30.01.1974
Neðri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru sannarlega engin gleði- eða hamingjuspor, sem stigin eru af þm., þegar þeir ganga hér í ræðustól á hv. Alþingi og lýsa sig fylgjandi þessu frv. Það hlýtur a.m.k. að vera ákaflega erfitt fyrir þá, sem um áramótin 1968 og 1969 sögðu það ekki aðeins glæp gagnvart launþegahreyfingunni í heild, heldur sérstaklega gagnvart íslenskri sjómannastétt að breyta með lögum samningsbundnum hlutaskiptum sjómanna, en það er einmitt það, sem verið er að gera með þessu frv. nú. Það er verið að breyta samningsbundnum hlutaskiptum sjómanna. Við höfum hins vegar haft slíkt dæmi fyrir okkur áður. Það var haustið 1968 og í ársbyrjun 1969 eða með lögum, sem voru samþykkt í kjölfar gengislækkunarinnar, þegar almennir verkamenn höfðu tekið á sig kjaraskerðingu, en séð var fram á, að nokkur hluti íslenskrar sjómannastéttar hefði fengið mikinn ágóða í sinn hlut, ef ekki hefðu verið gerðar breytingar á, og hætta var á, að samningar, sem gerðir hefðu verið við verkalýðshreyfinguna, mundu ekki standast. Þeir menn, sem nú og það í mínum samtökum hafa mælt með þessum aðgerðum nú, voru þá manna frekastir og töldu þetta hinn versta glæp gagnvart sjómannastéttinni. En nú eru þeir samþykkir þessu. Hvað veldur? Jú, það er önnur ríkisstj. við völd hér á landi í dag, það er þeirra ríkisstj., það er ríkisstj. hinna vinnandi stétta. Þá er sjálfsagt að setja slík þrælalög að breyta hlutaskiptum sjómanna. Ég hins vegar reyni að vera sjálfum mér samkvæmur, og hef sagt, að ef þjóðarhagur krefst, eigi jafnvel samningar við einstaka starfshópa eða stéttir ekki að vera því til fyrirstöðu, að tekinn sé hinn betri kostur, að bjarga stærra vandamáli heldur en hinu minna t.d. Þess vegna lýsti ég því yfir í stjórn Sjómannasambands Íslands, þar sem ég var spurður um afstöðu okkar til þessa máls, að ég mundi styðja málið hér á þingi, og ég mun gera það. En ég vil benda á loddaraleik þeirra manna, sem hafa á tungunni ágæti sitt og skyldleika, að ég tala nú ekki um sérstaka vináttu við íslenska sjómenn og verkamenn. Ég segi enn einu sinni, eins og ég hef haft á yfirstandandi þingi ástæðu til þess að segja við þá hina sömu menn: svei, svei. Það verður að viðurkenna, þegar svo stendur á eins og nú, að það verður að gera sérstakar ráðstafanir. Það var séð fram á, að miðað við núverandi afkomu ríkissjóðs og þá gífurlegu verðbólgu, sem þjóðin býr við í dag, er útilokað fyrir opinbera aðila eða ríkissjóð að koma á móti til þess að bæta fiskverð til þeirra fiskimanna, sem standa undir hráefnisöfluninni allt í kringum land til okkar fiskiðjuvera, sem er nauðsynlegt vegna þeirrar atvinnu, sem þau útvega þorra verkalýðs hér á landi. Hins vegar var séð fram á, eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á, að það var um stórkostlega aukningu og hagnaðarmöguleika að ræða hjá þeim, sem loðnuveiðar stunda. Í samræmi við það, sem reyndar allar ríkisstj. hér á Íslandi hafa gert á undanförnum áratugum, að færa á milli ekki aðeins stétta og starfshópa, heldur sérstaklega á milli þeirra, sem hafa mismunandi tekjur í einni eða annarri mynd, að þá hefur þetta verið flutt á milli, þá tel ég, að þetta hafi verið það skynsamlegasta, sem hafi verið hægt að gera á yfirstandandi vertið. Það er þess vegna, sem ég mun fylgja því.

Hins vegar hafa komið hér fram ýmsar spurningar til hæstv. sjútvrh. í sambandi við þessa lagasetningu og reyndar í sambandi við lögin í heild, ekki aðeins frá síðasta ræðumanni, heldur og frá hv. 1 þm. Sunnl., hvort ekki þyrfti að gera frekari breytingar á útflutningsgjaldslögunum. Ég bendi m.a. á það vegna þess, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það er á valdi rn. að breyta skiptingunni á þeim sameiginlega hlut, sem samtök sjómanna fá á móti útgerðarmönnum, það er á valdi rn. að breyta þeirri ákvörðun, sem var tekin í tíð fyrrv. ríkisstj. þar um. Ég bendi á það, að Sjómannasamband Íslands er lögformlegur aðili samkv. lögum Alþýðusambandsins innan þess og á lands mælikvarða. Hins vegar fær það ekki nema 1/3 hluta á móti Alþýðusambandi Íslands, og hluti Alþýðusambandsins er ekki notaður í þágu sjó manna eða sjómannastéttarinnar. Mér er ekki betur kunnugt en Alþýðusambandið í tíð fyrrv. forseta þess hafi ákveðið að kaupa fyrir þetta fé hlutabréf í hlutafélagi hér í borg.

Það má auðvitað benda á fleiri breytingar, sem þarna þyrfti að gera. Það hefur verið bent á ýmsar þeirra, og ég skal ekki telja þær upp að sinni nú við 1. umr.

Hins vegar er ein spurning, sem ég vildi gjarnan koma á framfæri við hæstv. ráðh., og hún er sú, að sú frétt kom í einu dagblaðanna hér í Reykjavík, í dag frekar en í gær, að hann hafi bannað allar fyrirframsölur á loðnumjöli til annarra en Pólverja, þar til viðræður við þá hefðu farið fram. Nú veit ég ekki sönnur á því, en gjarnan vildi ég heyra orð hans um það og helst, að hann afneitaði þessari frétt, því að það er ófyrirgefanlegt, þegar þeir koma hingað og reyna samninga við okkur og pressa niður verð og hlaupi svo burt, ef það getur verið, að æðsti maður íslenskra sjávarútvegsmála hefði leyft sér að banna slíkar fyrirframsölur, áður en að þeim kom.

Ég vil aðeins endurtaka mín orð um það, að mér finnst hræsnin í hámarki, þegar stuðningsmenn hæstv. núv. ríkisstj. telja það heilaga skyldu sína að samþykkja þetta frv., sem felur fyrst og fremst í sér breytingu á hlutaskiptum sjómanna, — sömu mennirnir sem gengu froðufellandi um í stéttarfélögum og á fundum haustið 1968 og fram eftir ári 1969, þegar nákvæmlega sömu aðstæður steðjuðu að, sömu atburðir eða efnislega skyldir, og ríkisstj. þurfti að fara sömu leiðir. En nú eru þeir samþykkir, og það er eingöngu vegna þess, að þeir styðja aðra ríkisstj. en þá var við völd. Nú er að þeirra dómi sjálfsagt að beita þrælalögum og kúgunarlögum við íslenska sjómannastétt, og ég segi aftur svei.