05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

186. mál, ábyrgð vegna mistaka við hönnun hafnarmannvirkja

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda, 5. þm. Norðurl. e., á mál þetta, sem hér ber á góma, nokkra forsögu, sem hann rakti að nokkru. En hún er í örstuttu máli á þá leið, að á árinu 1969 voru hafnar framkvæmdir við gerð svonefndrar vöruhafnar sunnan við Oddeyrartanga á Akureyri. Fyrstu framkvæmdir voru dýpkanir og uppfyllingar á allstóru svæði sunnan við Strandgötu. Jafnframt voru gerðar takmarkaðar botnrannsóknir og unnið að hönnun mannvirkja. Í upphafi var talið, að tvær megingerðir bryggjunnar kæmu til greina: annars vegar stálþilsbakki og hins vegar steypt, opin bryggja, sem stæði á staurum. Frumhönnun virtist leiða í ljós, að mjög litill kostnaðarmunur væri á þeim tveim gerðum, er til álita komu, en af ýmsum ástæðum þ. á m. atvinnuástæðum, var talið réttast að byggja mannvirkið sem opna bryggju, þar sem vinna og innlent efni væru mun stærri liður í heildarkostnaði en í stálþilslausninni. Jafnframt var unnið að hönnun vörugeymslu á svæðinu á bak við bryggjuna.

Haustið 1969 var steyptur landveggur bryggjunnar. Í aprílmánuði 1970 var unnið að staurarekstri fyrir framan áðurnefndan landvegg, og kom í ljós, að nokkurt sig hafði orðið á undirstöðum vörugeymslu og landveggs. Í framhaldi af því voru gerðar frekari athuganir á jarðvegi við hafnarmannvirkið og burðarþoli í staurum. Á grundvelli þeirra athugana var ákveðið að steypa þekju bryggjunnar svo sem upphaflega hafði verið ætlað, enda var ráð fyrir því gert, að sigi bryggjunnar væri að mestu lokið, þar sem mælingar bentu til þess. Það kom hinsvegar í ljós, að sig hélt áfram með lítt breyttum hraða, og leitaði þá Hafnamálastofnunin til Geoteknisk Institut í Kaupmannahöfn, en sú stofnun hefur verið ráðgefandi við gerð ýmissa hafnarmannvirkja á Íslandi á undanförnum 15 árum og hefur því allmikla reynslu í að kanna íslenskan jarðveg. Þá var um leið hætt frekari framkvæmdum við höfnina og beðið niðursöðu rannsóknanna. Gerðar voru djúpboranir og nokkrar aðrar boranir á hafnarsvæðinu, sem leiddu í ljós, að á fyrstu 15–20 metrunum var um að ræða sandlög af mismunandi þéttleika, þó yfirleitt heldur lausan sand. Þar fyrir neðan voru síðan finni lög og mýkri, sem náðu niður á a.m.k. 100 m dýpi, en boranir voru gerðar niður á 40 metra dýpi. Ekki var þó talið hægt á grundvelli þessara umfangsmiklu rannsókna að segja til um, hver væri frumorsök sigs mannvirkjanna, né heldur endanlega, hvert burðarþol einstakra hluta mannvirkjanna væri. Voru því gerðar nýjar boranir haustið 1972, en ekki var það fyrr en á miðju ári 1973, að hægt væri að segja til um niðurstöðu þeirra. Mælingar sýndu, að meginhluti sigsins á sér stað fyrir neðan 15 m dýpi og því ekkert samband milli sigs mannvirkjanna og burðarþols stauranna.

Samhliða og í framhaldi af áðurgreindum rannsóknum hefur Hafnamálastofnunin unnið að tillögugerð nm, hvernig sá vandi, sem skapast hefur á Akureyri vegna vöruhafnarinnar, verði leystur. Hluti í þeim athugunum var gerður í ágúst s.l., og var enn leitað til Geoteknisk Institut og sú stofnun beðin að gera útreikninga og frekari athuganir á þremur tilgreindum möguleikum, sem til greina voru taldir koma sem lausn á hafskipabryggjuvanda Akureyringa. Það skal þó tekið fram, að þessar þrjár lausnir voru engan veginn þær einu, sem komið gátu til greina, a.m.k. fræðilega.

Síðan bygging hafskipabryggjunnar á Akureyri var ákveðin 1969 að höfðu samráði við Eimskipafélag Íslands, hefur félagið með tilliti til breyttrar tækni talið æskilegt, að gerðar yrðu nokkru meiri burðarþolskröfur til bryggjunnar en þá var gert, og jafnframt talið æskilegt, að meira rými fengist frá viðlegukanti að vöruskemmu. Skýrsla sú, er fyrirspyrjandi vitnar i, er svar við áðurgreindri beiðni og því raunverulega ekki skýrsla um burðarþol eða hagnýtt gildi þeirra mannvirkja, sem þegar hafa verið reist á innanverðri Oddeyri. Hinar umræddu þrjár till., sem Geoteknisk Institut var spurt álits um, voru:

1) Breytt aðalgerð mannvirkisins, þ.e.a.s. opin bryggja á staurum, en burðarþol aukið þannig, að hún geti borið 3.5 tonn á fermetra.

2) Stálþilsbakki í upprunalegri bryggjulinu, einnig reiknaður fyrir 3.5 tonna álag á fermetra.

3) Stálþilsbakki dreginn til baka um það bil 6 m frá upprunalegri bryggjulínu, þ.e.a.s. rétt framan við mannvirkin, eins og þau eru í dag. Álag á þennan bakka átti einnig að vera 3.5 tonn á fermetra.

Spurt var um stöðugleika þessara mannvirkja ásamt útreikningi á stálþili. Í niðurstöðu skýrslunnar er tekið fram, hverjar ráðstafanir stofnunin telur þurfa að gera í sambandi við hverja af hinum þrem lausnum. Allar eru taldar nothæfar, en stofnunin mælir af ýmsum ástæðum með þriðju lausninni, þ.e.a.s. stálþili dregnu 6 m til baka. Þessi valkostur, sem stofnunin mælti með sem bestri tæknilegu lausn af þeim þremur, er sendar höfðu verið til athugunar og fullnægðu öllum kröfum um burðarþol, gerði að vísu ráð fyrir, að núverandi steypt mannvirki verði litið sem ekkert nýtt í hinni endanlegu gerð bryggjunnar, þó að þau mundu að sjálfsögðu verða notuð sem vörupallar við þá framkvæmd, en þess má geta, að bygging vörupalla, ef ekki væru til þessar framkvæmdir, mundu nú kosta a.m.k. um 8 millj. kr. Fyllingar og dýpkanir, sem gerðar hafa verið, halda að fullu gildi sínu. Endanleg ákvörðun um það, á hvern hátt verði gengið frá hafnarmannvirkjum á nefndum stað á Akureyri, hefur ekki verið tekin, þar sem mjög margar og mismunandi lausnir geta komið til greina og allflóknir samningar milli ýmissa aðila þurfa að fara fram jafnhliða hinum tæknilegu athugunum á mögulegum lausnum. Umrædd skýrsla frá Geoteknisk Institut er því aðeins liður í þeim athugunum.

Í fyrirsögn fsp. og einnig í síðari lið hennar er því slegið föstu, að um mistök hafi verið að ræða við hönnun verkundirbúnings mannvirkisins. Nú eftir á hefur þetta að mínu leikmannsviti við allsterk rök að styðjast, og kemur þar sérstaklega til. að þær boranir, sem gerðar voru, þ.e.a.s. aðeins niður á um 20 m dýpi, reyndust síðar ekki gefa rétta mynd af raunverulegum traustleika þess jarðvegs, sem byggt var á, en mannvirkið var samt hannað eftir. Þá virðist og, að reikningsskekkjur hafi orðið við útreikninga, er hönnunina vörðuðu. Hitt er svo meira vafamál, a.m.k. í mínum huga, og ekki sannað, svo að óvefengjanlegt sé, hvort þessi mistök, sem nú hafa komið í ljós og valdið mjög verulegu tjóni, hæði beint og óbeint, hafi mátt a.m.k. að hluta til eða að öllu leyti teljast fyrirsjáanleg eða ekki eða hvort hér var þrátt fyrir allt staðið svo að verki sem vænta mátti, t.d. miðað við gildandi venjur í hliðstæðri mannvirkjagerð hérlendis, hvort rannsóknir og ályktanir þeirra, sem stóðu að hönnuninni á hverjum tíma, gætu miðað við aðstæður talist eðlilegar og í samræmi við þá kunnáttu og hæfni, sem til hæfra embættismanna í mannvirkjagerð er rétt og sanngjarnt að krefjast. Um þessi atriði hvorki get ég né vil gerast dómari að órannsökuðu máli. Ég hef þess vegna nú farið þess á leit við tvo óvilhalla og þekkta fræðimenn um mannvirkjagerð, að þeir rannsaki þennan þátt málsins. Þessir menn eru þeir dr. Ragnar Ingimarsson prófessor og Gústaf E. Pálsson fyrrv. borgarverkfræðingur. Verkefni þeirra í rannsókn málsins skýrist best af því bréfi, sem ég hef ritað þeim og ég vil leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta. En bréfið er svo hljóðandi:

„Rn. vísar til meðfylgjandi myndrits af grein, sem birtist í blaðinu Íslendingi, Akureyri, 11. þ.m., varðandi mistök, er talin eru hafa orðið við hafnarframkvæmdir við Strandgötu á Akureyri. Í fleiri fjölmiðlum hefur af tilefni téðrar greinar verið vikið að máli þessu og Hafnamálastofnun ríkisins og starfsmenn hennar bornir þungum sökum. Fyrir því telur rn. rétt að fá álitsgerð hlutlausra sérfræðinga á því, hvort hönnun og tæknilegur undirbúningur umræddrar hafnargerðar og aðrar aðgerðir Hafnamálastofnunar ríkisins voru með venjulegum hætti, rannsóknir eðlilegar, miðað við venju í hliðstæðri mannvirkjagerð hérlendis, og réttar ályktanir dregnar af rannsóknum, eða hvort staðið var að undirbúningi af hálfu Hafnamálastofnunar ríkisins með óvenjulegum og ófullnægjandi hætti og hvort um var að ræða mistök, sem voru fyrirsjáanleg.

Með tilvísun til þessa er yður ásamt Gústaf E. Pálssyni fyrrv. borgarverkfræðingi falið að semja fyrir rn. álitsgerð um framangreint mál. Hafnamálastofnun ríkisins mun veita yður aðgang að öllum skjölum, er málið varða. Æskilegt er, að téðri athugun verði hraðað eftir föngum.“

Ég tel, að þessi rannsókn sé nauðsynleg og eðlileg eftir það, sem á undan er gengið, en hlýt þó að taka fram, að hver sem niðurstaða hennar verður, getur hún naumast skorið úr því, hver fébótaábyrgð kann að bera á orðnum skaða, þótt hún varði að sjálfsögðu mikilvægan þátt þess máls. Þeirri spurningu tel ég, að naumast verði svarað nema fyrir réttum dómstólum landsins.