31.01.1974
Sameinað þing: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

154. mál, atvinnumál aldraðra

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef ásamt tveim þm. Alþb. öðrum, þeim Eðvarð Sigurðssyni og Helga Seljan, leyft mér að flytja þáltill. þá, sem prentuð er á þskj. 208 og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa í samráði við launþegasamtök landsins frv. til l. um atvinnumál aldraðra og verði að því stefnt, að allir, 67 ára og eldri, sem til þess hafa þrek og vilja, geti átt kost á atvinnu við sitt hæfi.“

Við flm. erum á þeirri skoðun, að með þessari till. sé hreyft mjög mikilvægu máli, sem nauðsynlegt sé, að tekið verði föstum tökum hið bráðasta. Vandamál aldraðs fólks hafa oft verið til umr., bæði innan þings og utan, og ekki er hægt að halda öðru fram en margt hafi á síðustu árum verið gert til þess að auðvelda öldruðu fólki lífið. Nægir þar að minna á stórhækkaðan ellilífeyri og tekjutryggingu til þeirra, sem engar aðrar tekjur hafa en ellilaunin.

En félagsmálaaðgerðir mega ekki einskorðast við að leysa vandamál. Hin ríkjandi stefna í félagsmálum er sem kunnugt er sú að koma í veg fyrir, að vandamál rísi. Hin mikla röskun, sem verður á lífi fólks, þegar það nær hámarksaldri í starfi og verður að setjast í helgan stein, sem kallað er, hefur svo mikil vandkvæði í för með sér fyrir svo marga, að það liggur við, að skilgreina megi ellina sem vandamál í þjóðfélagi okkar, í stað þess að á hana sé litið sem eðlilegt tímabil á æviskeiði mannsins. Þessi þáttaskil í lífi fólks hafa ekki eingöngu í för með sér fjárhagsáhyggjur fyrir flesta, heldur og kvíða fyrir breyttum lífsháttum og beinlínis áhyggjur vegna verkefnaskorts. Tilfinningin fyrir því að verða gagnslaus þjóðfélagsþegn í eigin augum eða annarra verður oft svo lamandi, að erfitt er undir að rísa.

Í Noregi mun hafa verið gerð félagsleg rannsókn um afleiðingar þess, að fólk verður að hætta í starfi sakir aldurs. því miður hef ég ekki séð niðurstöður n. í heild, en þar mun hafa komið fram, að áhrifa þessara reglna gætir miklu fyrr en ætlað var, að kvíði fyrir því að hætta grípi fólk allmörgum árum áður en að því væri komið, og dragi úr starfsþreki þess og lífslöngun. N., sem fær þessa þáltill. til meðferðar, gæti hugsanlega útvegað sér þessar niðurstöður norsku rannsóknarinnar, ef henni þætti þurfa. Þá held ég, að öllum sé ljóst án nokkurrar félagslegrar rannsóknar, að hér er um vandamál að ræða fyrir marga.

Ég get nefnt það, að ég hef rætt þetta mál við landlækni og þessa till. efnislega. Hann er mjög hlynntur málinu og sagðist ekki draga í efa, að læknastéttin í heild væri því fylgjandi, því að það væru læknarnir, sem yrðu að glíma við þetta vandamál, þeir sæju manna best, hversu mjög þetta þjakaði margan manninn.

Við flm. að þessari till. erum ekki að leggja til, að reglur um aldurshámark verði afnumdar. Þær eiga rétt á sér af ýmsum ástæðum. En það er staðreynd, að margur sjötugur maðurinn hefur starfsþrek og starfsvilja, og það er líka staðreynd, að heilsufar sjötugs fólks nú er yfirleitt betra en sjötugs fólks fyrr á tímum. Það eigum við að þakka bættri læknisþjónustu og betri lífskjörum. Aldrað fólk, sem verður að hætta sínu ævistarfi, leitar oft annarra starfa, en því stendur yfirleitt ekki til boða annað en störf á almennum vinnumarkaði, sem krefjast fulls vinnudags, og oft á tíðum er fullur vinnudagur þessu fólki ofraun. Þá er einnig hætt við, að þróun atvinnumála skerði möguleika þessa fólks til að fá slíka vinnu í framtíðinni. Má í því sambandi benda á sívaxandi vélvæðingu og aukið hagræðingarskipulag, eins og t.d. ákvæðisvinnustörf. Á þessu stigi leggjum við ekki til, á hvern hátt leysa skuli þessi mál, en við leggjum hins vegar áherslu á, að fullt samráð verði haft við launþegasamtök landsins. Eflaust koma fleiri leiðir en ein til greina. Jafnframt því sem sú skylda væri lögð á atvinnufyrirtæki að sjá öldruðu starfsfólki sínu fyrir vinnu, kannske við sérstök störf og styttri vinnutíma en almennt gerist, jafnvel aðeins hálfan daginn, væri líka hugsanlegt að koma á fót sérstökum vinnustöðum við léttan iðnað, þar sem aldrað fólk gæti starfað eftir þreki og aðstæðum hvers og eins. Við viljum þó leggja áherslu á það, að við teljum æskilegt, að mönnum sé gert kleift að starfa áfram á þeim vinnustöðum og í því umhverfi, sem þeir hafa unnið í, og reynt sé að finna lausn, sem feli í sér sem minnsta persónulega röskun fyrir hvern og einn.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til félmn.