05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

402. mál, orkusala Landsvirkjunar til Norðlendinga

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Hér er nú hvorki staður né stund til að fara í almennar umr. um raforkumál, eins og hv. fyrirspyrjandi hafði tilburði til í orðum sínum hér áðan. Það er nýbúið að ræða þessi mál í tvo daga í Ed. hins háa Alþingis.

Ég vísa algerlega á bug þeirri staðhæfingu hv. fyrirspyrjanda, að það sé stefna núv. stjórnar í orkumálum, sem hafi leitt til orkuskortsins á Norðurlandi. Þar er að sjálfsögðu um að ræða ákvarðanir, sem teknar voru, áður en núv. ríkisstj. var mynduð.

Ég vil einnig vísa á bug þeim aths. hans, að það sé eitthvað óeðlilegt að beita sér fyrir samtengingu orkuveitusvæða, pólitískt sáluhjálparatriði, eins og hann sagði. Ég er þeirrar skoðunar, að slík samtenging sé alger forsenda þess, að það verði bætt úr orkuskorti um allt land og landsmenn allir geti þar setið við sama borð.

Ég skal þá víkja að fsp. hv. þm. Sú fyrsta er sú, hvenær ráðh. telji, að Landsvirkjun geti selt Norðlendingum örugga raforku um fyrirhugaða háspennulinu frá Landsvirkjunarsvæðinu til orkuveitusvæðis Laxárvirkjunar. — Unnt verður að selja raforku norður um háspennulínuna til orkuveitusvæðis Laxárvirkjunar, eftir að línan hefur verið reist, en að því er stefnt, að það verði á næsta ári. Þar til fyrsta vélasamstæða Sigölduvirkjunar hefur verið tekin í notkun sumarið 1976, getur orðið um einhverjar truflanir að ræða á þessari orkusölu í mikilli vatnsþurrð eða við aðrar slíkar óvenjulegar aðstæður.

Í annan stað er spurt, hvort ráðh. telji, að formaður stjórnar Landsvirkjunar hafi haft rétt fyrir sér, þegar hann sagði í fjölmiðlum, að Landsvirkjun væri ekki aflögufær um orku til Norðlendinga fyrr en á árinu 1977. — Nú mætti það æra óstöðugan, ef ætti að fara að spyrja ráðh., hvað þeir telji um eitt og annað, sem sagt kunni að hafa verið hér á landi. En í sambandi við þetta er staðreyndin sú, að formaður stjórnar Landsvirkjunar hefur ekki sagt eitt einasta orð um þetta í fjölmiðli. Hann ræddi þetta mál á almennum blaðamannafundi, og í fréttum útvarpsins var rangt eftir honum haft, það sem hann sagði. Form. stjórnar Landsvirkjunar segist hafa sagt þetta:

„Landsvirkjun hefur ekki örugga orku aflögu, fyrr en Sigölduvirkjun er komin í rekstur aumárið 1976. Er þá átt við vetrarorku. Eins og kunnugt er, verða ístruflanir gjarnan samtímis við Laxárvirkjun og við orkuver Landsvirkjunar.“

Allir útreikningar, sem byggjast á því, að ekki komi orka til Norðurlands fyrr en 1978, eins og hv. fyrirspyrjandi var að leika sér að hér áðan, eru því gjörsamlega út í hött.

Enn er spurt, hvort ráðh. telji, að Landsvirkjun geti selt Norðlendingum orku við svipaðar aðstæður og sköpuðust í nóv. og des. s.l. Það er alkunna, að eins og raforkukerfi okkar Íslendinga er enn sem komið er skipulagt, þá geta verulegar íshraflstruflanir valdið erfiðleikum í orkuöflun. Þetta á að sjálfsögðu við alls staðar á landinu, eins og menn vita ákaflega vel. Við höfum sjaldan átt við eins mikla erfiðleika að etja um langt skeið og í desembermánuði s.l., en þá kom mesti frostakafli, sem komið hefur á Íslandi í heila öld. Það er því augljóst mál, að þegar slíkt ber að höndum mun orkuöflunaraðilinn væntanlega láta eitt ganga yfir alla, að svo miklu leyti sem unnt er og aðstæður leyfa. Því er full ástæða til að ætla, að Landsvirkjun geti annað orkuflutningi til Norðurlands við svipaðar aðstæður og sköpuðust hér í des. í sama mæli og aðrir viðsemjendur Landsvirkjunar fá.

Í fjórða lagi spyr hv. fyrirspyrjandi, hvort ráðh. hafi í hyggju að gera bindandi samning við stjórn Landsvirkjunar um orkusölu til Norðurlands. — Ég hélt nú, að hv. þm. væri ljóst, að það er ekki orkuráðh., sem gerir samninga um orkusölu. Hins vegar liggur það í hlutarins eðli, að þegar búið er að tengja saman Norðurland og Suðurland, muni orkuöflunarfyrirtæki bæði sunnanlands og norðan þurfa að gera með sér samning um það, með hverjum hætti slík orkusala fari fram. Ef leitað er einhverrar fyrirgreiðslu rn. um það, er það að sjálfsögðu auðsótt mál. Í annan stað spyr hv. þm., hvort fyrst og fremst verði að því stefnt á næstu árum að afla Norðlendingum innlendrar raforku á þann hátt. — Nú ætti hv. fyrirspyrjandi að vita það ákaflega vel, að fyrir Alþ. liggur till. um 55 MW virkjun við Kröflu, og ég hef fulla ástæðu til að ætla, að um það mál sé algjör samstaða á hinu háa Alþ., þannig að vænta megi þess, að það nái fram að ganga á þessu þingi. Og þá verður reynt að hraða þeim framkvæmdum svo sem auðið er, þannig að Norðlendingar fái með sem fljótvirkustum hætti verulega stóra virkjun á Norðurlandssvæðinu. Þar er að sjálfsögðu um að ræða ákaflega mikilvægt öryggisatriði, bæði fyrir Norðurland og raunar fyrir Austurland líka.