05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

402. mál, orkusala Landsvirkjunar til Norðlendinga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Vegna hóflegra ummæla 1. þm. Sunnl. vil ég vekja athygli á því, að ákaflega hatrömm deila, þar sem Laxárdeilan er, var til lykta leidd með samningum um það milli stjórnar Laxárvirkjunar og Landeigendafélags Laxár og Mývatns, að ekki yrði virkjað meira við Laxá. Með undirritun þessa samkomulags fékkst vatn á stóru vélarnar, sem settar höfðu verið niður í stóru göngin. Þetta samkomulag var ákaflega torfengið. Nú ætla ég, að menn séu að vekja upp draug, þegar hafnar eru umr. um hugsanlega breytingu á þessu samkomulagi, og hef nokkuð fyrir mér í því, að af því mundi ekki stafa margt gott að hefja þær umr. að nýju. Spurningin er: Hvort vilja menn rafmagn norður eða vilja þeir rifrildi? Rifrildið kynni að tefja fyrir því, að rafmagnið kæmi, og enda þótt ég vilji nú ekki kalla tal hv. þm. Lárusar Jónssonar nöldur, þá er því ekki að neita, að tónninn í honum, þegar hann ræðir raforkumálin, minnir nokkuð á hraðsuðuketil. Það er ekki rætt um leiðir til þess að leysa vanda. Það er aðeins rætt um leiðir til þess að halda uppi einhvers konar misklíð um það, hvernig leysa beri aðkallandi vanda. Vandinn er raunverulegur, og ég staðhæfi, að hann verður ekki leystur með því að hefja að nýju deilur um virkjun í Laxá.