Búrfellsvirkjunar, fjármögnunarforsenda hennar, var orkusölusamningurinn til álversins, enda gat ráðh. um það síðar í ræðu sinni. Þótt þarna hafi verið um tvö aðskilin frv. að ræða, voru þau samtengd að því leyti, að það hefði ekki verið unnt að afla fjármagns til Búrfellsvirkjunar, ef ekki hefði verið tryggð orkusala, því að þessi samningur um orkusölu var í raun og veru það veð, sem Alþjóðabankinn og aðrar lánastofnanir, sem veittu lán til Búrfellsvirkjunar, höfðu til tryggingar því, að lán þeirra yrði endurgreitt.

Þegar hæstv. ráðh. hrósar sér af því, að hann hafi tekið í taumana og ráðið því, að Sigölduvirkjun væri eingöngu miðuð við innlendan markað, er það ekki rétt, eins og ég gat um áðan, að því er snertir 20 MW væntanlega sölu til ÍSALS. En að svo miklu leyti sem það er rétt, þá hefur það haft mjög óheillavænleg áhrif, tafið framkvæmdir við Sigöldu um a.m.k. eitt ár og orðið til þess, að Sigölduvirkjun verður langtum dýrari en hún hefði þurft að verða, og getur leitt til þess, að orkuskortur verði hér tilfinnanlegur, áður en Sigölduvirkjun er lokið. Það, sem ég á við með þessum orðum, er, að Alþjóðabankinn taldi þessa virkjun ekki lánshæfa fyrr en ári seinna en ella, ef hún átti að byggjast á innlendum markaði í svo stórum mæli sem hæstv. ráðherra vildi. Hefði verið til staðar orkusölusamningur til stóriðnaðar eða almennt til iðnaðar, sambærilegur við þann orkusölusamning, sem nú er verið að semja um til járnblendiverksmiðjunnar, án þess að ég geti á þessu stigi málsins dæmt um, hvort þar er um æskilegan samning að ræða eða ekki, þá hefði Sigölduvirkjun getað verið ári fyrr á ferðinni og orðið þeim mun ódýrari, sé litið til þeirra verðhækkana, sem við höfum búið við. Auk a.m.k. ársfrestunar á Sigölduvirkjun, hefur Alþjóðabankinn einnig í stað þess að veita 15 millj. dollara lán lækkað það niður í 10 millj. dollara lán og bundið lánveitinguna því skilyrði, a.m.k. enn sem komið er, að miðað er við tvær vélasamstæður í Sigölduvirkjun í staðinn fyrir fjórar. Það átti að bíða með þriðju vélasamstæðuna, 50 MW af 150 MW, þar til síðar, að markaðurinn stækkaði. Viðhorf Alþjóðabankans breytist vonandi, og umsókn hefur verið send til hans um að breyta þessari afstöðu, þegar litið er á það, að vonir standa til, að markaðurinn stækki örar en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þá hlýt ég að minna hæstv. ráðherra á, að það var ekki ætlunin, að Búrfellsvirkjun stæði ein sér um langt árabil. Það var ætlun fyrrv. ríkisstj. að það yrði mjög fljótlega ráðist í aðrar virkjanir, í Þjórsá og Tungnaá. Með tilliti til þess var eðlilegt, að miðlunarmannvirki yrðu byggð þegar í stað og í beinu framhaldi af Búrfellsvirkjun, einmitt með tilliti til virkjunarframkvæmda við Sigöldu og Hrauneyjarfoss. Ég vil minna hæstv. iðnrh. á það, að ákvörðunarástæða ráðunauta Landsvirkjunar, þegar þeir ráðleggja stjórn Landsvirkjunar að ráðast frekar í Sigölduvirkjun en Hrauneyjarfossvirkjun, var sú, að það yrði beint framhald af virkjunarframkvæmdum í Tungnaá og í beinu framhaldi af Sigölduvirkjun yrði ráðist í Hrauneyjarfossvirkjun. Ef búist hefði verið við, að eitthvert hlé yrði á milli virkjana við Sigöldu og Hrauneyjarfoss, var hagkvæmara að virkja Hrauneyjarfoss fyrr. Það var þessi stórhugur í virkjunarmálum, sem einkenndi áform fyrrv. ríkisstj., en hefur að nokkru leyti strandað eða a.m.k. tafist, vegna þess að hæstv. iðnrh. hefur ekki fylgt þeim áformum fram sem skyldi.