04.02.1974
Efri deild: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég fagna því, að svo virðist sem mikill áhugi sé fyrir því á Alþingi, að settur sé á stofn félagsmálaskóli launþegasamtakanna, eða Félagsmálaskóli alþýðu. Ég tel rétt að mínna á, að fyrir Nd. liggur nú frv., sem hv. þm. Pétur Sigurðsson o.fl. hafa nú flutt öðru sinni og er, eins og segir í grg. þess, að stofni til hið sama og hv. þm. Hannibal Valdimarsson flutti á sínum tíma. Ég sé ástæðu til að láta í ljós óánægju mína yfir því, að hæstv. félmrh. skuli ætla sér að sniðganga tvö veigamikil launþegasamtök í sambandi við skipun skólastjórnar Félagsmálaskóla alþýðu. Þar á ég við BSRB og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Í því frv., sem liggur fyrir Nd., er gert ráð fyrir, að bæði þessi samtök skipi mann í stjórn félagsmálaskólans.

Ég er sammála hæstv. félmrh. um hin almennu rök, sem eru fyrir slíkri stofnun, og tek undir þau, en ég álít, að þau taki alveg á sama hátt til þeirra manna, sem standa í forustu t.d. í BSRB, og minni í því sambandi á, að hinn almenni launamaður innan ríkiskerfisins á nú mjög undir högg að sækja, t.d. með stofnun Félags háskólamenntaðra kennara, þar sem svo virðist sem það sé sett sem úrslitaatriði í sambandi við ákvörðun launa, hvaða menntun maðurinn hefur hlotið. Því er ég algerlega andvígur og tel, að menn eigi að hafa sömu laun fyrir sömu vinnu.

Ég vil beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál, að hún athugi, hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi við hæstv. ráðherra um það, að stjórn BSRB og stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins fái að tilnefna mann í skólanefndina.