05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

402. mál, orkusala Landsvirkjunar til Norðlendinga

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að hera fram fsp. í 4 liðum til hæstv. iðnrh. og orkurh. á þskj. 333. Þessar spurningar eru sprottnar af rökstuddum grun Norðlendinga um, að stefna ríkisstj. í orkumálum hafi leitt til þess, að fullkomin óvissa sé um, að Norðlendingar fái notið raforku frá innlendum orkugjöfum til þess að mæta aukinni raforkuþörf fyrr en seint á árinu 1977 eða á árinu 1978. Fáir gera sér grein fyrir því nú, hversu alvarlegar afleiðingar slíkt hefði fyrir þróun Norðurlands. En því fyrr sem ráðamenn gera sér grein fyrir staðreyndum í svo afdrifaríkum málum, því betra og þeim mun meiri líkur eru á, að einhverjar viðunandi lausnir finnist.

Eins og kunnugt er, ákvað ríkisstj. á árinu 1972 að leysa orkumál Norðlendinga með því að leggja háspennulínu norður yfir öræfi frá fyrirhugaðri Sigölduvirkjun. Þessi lausn hefur síðan verið nánast eins og pólitískt sáluhjálparatriði fyrir ríkisstj. í þessum efnum. Hér gefst ekki tóm til þess að ræða þá hlið málsins í einstökum atriðum, en á það skal bent, að þessi pólitíska sáluhjálparstefna, sem ég vil svo nefna, varð til þess, að undirbúningi virkjana á Norðurlandi, sem komið hefðu að gagni til lausnar á orkuskorti næstu árin, hefur verið frestað ár eftir ár á þeim forsendum, að háspennulína að sunnan mundi verða fljótvirkasta og hagkvæmasta leiðin til orkuöflunarinnar. Kaldur raunveruleikinn hefur á hinn bóginn sýnt fram á, að þessi samtengingarstefna var frá upphafi röng til þess að ráða bót á orkuskortinum á Norðurlandi næstu ár, þótt slík samtenging sé góðra gjalda verð, þegar um verður að ræða miðlunargetu í báðar áttir, þ.e.a.s. þegar miklu meiri orkuframleiðsla eða vinnslugeta er komin á Norðurlandi.

Þegar háspennulínur, sem tengja höfuðborgarsvæðið næstu nágrannabyggðum, brustu hver eftir aðra á s.l. vetri, fóru menn að hugleiða, hvort ekki væri of áhættusamt og ótryggt að reisa línu yfir öræfi landsins, sem flytja þyrfti heilum landsfjórðungi daglega grunnorku til brýnna þarfa. Þá var farið að tala um byggðalínu. Sú hugmynd var þó hvergi nærri fullmótuð í kuldunum s.l. nóv. og des., en þá kom í ljós, að stórfelldur orkuskortur hefði verið við slíkar aðstæður á Landsvirkjunarsvæðinu og af því kæmi að engu haldi við þær aðstæður, sem verstar eru, þótt byggðalina kæmi norður, fyrr en Sigölduvirkjun yrði að mestu komin í gagnið. Haft var eftir formanni Landsvirkjunarstjórnar í útvarpi, að Landsvirkjun yrði ekki aflögufær með orku til Norðlendinga, fyrr en Sigölduvirkjun yrði að fullu byggð, sem verður ekki fyrr en 1977 eða 1978 samkv. áætlunum. Þessar fréttir útvarpsins juku ugg Norðlendinga um allan helming, sem vonlegt var.

En hvað merkir það í fjármunum við þær aðstæður, sem nú eru í orkumálum heimsins, ef svo fer, að Norðlendingar fá ekki innlenda orku á þessu árabili? Samkv, bestu upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér, er þörf á því að framleiða samtals 134 gwst. af raforku næstu 4 árin á Norðurlandi með dísilvélum, ef ekki koma til frekari virkjanir á Norðurlandi eða flutningur á raforku inn í fjórðunginn fyrir 1978. Með núverandi olíuverði yrði olíukostnaðurinn einn 270 millj. kr. við þessa orkuframleiðslu, en ef olíuverðið fer í 14 kr. á lítra, svo sem búist er við, yrði olíukostnaðurinn einn við að framleiða þessa orku tæplega 500 millj. kr. á ári. Tap þjóðarbúsins á því að framleiða þessa raforku með dísilafli yrði því á þessu tímabili um það bil 360 millj. kr., ef miðað er við heildsöluverð á raforku, eins og það er í dag hjá Landsvirkjun og Laxárvirkjun, en yrði 430 millj., ef miðað er við framleiðslukostnað raforku í gufuvirkjun, eins og nú er fyrirhugað við Kröflu. Þetta eru síður en svo ýktar tölur, vegna þess að við þær þyrfti að bæta tugum millj. vegna rekstrarkostnaðar dísilstöðvanna, auk olíukaupanna, en hér hefur einvörðungu verið reiknað með beinum kostnaði við olíukaup.

Með þessu er ekki öll sagan sögð. Sú áætlun, að framleiða þurfi 134 gwst. af raforku á Norðurlandi með olíu fyrir 1978, ef ekki koma til aðrar orkuöflunarleiðir, er byggð á reynslu síðustu ára um aukna notkun raforku í fjórðungnum. Við það bætist, að olíuhækkunin mun hafa í för með sér stóraukna eftirspurn eftir raforku til húshitunar, ekki síst á stórum stöðum eins og Akureyri. Í framangreindu dæmi er ekki reiknað með þessu, heldur einvörðungu stuðst við reynslu síðustu ára um aukningu orkuþarfarinnar. Þegar þetta er skoðað, er það sannarlega ekki að tilefnislausu, sem þær spurningar brenna á vörum flestra Norðlendinga, sem ég hef lagt fyrir hæstv. iðnrh. og orkuráðh., og vænti ég þess, að afdráttarlausar upplýsingar, komi fram í svari hans hér á eftir.