04.02.1974
Neðri deild: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

191. mál, málflytjendur

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um málflytjendur var lagt fyrir síðasta Alþ. og þá fyrir þessa hv, d., og var fjallað nokkuð um frv. í n. Ég gerði þá allítarlega grein fyrir frv. og sé ekki ástæðu til að endurtaka þá ræðu, sem ég flutti þá.

Lög um málflytjendur eru að stofni til frá 1942, og síðan hefur margt breyst, ekki aðeins í þjóðlífinu, heldur einnig í málflytjendastéttinni, þannig að það hafa bæst við mjög margir málflytjendur, og þarf því engan að undra, þótt þörf sé á að endurskoða nokkuð þær reglur, sem um þá gilda samkv. lögum. Ljóst er, að það er æskilegt, að um málflytjendur séu fyrir hendi skýrar reglur, bæði um stöðu þeirra, skyldur og réttindi, er stuðlað geti að því, að almenningar geti borið til þeirra það traust, sem nauðsynlegt er. Og þær reglur, sem þetta frv. hefur að geyma, eiga að stuðla að því, að svo geti verið, og eru þess vegna sett ítarlegri ákvæði um ýmislegt heldur en í núgildandi l. og tekið skýrar fram.

Annars má segja, að það séu tvær meginbreytingar, sem felast í þessu frv., annars vegar varðandi prófnaun málflytjenda til þess að öðlast réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi og hins vegar að því er varðar agavald það, sem stéttin hefur haft yfir lögmönnum. Að því er agavaldið varðar, hefur það hingað til verið í höndum stjórnar Lögmannafélagsins, en nú þykir æskilegt að gera á því nokkra breytingu, þannig að gert er ráð fyrir að setja upp sérstaka stofnun, ef svo má segja, sem fari með það agavald, þriggja manna lögmannsdóm, sem kallaður er, en í honum eigi sæti tveir málflutningsmenn, en að auki formaður, sem skipaður er af hæstarétti.

Viðvíkjandi prófraun þeirri, sem málflytjendur hafa orðið að gangast undir, var í frv., eins og það var lagt fyrir í fyrra, gert ráð fyrir því að fella hana niður, en krefjast þess í stað ákveðins reynslutíma hjá starfandi lögmanni. Það var einkum þetta ákvæði, sem sætti andmælum utan þings og þá sérstaklega hjá laganemum, sem töldu, að með þessu móti gæti þeim verið gert erfiðara fyrir en áður að öðlast þessi réttindi. Með hliðsjón af þeim mótbárum, sem þá komu fram, hefur verið gerð breyt. á þessu frv. frá því, sem var í fyrra, þannig að það er reynt að fara hér eins konar meðalveg, þannig að reynslutíminn, sem krafist er, er styttur úr tveimur árum og niður í eitt ár, en jafnframt er þá krafist tveggja prófmála í stað þess, sem nú er, að krafist er fjögurra. Þessar breyt. eru samdar af þeim, sem samdi frv. þetta í öndverðu, þ.e.a.s. Benedikt Sigurjónssyni hæstaréttardómara. Ég vona, að með þessum meðalvegi sé fundin leið, sem aðilar þeir, sem hér eiga helst hlut að máli, geta sætt sig við. En það verður að segja, að þó að það sitji síst á mér að segja nokkuð vafasamt um lagakennslu, þá hefur hún ekki verið sniðin við það, að menn gætu gengið beint út í praxís frá prófborði. Það eru viss praktískt atriði, sem mönnum er nauðsynlegt að kunna og setja sig inn í. Það held ég, að flestir, sem kunnugir eru, hljóti að játa. Þess vegna hefur þessi háttur verið hafður á, að krefjast þessa frekara prófs fyrir lögfræðinga, sem ætla að gerast málflutningsmenn.

Mér er ljóst, að það skipulag, sem gilt hefur í þessu efni, er ekki það eina, sem getur komið til greina, og kannske ekki það ákjósanlegasta. En með því að fara þann meðalveg, sem hér er lagt til, held ég, að sé sneitt hjá því að leggja óeðlilegan stein í götu nýrra lögfræðikandídata, sem vilja leggja út á þessa braut. Og ég vona, að það sýni sig, að þeir sættist á þetta.

Auðvitað má hugsa sér ýmislegt annað skipulag. T.d. mætti hugsa sér það, að háskólinn stofnaði beinlínis til framhaldskennslu, framhaldsnámskeiðs, eins vetrar námskeiðs eða svo, fyrir þá, sem ætluðu að leggja þessa grein sérstaklega fyrir sig. En þá mundi það kalla að sjálfsögðu á aukna kennslukrafta hjá háskólanum, og kannske verður alltaf heppilegast, að menn kynnist þessu beint hjá starfandi lögmönnum, að einhverju leyti a.m.k., þó að það sé ekki krafist lengri tíma en þarna er gert, eins árs, og svo flutnings tveggja prófmála í viðbót. Að sjálfsögðu helst það, sem gilt hefur og gildir samkv. núgildandi l., að þeir, sem hafa áunnið sér með störfum rétt til þess að mega skiptast í dómaraembætti, eru undanþegnir þessari prófraun.

Ég vona svo, hæstv. forseti, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni, heldur geti ég vísað þeim, sem forvitni léki á að kanna þetta nánar, á þá grg., sem ég flutti um þetta í fyrra og ætti að vera tiltæk í þingtíðindum og ég sé ekki ástæðu til, eins og ég sagði áðan, að endurflytja hér.

Ég leyfi mér svo að óska eftir því, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.