30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

23. mál, bætt aðstaða nemenda landsbyggðarinnar

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Eins og fram kom í svari hans, mun nokkuð hafa verið gert til þess að framkvæma umrædda þál., þó að jafnframt hafi mátt heyra á svari hans, að meira hefði mátt í því gera. Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm, á því í sambandi við þetta mál. hvað það er í rauninni fjölþætt, vegna þess að mér skilst, að það sé nokkuð algengt, að nemendur, sem dvelja hér langdvölum á Reykjavíkursvæðinu og sækja skóla, slái sér saman og leigi sér húsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu, og þegar nokkrir nemendur koma saman, geta þeir jafnvel með þessum hætti komist betur frá því að fá sér húsnæði en að leigja einir herbergi, en geta þrátt fyrir það boðið allmiklu meira fyrir húsnæði en fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu telja sig geta gert. Þarna er um vandamál að ræða, sem ég held að væri hægt að leysa með samræmdum aðgerðum, með því að auðvelda nemendum að ná sér í annars konar húsnæði, t. d. með því að tengja námsstyrkjakerfi, sem komið er á nú og hæstv. ráðh. vék að og var þegar komið á í tíð fyrrv. ríkisstj., — tengja þetta námsstyrkjakerfi saman við þetta vandamál, þannig að greitt sé beint fyrir nemendum, sem fá þannig húsnæði, og hluti af þeirra styrk gangi til að greiða þetta húsnæði niður. Þetta er t. d. ein leið, sem ég held að þurfi mjög að kanna í þessum efnum.

Ég þarf ekki að orðlengja það, og ég veit, að hv. þm. gera sér grein fyrir því, hvað hér er um veigamikið mál að ræða og margþætt, og læt að lokum aðeins þá ósk í ljós, að hæstv. ráðh. haldi áfram að framkvæma þessa þál., sem ég tel að sé afar brýnt að haldið sé áfram að framkvæma með fullum krafti.