05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

402. mál, orkusala Landsvirkjunar til Norðlendinga

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig ekki sett út á þessar fsp., sem fram eru bornar hér af hv. 5. þm. Norðurl. e. Hins vegar get ég ekki neitað því, að mér þótti furðulegur tónn í þeirri stuttu ræðu, sem hann flutti hér fyrir fsp. sínum. Hann fullyrti t.d., að Norðlendingar hefðu rökstuddan grun um, að stefna ríkisstj. í orkumálum mundi leiða ófarnað yfir þá á næstunni, eitthvað í þá átt var fullyrðingin. Mér þykir þetta satt að segja ákaflega furðuleg fullyrðing enda algjörlega röng. Ég sé ástæðu til að mótmæla þessu sérstaklega. Norðlendingar gruna ríkisstj. ekki um neina græsku í orkumálum, síður en svo, heldur hygg ég, að segja megi, að Norðlendingar yfirleitt treysti aðgerðum ríkisstj. í orkumálum og telji stefnu hennar bæði rétta og jákvæða.

Ég vil líka minna á það, að Norðlendingar telja, að það hafi orðið stefnubreyting í orkumálum, síðan núv. ríkisstj. tók við.

En hitt er annað mál, að orkuvandamál Norðlendinga er orðið að neikvæðu nöldursmáli nokkurra sjálfstæðismanna og þá alveg sérstaklega hv. fyrirspyrjanda. Mér hefur stundum fundist, að þetta nöldur minnti á gamlan málshátt, sem segir, að sök bíti sekan. Hv. fyrirspyrjandi veit mætavel, að núv. orkuskortur á Norðurlandi er til kominn vegna óstjórnar orkumála í tíð fyrrv. ríkisstj. Það var þá stefna ríkisstj. að svelta Norðlendinga í orkumálum og hafa uppi þau vinnubrögð, sem hlutu að leiða til ófarnaðar. Því miður fæ ég vist ekki tækifæri til að segja meira um þetta nú, en ég vildi gjarnan hafa aðstöðu til þess vegna þessa síendurtekna nöldurs sjálfstæðismanna og þá alveg sérstaklega þessa hv. þm., 5. þm. Norðurl. e.