05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

186. mál, ábyrgð vegna mistaka við hönnun hafnarmannvirkja

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin og fagna því, að hann hefur fengið óvilhalla menn til þess að kanna fyrir sig tæknihliðar þessa máls, hvort þarna hafi verið um að ræða mistök í hönnun þessa mannvirkis, sem sé hægt að lita svo á, að hafi átt að vera hægt að sjá fyrir. Ég lít á þetta mál sem verulegt prófmál um það, hvort yfirleitt sé um það að ræða, þegar opinberir aðilar taka að sér hönnun verka, að þeir beri svipaða ábyrgð á þeim og einkaaðilar, og þarna sé um að ræða prófmál um samskipti ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði, þannig að ég held, að það sé afar brýnt að fara ofan í þetta mál og kanna það til hlítar.

Ég vil benda á, að hér er um mjög miklar fjárhæðir að ræða, þar sem hafnarmannvirkin kosta nú orðið nálægt 30 millj. kr., og óvíst, hvort þau verða nýtt að neinu leyti nema sem vinnupallar fyrir áframhaldandi hafnargerð, auk þess sem dráttur á þessu verki hefur kostað Akureyri óbeint stórar fjárfúlgur, þannig að hér er ekki um lítið mál að ræða.

Ég vil aðeins vekja athygli á því í þessu sambandi, að það var æ ofan í æ búið að benda á, að þarna væri verið að vinna að verki, sem væri ekki nægilega vel undirbyggt og nægilega vel hannað, því að í apríl 1970 var strax bent á það, að norskur aðili, sem ég nefndi í minni fyrri ræðu, Norsk Geoteknisk Institut, teldi, að staurarnir hefðu ekki nema 100 tonna burðarþol í stað 300, eins og átti að vera. Og ári seinna álítur hafnamálastjóri samt sem áður, að það sé með öllu óhætt að halda verkinu áfram á nákvæmlega sama hátt og áður. Enn kemur skýrsla frá þessum norsku aðilum í júlí 1972, en þá fer Hafnamálastofnunin loksins að kanna betur málið og kemst að þeirri niðurstöðu líka, að burðarþol mannvirkjanna sé miklu minna en upphaflega hafi verið reiknað með, þannig að þarna hefur liðið langur tími og var búið að benda á það rækilega, að þarna væri maðkur í mysunni, en ekki neitt að gert. Með þessu er ég ekki að segja eitt eða annað um það, hverjum þessi mistök séu að kenna. Ég held hins vegar, að það verði að koma alveg skýrt í ljós, hvernig á þeim standi, og það verði að æskja þess, að sá aðili, sem ber ábyrgð á þessum mistökum, beri líka fébótaábyrgð.