31.01.1974
Sameinað þing: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

121. mál, z í ritmáli

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir góðar undirtektir við till. mína o. fl. hv. þm. á þskj. 148. Hv. þm. nefndi mörg skemmtileg dæmi, sem styðja í einu og öllu okkar tillögugerð. Hann velti því að vísu fyrir sér undir lok ræðu sinnar, hvað átt væri við í grg., þar sem segir: „Öllu undanhaldi, er varðar íslenskt mál, talað eða ritað, ber þegar í stað að snúa í sókn“ — hvort hér mundi kannske átt við það, að þar sem menn hafa hingað til skrifað aðeins eina z, yrði farið að skrifa tvær. Þessu er nú ekki þannig varið, heldur er hér átt við það, að það verði bætt um betur og snúið við frá því undanhaldi, sem varð þegar árið 1934, þegar Haraldur Guðmundsson féllst á að veita undanþágu frá kennslu á ritun z í barnaskólum. Frá þessu undanhaldi þarf að snúa og málinu í sókn.

Hæstv. menntmrh. virtist bæði sár og ákaflega móður í sinni ræðu. Að vísu kom ýmislegt fram í henni, sem ánægjulegt var á að hlýða, en mestum hluta ræðutímans varði hann í að fjargviðrast yfir því, að mig hefði skort háttvísi í málflutningi, tillögugerðin væri hrokafull og ég hefði haft þar í frammi getsakir um menn og málefni, sett fram órökstudda sleggjudóma, eins og hann nefndi það, hvernig svo sem rökstuddir sleggjudómar eru settir fram, og að þess væru ekki dæmi, að með slíkum hroka væri fram farið, þegar mál væru búin í hendur Alþingi.

Ekki verða það rök fyrir málstað hæstv. ráðh., þótt á þyki skorta um háttvísi hjá mér. Ég tók fram í minni framsöguræðu, að grg. væri fullyrðing, og ég þóttist finna þeirri fullyrðingu stað í framsöguræðu minni við fyrri hluta umr. En hver var aðdragandi tillögugerðar okkar flm.? Án nokkurs rökstuðnings hafði verið tilkynnt af hálfu menntmrnr. um grundvallarbreytingu á Íslenskum rithætti. Nú er það svo, að allt, sem snertir íslenskt mál, er mér ákaflega viðkvæmt, og ég þykist vita, að svo er um marga fleiri, og ætti raunar að vera um alla. Hvað var það, sem raunverulega hafði skeð, hver var aðdragandi þessarar tillögugerðar? N. hafði verið sett á laggirnar til að endurskoða ritreglur. Spurt hefur verið um, af hvaða ástæðum á það ráð var brugðið. En fullnægjandi svör við því hafa ekki fengist né heldur kom það fram hjá hæstv. menntmrh. í ræðu hans hér á dögunum.

Í Morgunblaðinu hinn 5. sept. s.l. segir svo í tilefni af því, að auglýst er, að z skuli numin brott úr ritmáli, — það er viðtal við hæstv. menntmrh., Magnús Torfa Ólafsson, og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Magnús Torfi Ólafsson sagði í viðtali við Morgunblaðið, að ráðist væri í þessa breytingu einmitt nú, þar eð menn hefðu talið það vera að fara aftan að kennurum og nemendum í skólum að kenna z í hálft eða heilt skólaár til viðbótar, þegar ljóst var, að samstaða var innan n. um þessa tilteknu breytingu og hún kæmi því óhjákvæmilega til framkvæmda.“

Í Morgunblaðinu hinn 26. jan. gefur að líta fróðlega grein eða spurningalista til hæstv. menntmrh. frá gagnfræðaskólakennara, Skúla Benediktssyni á Ísafirði. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í upphafi þessa skólaárs fengu íslenskukennarar í hendur bréf frá menntmrn., þar sem sagt var, að námsefnið setningafræði í landsprófsdeildum yrði hið sama veturinn 1973–1974 og verið hafði 1972–1973, þó með tveim smávægilegum undantekningum. Nú rétt fyrir jól fengum við svo í hendur annað bréf, þar sem prófkröfum í setningarfræði er gerbreytt, sömu kröfur gerðar til nemenda í landsprófsdeildum og hinna, er taka gagnfræðapróf í vor.“

Sem sagt, þá var ekki verið að fara aftan að kennurum og nemendum, þótt mjög mikilvæg breyting um kennslu í setningarfræði væri tilkynnt löngu eftir að hafin var kennsla í þessum fræðum og líklega eins og segir á öðrum stað í þessari grein, að kennarar höfðu lokið við að kenna þennan þátt námsins.

Það segir í viðtalinu í Morgunblaðinu, sem ég vitnaði til áðan, að hæstv. menntmrh. hafði talið óhjákvæmilegt, að framkvæmdin um niðurfellingu z kæmi til framkvæmda, af því að þessi n. hafði orðið sammála um að leggja það til. Hvaðan kemur þessari n. slíkt alræðisvald? Er að undra, þótt mönnum verði skapfátt, þegar slíkar gjafir eru að þeim réttar.

Í ræðu sinni við fyrri hl. umr. taldi hæstv. menntmrh., að það væri tæpast í verkahring Alþingis að taka ákvörðun í slíku máli sem þessu. Ég vil auðvitað ekki gera honum upp þær skoðanir, að hann átti, að þetta komi ekki Alþingi við, hann orðfærði það á þann veg, að hann teldi málið svo margslungið, að það mundi naumast vera á færi hv. alþm. að gera sér nægilega og fyllilega grein fyrir öllum þáttum þess, til þess að þeir gætu um það fjallað. Honum er auðvitað ljóst, að hann er ábyrgur gagnvart Alþingi, og ef hann telur sér fært að taka um þetta ákvörðun, þótt með ráði n. sé, þá ætti öllum hv. alþm. ekki síður að vera það fært. Og málið snýr heldur betur að hinu háa Alþingi, þar sem við höfum mátt búa við það síðan í haust, að öll þingskjöl eru útbíuð í þessari ritvillu. En Alþingi getur auðveldlega tekið afstöðu í þessu máli, vegna þess að þetta mál er ekki á neinu rannsóknarstigi. Málið er fyrir löngu þaulrætt og útrætt. Það náðist samkomulag í þessu máli árið 1929 eftir gríðarlega langa þrætu og illvíga á stundum, og samkomulagið var gert að allra bestu manna yfirsýn.

En lítum þá nánar á einn þátt þessa máls, sem hefur vissulega sérstöðu, og það eru vinnubrögð þessarar n., sem hæstv. ráðh. skipaði til að endurskoða íslensker ritreglur. Hæstv. ráðh. .setti n, erindisbréf. Þar greinir hann frá og í ræðu sinni hér á þriðjudaginn greindi hann frá því, hvert innihald þess erindisbréfs hefði verið.

1) Endurskoðun núgildandi stafsetningar íslenskrar tungu með nokkra einföldun tiltekinna stafsetningarreglna að markmiði. Nánar tiltekið skal nefndin taka til athugunar eftirtalin stafsetningaratriði:

a) z. b) Stóran og lítinn staf. c) Tvöfaldan samhljóða. d) y, ý og ey. e) J-reglur. f) É. g) Sérhljóða á undan ng og nk. h) Eitt orð eða tvö. i) Hugsanlegt aukið valfrelsi um rithátt tiltekinna orða eða hljóða.

2) Athugun á greinarmerkjasetningu með samningu nýrra einfaldari reglna að markmiði.

3) Tillögugerð um framkvæmd þeirra hugmynda, sem n. kann að setja fram um breytta stafsetningu, einkum að því er varðar samningu kennslubókar í nýrri stafsetningu og greinarmerkjasetningu, kennslu þessara greina í skólum, svo og nýrra stafsetningar og greinamerkjasetningar í öllu prentuðu máli, sem gefið er út á vegum ríkisins.

Svo sagði hæstv. ráðh. í framhaldi af þessu, að sér hefði borist bréf frá þessari n. hinn 20. ágúst, en hún hefði verið skipuð í maí, þar sem n. tók fram og skýrði frá því sjálf, að hún hefði starfað allmikið í sumar og væri nú búin til þess að gera till. skv. erindisbréfinu, till. um það, að z skyldi niður felld.

Nú er það með hreinum ólíkindum, að þegar einni n., stjórnskipaðri n., er fengið svo viðamikið verkefni í hendur sem þetta, að hún skuli skila af sér með þessum hætti, sem hér ber raun vitni um. Hæstv. ráðh. taldi, að ég hefði verið með getsakir í garð n. Hann upplýsti og, að nál. lægi fyrir. Hann gerði þó enga tilraun til þess að gefa mönnum innsýn í, hvað það feli í sér, þetta nál. Ég veit ekki, hvers lags getsakir það hafa verið hjá mér í garð n. Ég vék að vísu að því, að í boði mundi vera, að taka y til sérstakrar meðferðar. Og það var ekki af getsakaástæðum, sem ég gerði það, því að í viðtali við Halldór Halldórsson prófessor, form. n., sem Morgunblaðið hafði hinn 5. sept. s.l., segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Halldór sagði og, að y yrði tekið fyrir, en hann vildi engu spá um það, hvað um það yrði. Sagðist hann geta ímyndað sér, að ekki yrðu allir sammála um það.“

Form. n. lætur hafa eftir sér, að hann geti ekkert um það sagt, hvað um y verði, því kunni að verða kastað, enda liggur það í augum uppi, að þetta verður ekki skilið á annan veg en þann, að að því kunni að draga að því verði varpað fyrir róða. Þess vegna er ekki um neinar getsakir hjá mér að tefla, þótt að ég héldi þessu fram. Ég hafði ekki heft hugmynd um, að þessi grg. n. lá í rn., enda sparaði hæstv. ráðh. sér alveg að upplýsa nokkurn skapaðan hrærandi hlut um það, hvað það á annað borð innihéldi. Ég vil nú spyrja: Ber skýrsla n. með sér eða er þar að finna till. um það t.d. að fella niður y? Þessi vinnubrögð n. og að hæstv. ráðh. skuli verða það á að gína við þessu með þeim hætti að verða strax við till. n. og taka um það ákvörðun, að þessari samþykkt þeirra, sem formaðurinn sagði, að væri nú reyndar í meginatriðum samkomulag um, væri framfylgt, eru með algjörum ólíkindum.

Eitt af því, sem hæstv. ráðh. gagnrýndi mig fyrir, var það, sem honum ofhasaði gersamlega, að ég hefði haft svigurmæli í frammi í garð prófessors Halldórs Halldórssonar, sem hefði verið kennari minn á sinni tíð. Ég kannast ekkert við þessi svigurmæli. Og svo vill nú reyndar til, að Halldór, sem er gamall og gróinn vinur minn, varð einna fyrstur til þess að opna fyrir mér þann töfraheim, sem íslensk tunga hefur að geyma, að það háttar þannig til, að hann er um það manna færastur að svara fyrir sig, ef honum þykir á sig hallað, þannig að ég sé enga ástæðu til þess sérstaklega að biðja afsökunar á þeim orðum, sem ég viðhafði. En það hafa kannske verið svigurmæli í garð Halldórs Halldórssonar að vitna til þess, sem hann staðfesti í viðtali á opinberum vettvangi, að hann, sjálfur form., ætlaði sér að halda áfram að skrifa z. Samkomulag verður í meginatriðum innan n. um þetta, en form. sjálfur heldur fast við að rita z áfram.

Ég las hér upp áðan erindisbréf til n. Og mér flaug í hug í gærkvöldi undir svefninn samlíking við þessi vinnubrögð. Við skulum hugsa okkur, að það hvarflaði að siglingamálaráðh. að láta endurskoða allar siglingareglur varðandi t.d. kaupskipaflotann Íslenska. Ýmsar af þeim eru vitanlega alþjóðareglur og flestar, en hann gæti kannske viljað eftir till. fróðra manna, að þetta yrði tekið til endurskoðunar, enda er það góður siður að endurskoða reglur, sem lengi hafa gilt. Og það væri um allan öryggisbúnað skipanna, kaupskipanna, t.d. um fjölda skipshafnar um menntun skipstjórnarmanna o.s.frv. Hann skipaði n. og form. í þá n., skipstjórann á flaggskipi flotans, og setti henni þetta erindisbréf, með þessu innihaldi, sem ég var hér að rekja. N. settist á rökstóla 3 mánuði eða svo og skrifaði síðan bréf, þar sem hún lýsti því yfir, að hún hefði unnið mikið, eins og hin n. gerði, og væri nú í meginatriðum sammála. um að leggja til, að messadrengurinn yrði settur í land. Síðan yrði blaðamannafundur náttúrlega, og þar kæmi Moggi og form. n. er beðinn skýringar á þessu, og hann mundi sjálfsagt segja sem svo: Ja, mönnum leist svo, að það yrði geðbót að þessu um borð í skipum. Hins vegar teldi hann sjálfan sig það góðan á taugum, að hann mundi hafa áfram messadreng. Nú síðan yrði samtal við siglingamálaráðh. og hann spurður um ástæðuna, og hann mundi svara, að þetta hefði orðið að gera strax, svo að skipin héldu ekki áfram að sigla í reiðileysi. Þetta er alveg nákvæm samlíking við það, sem þarna skeður, þegar kippt er út einu allra smæsta atriðinu af því verkefni, sem n. átti að vinna, og það afgreitt með þessum dæmalausa hætti, sem við höfum hér fyrir augum.

Hæstv. menntmrh. upplýsti, hverjir skipa þessa n., allt sjálfsagt valinkunnir sæmdarmenn. Ég er gagnkunnugur form. og get borið vitni um það, að hann er hinn hæfasti maður. En er það ekki rétt hjá mér, ég leit svo til, að það væri hann einn, sem væri málfræðingur að sérmenntun, af þessum 5 mönnum. Og þessi sérmenntaði málfræðingur ætlar að halda áfram að skrifa z.

Ég hygg og er sannfærður um, að hæstv. menntmrh. hafi verið hlunnfarinn í þessu máli. Ég átti satt að segja allra síst von á því, að þetta frumhlaup yrði af honum gert, að þetta sé framkvæmt af óaðgæslu, að undirlagi sérviskuananna, sem mér býður í grun, að hafi riðið húsum í okkar menntamálum og skólamálum í auknum mæli undanfarin ár.

Ég komst hér yfir einkennilega bók, og það má mikið vera, ef hún er ekki skyld einhverjum þeirra, sem skipa þessa endurskoðunarnefnd. Hún er: „Marklýsingar móðurmálsnáms fyrir grunnskóla.“

Nú er í þessu blaði, sem ég vitnaði til hér, og grein eða fyrirspurnalisti frá kennara á Ísafirði. Þar er vikið að þessu, og e.t.v. leggur hæstv, menntmrh. lykkju á leið sína og svarar hér og nú því, sem fram kemur í þeirri fsp. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í byrjun skólaárs s.l. haust barst okkur gagnfræðaskólakennurum fjölrit, er ber nafnið „Marklýsingar móðurmálsnáms fyrir grunnskóla.“ Þessu riti, sem er mikið að vöxtum, fylgir bréf, dags. 22. ágúst 1973. Bréfið er undirritað af forstöðumanni skólarannsóknadeildar menntmrn. fyrir hönd ráðh. eftir umboði. Það er ritað með z. Í námsskrám, er gagnfræðaskólakennurum bárust í upphafi þessa skólaárs, er getið um 7., 8. og 9. bekk grunnskóla.“ Síðan heldur Skúli áfram og segir: „Mér er kunnugt um, að Alþ. var ekki sett fyrr en 10. okt. í haust, og ekki veit ég til þess, að frv. um grunnskóla, þ.e. poppskólafrv. svokallaða hafi verið afgreitt fyrir jól. Fyrsta spurning mín til þín er því þessi: Var eitthvert aukaþing kallað saman s.l. sumar, þar sem hið stórmerkilega frv. um grunnskóla, óskabarn fagaula og yfirumboðsmanna, var samþykkt, eða hefur skólarannsóknadeild menntmrn. öðlast eða tekið sér löggjafarvald í menntamálum ?“

Þetta eru orð í tíma töluð. Hér er dæmalaus bók, sem heitir „Marklýsingar móðurmálsnáms fyrir grunnskóla“, og maður getur ekki betur séð en með útgáfustarfsemi þessari sé þegar tekið til við að framfylgja lögum, sem aldrei hafa verið sett.

Hæstv. menntmrh., svo að ég fari nú að stytta mál mitt, hélt því fram, að z skipti engu máli í sambandi við framburð íslensks máls, og nokkurn veginn er það nú rétt. Þó má taka til athugunar einstaka orð og orð, sem t.d. honum hlýtur að vera mjög nákomið, eins og vestfirskur. Við segjum ekki „vestfirskur“, heldur „vestfirðskur“, þannig að ðs, sem z stendur fyrir, það má merkja það. Og ég vil taka það strax fram hér og nú, að mér er z ekki svo heilög að ég sé ekki tilbúinn til samninga um það að skrifa fullum fetum þá bókstafi, sem hún stendur fyrir. En hvað gæti skeð, ef þarna stendur vestfirskur og ð horfið, z ekki lengur skrifuð, heldur s, og ð þess vegna horfið? Þá gæti, og við verðum að hugsa í mörgum áratugum eða öldum, — þar sem ð er ekki lengur fyrir hendi, þá gæti þetta orð „Vestfiringur“ með tímanum, en ekki Vestfirðingur. Og þá mundi menn ekki, a.m.k. hér syðra, sem segja „fleirra fólk“, ekki muna um það að bæta við og segja „Vestfirringur“, og þá er nú heldur illa komið fyrir honum sem Vestfirðingi, því að Vestfirringur, sbr. vitfirringur, er sá, sem er fjarri Vestfjörðum, eins og hinn er fjarri vitinu. Sunnlendingum yrði síðan, vegna þess að d er horfið „Sunnlenningur.“ Það er léttara að segja það, og tilhneiging almúgans er vissulega sú að velja það, sem léttara er í framburði.

Eitt orð hefur verið hér mikið í prentuðum skjölum hins háa Alþingis í allan vetur. Það er landhelgisgæsla. Við segjum: landhelgisgætsla, og t er þarna með, um það er engum blöðum að fletta. Það segir enginn landhelgisgæsla. Og hvað skyldi svo ungt fólk, sem fer að velta þessu orði fyrir sér, hugsa? Gæsla. Hér er hvergi gát neitt nærri eða þá allra síst aðgætsla, hvergi er gát þarna við. Það væri auðvelt að skýra þetta út sem það mundi vera komið af því að gægjast, að landhelgisgæslan væri þá á gægjum. Það hafa nú sumir vestfirskir sjómenn og jafnvel austfirskir haldið því fram, að hún hafi ekki miklu meira gert um nokkra hríð en það, og er talið af þeim, sem gerst þekkja, að sé mjög ómaklega að henni vegið með þeim hætti.

Hæstv. menntmrh. gat þess, að í tíð Hannesar Hafsteins, 1907 mun það sennilega hafa verið, því að eftir 1908 hafði hann sem mest annað að vinna, hafi verið gefnar út reglur um rithætti, þar sem z var ekki með, og enn fremur gat hann þess, að Jón Magnússon hefði brugðið á þetta ráð líka árið 1918. Þetta er alveg rétt. En þessar aðgerðir og þessar tilraunir enduðu í sama skötulíkinu og allar aðrar til þess að koma z fyrir kattarnef. Það er 6 árum síðar, eftir að Jón Magnússon hefst þarna handa og menn sáu, að við vorum að komast í ófæru í þessum efnum, sem skipuð var n. ekki ómerkari manna en Alexanders Jóhannessonar, Einars Jónssonar magisters og Jakobs Smára. Ég man það rétt, að það voru þessir menn. Og niðurstaðan eftir margra ára þóf og eftir að jafngagnmerkir menn fleiri höfðu um vélt, eins og sannanlega Sigurður Nordal og Sigurður Guðmundsson skólameistari, þá verður að samkomulagi að gefa út reglurnar hinn 25. febr. 1929. Hæstv. menntmrh, vitnaði í Fyrstu málfræðiritgerðina, sem enginn veit raunar hver ritaði, en ég vona, að það hafi verið Hallur Teitsson, sonarsonur Ísleifs biskups, því að mér er mjög vel til alls þess fólks. Að vísu varð Gissur biskup fyrstur til þess að leggja á almenna skatta á Íslandi. Samt sem áður varð hann mjög ástfólginn með þjóð sinni, og ætti hæstv. fjmrh. að athuga, hvernig hann fór að því. Hæstv. ráðh. leiddi Hall sem vitni í móti z. Ég veit ekki betur en ég hafi í minni framsögu leitt fram fjölda autores og allt fram úr öldum, sem börðust fyrir brottnámi z í ritmáli. En hvernig má það vera, eftir að stórmenni í íslenskri menningar- og málssögu, eins og Hallur Teitsson, Fjölnismenn, Konráð, Jónas, Tómas, Brynjólfur, síðar Björn M. Ólsen rektor, Guðmundur Björnsson landlæknir, geysiáhrifaríkir menn, — hvernig má það vera, eftir að þessir menn höfðu leitt fram hesta sína að etja við z, að hún skyldi samt sem áður balda velli? Þetta sýnir styrk hennar. Ástæðan er auðvitað sú, að íslenskan hélt alltaf velli, á hverju sem gekk. Hún stóðst meira að segja um aldir danskan embættismannalýð, sem allur almúginn og ekki síst yfirstéttin apaði bæði í máli og siðum, og hún reis upp úr þeirri eimyrju e.t.v. fegurri og sterkari en nokkru sinni fyrr. Það gerðu auðvitað bækurnar, þau dýru membrana, Íslands líf, eins og sá lærði úr Grindavík orðaði það. Þær bækur voru ritaðar með z auðvitað.

Það er tilgangslaust fyrir hæstv. menntmrh. að vitna í Hall Teitsson, þar sem hann segir, að z sé hebreskur stafur. Við hæstv. menntmrh. og ég erum alveg jafngóðir Íslendingar, enda þótt ýmsir merkir fræðimenn telji okkur upphaflega af öpum komna.

Ýmsir hafa orð á því, að erfitt sé að kenna og læra ritun z, — að erfitt sé. Það ætti að varða við lög að nefna erfiði í sambandi við nám og kennslu í íslensku móðurmáli. Enda er ekki nokkur vandi að læra að rita z, og ef einhver hv. þm. kann ekki til fullnustu að rita z, þá skal ég vera viss um, að það tæki sæmilegan kennara ekki nema svona klukkutíma að kenna honum það næstum því til fullnustu, þannig a.m.k., að skammlaust væri.

Eftir 150 ára uppstyttulitla hörkuþrætu um íslenskar ritreglur náðist samkomulag árið 1929. Við það samkomulag höfum við farsællega búið í hartnær hálfa öld. Við skulum fyrir alla muni ekki rjúfa það samkomulag. Við skulum ekki rjúfa þá sættargjörð í fljótræði og að ófyrirsynju.