30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

23. mál, bætt aðstaða nemenda landsbyggðarinnar

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til að segja fáein orð, vegna þess að eins og menn kannske muna, skeði það í fyrravetur, að við þm. stjórnarflokka og stjórnarandstöðu hér á Alþingi tókum höndum saman um kröfu um bætta aðstöðu í þessum efnum. Þm. Sjálfstfl. fluttu rétt um það leyti, sem umr. urðu allmiklar hér, hina ágætustu till., sem hlaut síðan samþykki í allshn. Fyrirspyrjandi, eins og við flestir þm. utan af landsbyggðinni, gerir sér ljósan þennan vanda nemenda utan af landsbyggðinni að útvega sér húsnæði, gott húsnæði og þá við skaplegu verði. Við höfum sem sé verið sammála um þetta mál. Og ég hygg, að við verðum að vera sammála um það núna, að viðbrögð hæstv. menntmrh. eru sannarlega þakkarverð. Að vísu er langt frá því, að þetta sé komið í það horf, sem æskilegt væri. En ég verð a. m. k. að játa fyrir mitt leyti, að mér finnst, að hér hafi verið brugðið við um framkvæmd þál. miklu betur en oft gerist. Þetta vil ég segja hér, vegna þess að ég hef undanfarið oft tekið undir gagnrýni og gagnrýnt sjálfur að eigin frumkvæði ýmislegt í menntamálum okkar og skólamálum.

Það er að sjálfsögðu rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að heppilegasta lausnin á þessu verður sú, að skólarnir séu heima í byggðarlögum nemenda sjálfra eða sem næst þeim, þeir þurfi ekki endilega að sækja hingað til Reykjavíkur og eiga svo undir hinum og öðrum, hvernig tekst til með húsnæði. Skilningurinn hér í Rvík kemur, má kannske segja, nokkuð greinilega í ljós, þegar rn. fer fram á það við Reykjavíkurborg að fá að nota Tónabæ sem mötuneyti handa þeim skólum, sem þar eru næst. Þetta er hinn ákjósanlegasti staður gagnvart þessum skólum og einnig sjálfsagt hin ágætasta aðstaða til þess að koma þarna upp þýðingarmiklu mötuneyti. Og ég vil láta í ljós undrun mína, að þessi málaleitan rn. skuli ekki hafa fengið jákvæðar undirtektir hjá Reykjavíkurborg.

Sem sagt, ég stóð hér upp til að þakka hæstv. ráðh, fyrir hans framtak, þó að ég taki hins vegar undir, að það sé langt því frá enn þá, að þetta sé komið í hið ákjósanlegasta horf.